top of page
Search

Upphitun: Conte gegn Rafa


Eftir torsóttan sigur gegn Swansea mæta okkar menn nýliðum Newcastle, leikurinn er á morgun (laugardag) og hefst kl 12:30.

Það voru eflaust margir sem hugsuðu í hálfleik í leiknum gegn Swansea að mögulega yrði þetta einn af þessum dögum þar sem liðið hefði gríðarlega yfirburði en næði ekki að nýta sér þá. Antonio Rudiger sá til þess að svo yrði ekki og Chelsea tókst að sigla heim "ljótum" sigri. Það vantaði mikið flæði í sóknarleikinn, Swansea lágu mjög aftarlega, þéttu miðjuna og ýttu spili Chelsea út á vængina þar sem Willian, Pedro, Alonso og Zappacosta lúðruðu hverjum boltanum á fætur öðrum inn í vítateiginn sem allir enduðu á pönnunni á miðvörðum Swansea. Uppbyggingin var of hæg, Fabregas fann ekki taktinn og Eden Hazard var á bekknum.

Ég ætla að spá byrjunarliði okkar manna svona gegn Newcastle:


Það er stutt á milli leikja þessa dagana og því mun Conte væntanlega reyna rótera eins mikið og hann getur. Enn og aftur sér maður ekki neinn möguleika annan en að spila Marcos Alonso alla leiki nema þá að spila Azpi í hans stöðu eða nota menn eins og Pedro eða jafnvel Zappacosta vinstra megin. Ég geri samt fastlega ráð fyrir að Alsonso byrji í LWB, það er eins gott að hann sé að hvíla sig jafn mikið og Michael Essien gerði forðum daga, en sá snillingur svaf a. 14-15 tíma á sólarhring.

Bakayoko og eða Drinkwater koma inn á kostnað Fabregas sem væntanlega fær hvíld í þessum leik. Mögulega verður hann þó inni á kostnað Willian og liðið þá að spila 3-5-2.

Hetjan frá síðasta leik, Rudiger, mun væntanlega setjast aftur á bekkinn nema hann spili á kostnað Cahill, og eða Alonso.

Það eru nokkrir möguleikar fyrir hendi og er það ágætt - of mikill fyrirsjáanleiki er slæmur.

Newcastle

Þeir eru sennilega fáir sem eru jafn umdeildir meðal okkar Chelsea manna eins og hann Rafa Benítez. Sumir þola hann ekki vegna forsögu hans með Liverpool, fannst það algert eitur í beinum sínum þegar Rafa var ráðinn "interim" (bráðabirgða) stjórinn okkar tímabilið 2012/13. Aðrir virða það sem hann afrekaði fyrir klúbinn og færa honum bestu þakkir fyrir það.

Persónulega tilheyri ég síðari hópnum og skal alveg viðurkenna að hafa haldið örlítið með Rafa frá því hann fór frá okkur. Það var töluvert afrek að gera okkar menn að Europa League meisturum árið 2013 og svo skilaði hann okkur í 3. sætið í deildinni. Ekki amalegt. Það þarf líka að taka inn í þær aðstæður sem hann bjó við á sínum tíma, það voru ekki margir sannfærðir um þessa ráðningu og mætti hann mikilli mótspyrnu frá aðdáendum og jafnvel sumum leikmönnum. Þetta var erfitt starf og hann komst ágætlega frá því.

Ferill Rafa eftir Chelsea hefur verið upp og ofan. Honum tókst að landa starfi sem stjóri Real Madrid fyrir tímabilið 2015/16 en endist ekki þar nema í fimm mánuði, skömmu síðar var hann svo ráðinn sem stjóri hjá Newcastle sem þá voru í bullandi fallbaráttu. Rafa tókst ekki að bjarga Newcastle frá falli en var engu að síður ráðinn sem stjóri og fylgdi liðinu niður í Championship deildina. Þar kom hann þeim aftur upp um deild í fyrstu tilraun. Það er engu síður skondin tilhugsun að á einu ári fór Rafa úr því að stjórna Real Madrid gegn Barcelona í Super Copa á Spáni til þess að stýra Newcastle gegn Burton Albion í Championship deildinni. Harður heimur.

Newcastle byrjaði ágætlega í deildinni og voru mjög þéttir fyrir. Það hefur hins vegar hallað hressilega undan fæti hjá liðinu að undaförnu og var liðið búið að tapa 4 leikjum í röð þangað til þeir náðu jafntefli við WBA í vikunni. Þeir sakna gríðarlega Jamaal Lascelles, fyrirliða síns og leiðtoga í vörninni -skv fréttum mun hann ekki taka þátt í leiknum á morgun. Newcastle spila ekki skemmtilegasta fótboltann sem byggist fyrst og síðast á taktísku uppleggi frá títtnefndum Rafa. Flestir eru sammála um að liðinu skortir gæði fram á við og Mike Ashley var ekki reiðubúinn að eyða neinum alvöru peningum sl. sumar á leikmannamarkaðinum. Ashley hefur núna sett félagið á sölu, það besta sem gæti komið fyrir Newcastle væri að einhver moldríkur einstaklingur kæmi inn og setti alvöru fjármuni í klúbbinn.

Spá

Chelsea þarf að sýna meiri ákveðni fram á við og færa boltann hraðar á fremsta þriðjungi vallarins heldur en í leiknum gegn Swansea. Mögulega erum við að fara inn í svipaðan leik og því eru vítin að varast. Það skiptir miklu máli að ná inn marki snemma í svona leikjum til að trufla "game-planið" hjá Newcastle og láta þá þurfa að koma út úr skelinni. Með hverri mínútunni sem líður öðlast þeir meira sjálfstraust í leiknum, fá meira öryggi á boltann og geta skaðað okkur - við verðum að forðast þær aðstæður og besta leiðin til þess er að byrja að krafti.

Ég spái 2-1 sigri okkar manna.

KTBFFH


bottom of page