top of page
Search

Landsleikjahlé, Crystal Palace og meiddir lykilmenn.


Einhverju frábærasta landsleikjahléi síðari tíma er lokið, amk fyrir okkur Íslendinga. Hvað varðar Chelsea Football Club og landsleikjahlé þá vonast maður bara eftir einum hlut og það er að menn skili sér heilir til baka. Því miður var það ekki raunin í þetta sinn, eins og reyndar oft áður. N'Golo Kanté meiddist í leik Frakka og Búlgara og er óttast að hann muni missa af næstu 5-6 leikjum. Vonir standi til að hann nái stórleiknum gegn Man Utd í byrjun Nóvember. Annar lykilmaður sem mun missa af næsta leik er Alvaro Morata. Hann meiddist gegn Man City, einhverjir miðlar flytja fréttir af því að Morata verði klár gegn Roma í Meistaradeildinni en allt slíkt er óstaðfest. Þetta er virkilega slæmt því Morata var í miklu stuði hjá okkur, hann var sífellt að venjast því betur að vera eins konar "uppspilspunktur" í sóknarleiknum. Hann var einnig byrjaður að raða inn mörkunum. Það sást eflaust best efir að hann yfirgaf völlinn gegn City að allur broddur fór úr sóknarleik Chelsea.

Aðeins um leikinn gegn Man City: Þó svo að okkar menn hafi bara tapað leiknum 1-0 vorum við undir á öllum sviðum fótboltans í þessum leik. Conte ákvað að stilla upp varnarsinnuðu liði með Azpilicueta sem LWB. Þetta fannst mér mistakast og náði liðið aldrei neinum takti í leiknum. Shitty pressuðu okkur um allan völl og lentum við í svakalegum vandræðum í uppspilinu okkar. Fabregas átti afleiddan dag og Hazard var sífellt étinn lifandi af Otamendi. Sem dæmi var sendingarfjöldi Man City í leiknum 677 sendingar sem er ábyggilega það mesta sem lið hefur "out-passað" okkur síðan Conte tók við stjórnartaumunum.


Hér að ofan er "Heat-mappið" af leiknum. Þessi mynd segir eflaust allt, aðeins Morata og Hazard voru að meðaltali fram yfr miðju á meðan Man City var með allt liðið á okkar vallarhelmingi og vörnina við miðlínu. Man City voru einfaldlega mun betri en við í þessum leik.

Leikurinn gegn Palace

Ég spái liði Chelsea svona í leiknum gegn Palace:


Liðið gegn Palace

Ég vona að Rudiger fái áfram traustið og að Christensen haldi áfram í miðju varnarinnar þrátt fyrir að Luiz snúi til baka úr banni. Christensen var að mínu mati besti maður liðsins á móti City og er að leika frábærlega. Það er spurning hvort Zappacosta fái tækifæri, held samt ekki. Í framlínunni er svo spurning hvort Conte byrji með Batshuayi eða láti Hazard byrja frammi og þá Willian og Pedro sitt hvorum megin við hann. Ég efast um það, einfaldlega vegna þess að Willian er að koma úr löngu ferðalagi og ef Batshuayi á að byrja einhvern leik þá er það gegn botnliðinu þar sem við munum hafa boltann löngum stundum osfrv.

Það voru ekki margir leikir í fyrra sem við spiluðum án N'Golo Kante, í raun er þetta svindleikmaður, yfirferðin á honum er svo mikil. Það mun því reyna á Bakayoko og Fabregas því þetta 3-4-3 kerfi er mjög háð því að miðjumennirnir hafi mikla yfirferð og nái að vera á báðum endum vallarins á skömmum tíma. Að því sögðu hefur byrjun Bakayoko hjá Chelsea verið góð og er hann td með hæsta hlutfall allra leikmanna í sigruðum tæklingum en hann hefur unnið 17 af þeim 19 tæklingum sem hann hefur kastað sér í.

Anstæðingurinn

Crystal Palace er búið að vera lélegasta lið Ensku Úrvalsdeildarinnar það sem af er. Þeir hafa tapað öllum leikjunum og hafa ekki einu sinni skorað mark, sem er met. Markatalan er 0-17. Ef þeir tapa gegn Chelsea er þetta versta byrjun hjá liði í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar.

Það er engu að síður ótrúlegt að þetta lið skuli ekki búið að skora mark eða næla sér í eins og eitt jafntefli. Þeir eru með marga mjög frambærilega leikmenn eins og Zaha (sem hefur verið meiddur), Benteke (sem er nýlega meiddur), Townsend, Cabaye, Puncheon og Sakho. Í þessum leikmönnum er bæði reynsla og gæði.

Þessi ömurlegi árangur liðsins skrifast að mínu viti á stjórnendur félagsins. Þeir ákveða í sumar að ráða Frank De Boer, þjálfari sem vill spila mjög "elegant" fótbolta og stendur algerlega og fellur með slíku. Þetta var djörf ákvörðun sem mislukkaðist, amk svo mikið að þeir ákváðu að reka kappann eftir örfáa leiki. Fyrir mér er galin ákvörðun að reka þjálfara svo snemma, tala nú ekki um þegar hann er að reyna breyta leikstíl liðsins.

Palace fer svo aftur í "old school" boltann þegar þeir ráða Roy Hodgson. Hvort Hodgson eigi nægilega mikið inni á tankinum til að geta snúið þessu við verður að koma í ljós en það er alla vega á kristaltæru að allur þessu óstöguðleiki hjá klúbbnum er fyrst og fremst það sem þarf að lagast.

Eins og fram kemur hér að ofan er Palace án margra góðra lykilmanna eins og Zaha, Benteke og Ruben Loftus Cheek sem ekki má taka þátt í leiknum út af lánssamningnum við Chelsea. Reyndar er það þannig að RLC er búinn að vera einn af fáu ljósu punktum Palace á leiktíðinni.

Ef Chelsea mæta til leiks og skora snemma verður róðurinn mjög þungur fyrir Palace þar sem sjálfstraustið er lítið í hópnum. Ég vil því sjá okkar menn mæta kraftmikla til leiks og taka öll völd á vellinum. Það mun samt koma að því að Crystal Palace muni skora mark og fara að vinna einhverja leiki, vonum að sá neisti komi ekki núna á laugardaginn.

Chelsea á að vinna þennan leik örugglega.

KTBFFH


bottom of page