top of page
Search

Heimaleikur gegn Stoke


Hátíðarfótboltinn heldur áfram nk. laugardag kl 15:00 er okkar menn taka á móti Stoke City í síðasta leik Chelsea á árinu 2017.

Síðasti leikur:

Leikurinn gegn Brighton skiptist í tvo hluta, fyrri hálfleiks frammistaða Chelsea og seinni hálfleiks frammistaða Chelsea. Í þeim fyrri héldum við áfram að sjá sömu vandamál og hafa verið að plaga okkar menn undanfarnar vikur, of hægur sóknarleikur og erfiðleikar með að brjóta niður varnir andstæðinganna, þrátt fyrir mikla yfirburði inni á vellinum sjálfum. Þetta breyttist allt strax í upphafi seinni hálfleiks er einn eitraðasti dúettinn í Evrópuboltanum lét til sín taka, Azpilicueta fékk þá tíma til að stilla miðið og smellti boltanum beint á pönnuna á Morata sem kláraði færið einstaklega smekklega. Þetta var sjötta (!) stoðsending Azpi á Morata á þessu tímabili.

Við þetta mark var eins og einhverjum álögum væri létt af okkar mönnum og boltinn byrjaði að ganga hraðar og færin komu í massavís. Brighton menn breyttu ekki skipulaginu sínu, vörðust enn mjög aftarlega en þrátt fyrir það tókst okkur að skapa 3 mjög góð færi á næstu 10 mínútum leiksins, þar sem Hazard átti amk að skora tvö mörk. Alonso gerði svo út um leikinn eftir hornspyrnu frá Fabregas.

Pælingar

Ég velti því fyrir mér hvort Chelsea séu að fara of varkárir inn í þessa leiki þar sem liðin hugsa fyrst og fremst um að verjast og halda markinu hreinu. Conte virðist vera búinn að ákveða að 3-5-2 kerfið eigi að vera hans fyrsti valkostur og er það ágætis þróun, en hvers vegna ekki að prófa að hafa alla okkar sókndjörfustu menn í byrjunarliðinu gegn liðum sem munu ekki einu sinni reyna að pressa okkur, það væri t.d. mjög spennandi að sjá Chelsea stilla upp svona byrjunarliði gegn lakari andstæðingi:


Þarna værum við með Pedro, Willian, Hazard, Fabregas og Morata alla inni í liðinu. Pedro hefur sýnt að hann getur leyst stöðu vinstri vængbakvarðar af hólmi þegar hann þarf ekki að verjast of mikið og Willian er uppalinn í stöðunni fyrir aftan framherjann. Fabregas myndi svo stjórna umferðinni á miðjunni og hefði núna mun meiri möguleika í sendingum sínum þar sem nánast allir leikmennirnir framar á vellinum geta tekið sína menn á og skapað hættu.

Líklega er Conte of íhaldssamur til þess að prófa þessa leikaðferð en fjandinn hafi það við erum að sjá Man City spila með álíka marga sókndjarfa leikmenn innanborðs og vinna alla leiki, hvers vegna ekki við?

Leikurinn gegn Stoke

Stoke City er eitt af þessum liðum sem er í þessum mjög svo þétta pakka sem nær frá 20. sæti til 10. sætis, en það eru ekki nema 8 stig sem skilja að þessi 11 lið. Þeir eru sem stendur með 20 stig eftir 20. leiki og er tímabilið búið að vera vonbrigði. Okkar gamla hetja, Mark Hughes, hafði miklar væntingar til tímabilsins og vildi sjá liðið taka næsta skref og festa sig almennilega í sessi sem lið í efri hlutanum. Þeir hafa ágæta leikmenn innanborðs eins og Shaqiri, Butland, Joe Allen og Choupo-Moting en bráðvantar markaskorara. Þeirra markahæstu menn hafa einungis skorað 4 mörk og oft á tíðum er Peter Crouch að spila í fremstu víglínu hjá þeim.

Mesta vandamálið þeirra er engu að síður vörnin, þeir hafa á að skipa verstu vörninni í deildinni, hafa fengið á sig 41 mark í þessum 20. leikjum sem er galin tölfræði. Stór partur af þessu eru fjarvera lykilmanna, Shawcross og Cameron hafa báðir meiðst í vetur og þá hafa Martins-Indi og Glen Johnson nánast ekkert spilað af sömu ástæðu. Okkar maður, Kurt Zouma, er búinn að spila nánast alla leiki og hafa hans frammistöður verið þokkalegar, ekkert meira en það samt. Zouma er auðvitað ólöglegur í leiknum á laugardag og Eric Pieters er fjarverandi vegna meiðsla, að lokum er svo Ryan Shawcross tæpur. Þannig Stoke mun enn á ný glíma við meiðsli í vörninni hjá sér.

Chelsea

Það er mjög þétt á milli leikja núna og því spurning hvort Conte róteri liðinu, ég spái byrjunarliðinu svona:


Stærsta spurningin er hvort Drinkwater komi inn í liðið á kostnað Fabregas og hvort Conte spili 3-4-3 eða 3-5-2. Það er risaleikur gegn Arsenal þann 3. janúar og því líkur á að Conte hafi þann leik eitthvað í huga. Ef Conte heldur áfram með 3-5-2 eru líkur á að annað hvort Drinkwater eða Bakayoko verði í liðinu á kostnað Pedro eða Willian. Christensen á að snúa aftur eftir veikindi, ef ekki verður Cahill þá áfram í hjartanu á vörninni eins og gegn Brighton.

Chelsea vann síðasta leik þessara liða nokkuð örugglega 4-0. Í þeim leik skoraði Morata þrennu og allt gekk upp. Mark Hughes er þannig stjóri að hann leggur alltaf upp með að vinna leikina, jafnvel þó það komi hressilega í bakið á þeim stöku sinnum á tímabilinu er þeir tapa stórt gegn stærri liðum. Stoke mun því reyna að sækja á okkur ólíkt Brighton og Everton sem varla reyndu að komast fram yfir miðju. Það mun vonandi skila sér í meira plássi fyrir menn eins og Morata og Hazard sem vonandi nýta sér það til hins ítrasta.

Ég ætla að vera bjartsýnn og spá 3-1 sigri og góðum endi á árinu 2017!

KTBFFH


bottom of page