top of page
Search

Chelsea heimsækja Burnley


Chelsea spilar í kvöld frestaðan leik gegn spútníkliði vetrarins, Burnley. Leikurinn er spilaður á heimavelli Burnley, Turf Moor og hefst kl 18:45.

Síðasti leikur

Leikurinn gegn Southampton um liðna helgi var vægast sagt furðuleg upplifun. Liðið var gjörsamlega hörmulegt í einhverjar 70. mín en lék svo frábærlega síðustu 20 mínúturnar. Það var Oliver Giroud sem gerði gæfumuninn, hann var kynntur til leiks á 61. mínútu fyrir slakan Morata og 9. mínútum síðar var hann búinn að skora fyrsta markið og rífa liðið í gang. Giroud sagði í viðtölum eftir leik að hann hefði sagt eitt orð við Eden Hazard um leið og kom inn í leikinn, það var orðið "Believe". Hazard janfaði svo leikinn áður en Giroud skoraði sigurmarkið. Öll þessi mörk komu á einhverjum 8. mínútna kafla sem segir okkur að þegar Chelsea hrökkva í gang þá getum alveg skorað mörk og spilað almennilegan fótbolta.


Það sem var einnig áhugavert við síðast hálftímann í þessum leik var að Conte spilaði 4-4-2. Hazard var frammi með Giroud og Pedro og Willian á sitt hvorum vængnum. Það væri gaman að sjá Conte taka sénsinn og byrja svona sókndjarft frá upphafi.

Andstæðingurinn

Burnley eru frábært lið sem er í dúndurformi um þessar mundir. Liðið er búið að vinna fimm (!) leiki í röð og fari svo að þeir vinni okkar menn í kvöld fara þeir upp fyrir Arsenal og væru þá í 6. sæti. Stjórinn þeirra er Sean Dyche en hann hefur stýrt liðinu frá því í október 2012. Dyche byggir liðið fyrst og fremst upp á sterkum varnarleik enda hefur liðið bara fengið á sig 29. mörk það sem af er vetri - aðeins Manchester liðin tvö hafa fengið á sig færri mörk.

Fram á við hafa þeir vinnuhesta og tröllkarla á borð við Ashley Barnes og Chris Wood. Einn þeirra besti maður sóknarlega er þó klárlega Jóhann Berg Guðmundsson sem hefur sprungið út á þessar leiktíð sem lykilmaður í liðinu.

Chelsea

Ég spái byrjunarliðinu svona:


Giroud hlýtur að fá traustið í þessum leik - annað væri bara galið. Ég vonast líka eftir að Rudiger fái að koma úr skammarkróknum og beint í liðið, við söknuðum hans gegn Southampton. Conte staðfesti að Emerson myndi byrja þennan leik og svo er spurning hvort Bakayoko komi aftur inn í liðið, Fabregas virkaði ansi þreyttur í síðasta leik.

Það er alveg spurning hvort að Pedro fái startið á kostnað Willian, bara upp á leikjaálagið að gera og svo er Ross Barkley þarna líka.

Við munum öll eftir fíaskóinu frá því í ágúst er Chelsea mætti Burnley í 1. umferð deildarinnar. Cahill fékk rautt spjald eftir 14. mín og Burnley komst í 3-0. Fabregas fékk einnig rautt spjald en Chelsea tókt þó að skora tvö mörk í seinni hálfleik. Okkar menn hafa því harma að hefna.

Ef Chelsea vinnur þennan leik erum við fimm stigum á eftir Spurs. Það er auðvitað grátlegt að hugsa til þess núna að ef Chelsea hefði bara unnið West Ham og gert jafntefli við Spurs þá væru liðin jöfn á stigum! Ég persónulega held að þessi barátta sé búin og að Evrópudeildin bíði okkar á næsta tímabili en við verðum alla vega að klára okkar leiki fyrst og sjá svo hvort Spurs klúðrar sínum málum eitthvað meira.

KTBFFH


bottom of page