top of page
Search

Upphitun: Heimaleikur gegn Brighton


Gleðilega hátíð!

Chelsea FC tókst að gera aðfangadag aðeins minna skemmtilegri sökum leiksins gegn Everton - sá leikur tókst að sprengja alla pirrings-skala. Næsti leikur er gegn nýliðum Brighton á öðrum degi jóla.

Síðasti leikur

Ef við reynum að greina þennan Everton leik og það án þess að detta í of mikla sleggjudóma þá hef ég nokkrar hugleiðingar, set þetta fram nokkuð hrátt og í einni belg og biðu:

  • Þetta er í þriðja sinn á tímabilinu sem okkur er "haldið" gegn mun lakari liðum. Hinir leikirnir eru töpin gegn West Ham og Crystal Palace. Í töpunum gegn Man City og Roma vorum við einfaldlega lakari aðilinn. Höfum líka í huga leikina gegn Swansea og Southampton þar sem við drusluðum inn einu marki til að kreista fram 1-0 sigra en vorum ekki að leika vel sóknarlega. Í þessum leikjum er liðið einfaldlega hægt, fyrirsjáanlegt og virkar þreytt. Þessir þættir lama alla sóknaruppbyggingu og því fer sem fer. Það verður líka að segjast að stundum hefur liðið verið ansi óheppið.

  • Það er ekkert leyndarmál að Conte þráir annan sóknarmann. Morata hefur verið að draga vagninn en hefur verið nokkra leiki frá og það hefur lamað sóknina. Conte treystir ekki Batshuahyi og notast þá við Hazard í fremstu víglínu. Fyrir mér er verið að sóa Hazard í þeirri stöðu þar sem hann spilar alltaf með tvo menn í bakið og fær aldrei tækifæri til þess að hlaupa neitt á vörnina.

  • Í síðustu 7 leikjum í Ensku úrvalsdeildinni hefur Chelsea bara skorað 9 mörk, á sama tíma hafa Man City skorað 18 mörk í sama leikjafjölda. Jafnvel þó við séum ansi fáliðaðir frammi finnst mér leikur liðsins of oft einkennast að of mikilli varkárni. Conte er langt frá því að vera öfgafullur knattspyrnustjóri sem gjörbreytir liðinu frá hliðarlínunni, og það finnst mér frekar vera kostur en galli. Hins vegar á hann til að "læsa liðinu" of mikið í jöfnum stöðum. Everton leikurinn er skýrasta dæmið, mér fannst liðið ekki taka nægilega mikla sénsa til að ná sigurmarkinu. Í þessari umræðu hvet ég fólk til þess að horfa á Man City spila, þegar þeir eru að sækja á vörn sem liggur mjög aftarlega, þeir sækja á vörnina úr öllum áttum og eru með gríðarlega mikinn hreyfanleika á fremstu mönnunum, eitthvað sem við ættum að byrja að taka til fyrirmyndar. Í leiknum gegn Huddersfield sýndum við að mínu viti mjög góðan sóknarleik, bara leiðinlegt hvað við sjáum slíkt sjaldan.

  • Þegar lið eru að verjast Chelsea eru þau byrjuð að liggja mjög aftarlega og þétta gríðarlega inn á miðsvæðið og gefa eftir svæði hjá vængbakvörðunum. Í leiknum gegn Everton náðu hvorki Moses né Alonso góðum kross fyrir markið né að komast fram hjá manninum sínum til að skapa hættu. Ég held að Moses hafi reynt ca. 10 sinnum að komast framhjá Cuco Martina! Þetta var of einhæft og liðið er að spila leikinn upp í hendurnar á andstæðingnum, þetta á að vera öfugt, við eigum að spila okkar leik og stjórna leiknum á okkar forsendum.

  • Mikið hefur verið talað um 3-4-3 eða 3-5-2. Persónulega er ég hrifnari að 3-5-2 gegn sterkari andstæðingum en vil sjá okkur nota 3-4-3 gegn liðum sem liggja aftarlega. Það er hins vegar algert lykilatriði að Cesc Fabregas spili leikina gegn lakari liðum því enginn annar í liði Chelsea hefur þann fágæta eiginleika að geta splundrað vörnum andstæðinganna með einni sendingu.

Leikurinn gegn Brighton

Þetta mót er búið hvað titilinn varðar, Manchester City mun sigra Ensku úrvalsdeildina næsta vor. Spurningin er bara hvaða hin þrjú lið fylgja með í Meistaradeildina. Þar erum við í harði baráttu við Man Utd, Liverpool, Arsenal, Tottenham og jafnvel Burnley. Það þýðir því ekki að sofna neitt á verðinum, Chelsea er í þriðja sæti sem stendur, þremur stigum á eftir Man Utd sem er í öðru sæti og 4 stigum á undan Liverpool sem er í því fjórða.

Leikurinn gegn Brighton er því eins og allir hinir, ákaflega mikilvægur. Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:


Þar sem Morata er að snúa til baka eftir leikbann mun hann koma inn í liðið og væntanlega byrja með Hazard frammi í 3-5-2 leikkerfinu. Fabregas verður að öllum líkindum fremsti miðjumaður og bara spurning hvort Bakayoko eða Drinkwater byrji með Kanté á miðjunni. Ég geri svo fastlega ráð fyrir því að Cahill komi inn á kostnað Rudiger.

Andstæðingurinn

Brighton eru nýliðar og hafa staðið sig býsna vel, þeir eru í 12. sæti með 21 stig eftir 19 leiki. Ef þeir gera jafn gott mót í seinni umferðinni fara þeir örugglega yfir 40 stiga múrinn sem jafnan dugar til að halda sæti sínu í deildinni.

Brighton var lengi ansi nálægt því að komast upp í úrvalsdeildina og tókst það loksins í fyrra. Liðið leikur undir stjórn reynsluboltans Chris Hughton sem gerði ágætis hluti með Newcastle á sínum tíma. Liðið leikur mjög þéttan fótbolta þar sem varnarleikurinn er í fyrirúmi, þeir hafa á að skipta sjöttu bestu vörn deildarinnar. Sömu sögu er ekki að segja um sóknarleikinn, þeir eru með þriðju verstu sókn deildarinnar og hafa ekki skorað nema 15 mörk í þessum 19 leikjum. Það er því ekki nema von að fréttir séu að berast úr þeirra herbúðum að Moussa Dembele, framherji Celtic, sé mögulega á leið til þeirra í janúar glugganum.

Við megum því búast við enn einum leiknum þar sem okkar menn verða mikið með boltann og þurfa að brjótast í gegnum þéttan varnarmúr, vonandi gengur það betur en í síðasta leik.

KTBFFH


bottom of page