top of page
Search

Upphitun: Tottenham vs Chelsea


Eftir skrípaleikinn gegn Burnely mæta okkar menn einu best spilandi liði Englands um þessar mundir, liði Tottenham. Leikurinn er afar sérstakur fyrir þær sakir að í fyrsta sinn fer fram leikur í Ensku úrvalsdeildinni á Wembley þar sem Tottenham er búið að jafna „Three Point Lane“ við jörðu og eru að byggja nýjan heimavöll frá grunni. Á síðasta tímabili spilaði Tottenham alla heimaleiki sína í Meistaradeildinni og síðar Evrópudeildinni á Wembley og var gengi þeirra vægast sagt slakt, sérstkalega þegar miðað er við gengi þeirra á White Hart Lane í Úrvalsdeildinni. Tottenham var með besta heimavallarárangur allra liða í deildinni í fyrra, töpuðu ekki leik og unnu 17 af 19 leikjum, fengu aðeins á sig 9 mörk og skoruðu 47 mörk – frábær árangur. Það er því skiljanlegt að flestir „Spurs-arar“ séu stressaðir yfir þessu flutningum á Wembley.

Aðeins um andstæðinginn

Að mínu viti felast styrkleikar Tottenham fyrst og fremst í þjálfaranum Mauricio Pochettino, hann er mikill fótboltahugsuður sem kemur úr skóla Marceo Bielsa – sama skóla og góðvinur sinn Pep Guardiola. Pochettino eru búinn að vinna frábært starf hjá Spurs á undanförnum árum. Liðið spilar oft á tíðum frábæran fótbolta og hefur verið lenda ofar í deildinni en lið eins og Arsenal, Man Utd og Man City þrátt fyrir að hafa mun minna fjármagn á milli handanna. Liðið er byggt upp á leikmönnum sem eru annað hvort uppaldir eða hafa verið í þónokkurn tíma hjá félaginu. Pochettino vill, líkt og Guardiola, að sín lið spili mikla hápressu en leggur þó ekki eins mikið upp úr því að „einoka“ boltann, hann vill að sín lið séu beinskeyttari.

Chelsea spilaði þrisvar sinnum við Tottenham á síðustu leiktíð og voru það allt mjög jafnir leikir þar sem uppskriftin var svipuð: Tottenham mættu dýrvitlausir til leiks, settu okkar menn undir mikla pressu en svo dró verulega úr pressunni þegar á leið og okkar menn unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Gleymum því ekki að Chelsea sigraði tvo af þessum þremur leikjum! Sætasti sigurinn var án efa 4-2 sigurinn í undanúrslitum á Wembley þar sem Conte ákvað að byrja með Hazard og Costa á bekknum. Ég á von á svipuðum leik á morgun, það mun koma í hlut Chelsea að vera mikið í vörn með marga menn fyrir aftan boltann, alla vega til að byrja með.

Það vita allir hverjir eru hættulegustu menn Spurs, þeir hafa á að skipa ógnarsterku sóknar tríói í þeim, Kane, Alli og Eriksen. En liðið hefur einnig heimsklassa markvörð í Loris, frábæran miðvörð í Alderweireld auk þess sem leikmenn eins og Eric Dier, Danny Rose og Victor Wanyama verða sífellt betri. Í leiknum gegn Chelsea verða þeir án Danny Rose auk þess sem nýi leikmaðurinn þeirra, Davinson Sanchez, verður ekki kár í slaginn. Skv enskum miðlum er þetta líklegasta byrjunarlið þeirra:


Byrjunarlið Tottenham

Stærsta spurningamerkið er hvort Kevin Trippier verði heill heilsu, ef svo er ekki mun það koma í hlut hins unga Kyle Walker Peters eða Moussa Sissoko að leysa hann af hólmi. Í sínum fyrsta leik á tímabilinu spiluðu Spurs 4-2-3-1 kerfið en flestir gera ráð fyrir að þeir muni spegla Chelsea liðið og spila 3-4-3 kerfið sem þeir gerðu stærstan part síðasta tímabils. Tottenham er rosalega gott fótboltalið og okkar menn verða að eiga toppleik til þess að bera sigur úr býtum.

Chelsea

Það er mikil óvissa yfir byrjunarliðinu hjá Chelsea í þessum leik. Við fengum þær frábæru fregnir í vikunni að bæði Bakayoko og Hazard gætu mögulega verið með um helgina en þetta er þó allt saman óstaðfest. Conte sagði á blaðamannafundi að hann vonaðist eftir því að Bakayoko gæri orðið klár í slaginn en sagði litlar sem engar líkur á að Hazard yrði með og að Pedro væri ennþá meiddur - munar um minna. Ef Bakayoko er leikfær þá mun hann leysa þessu miklu miðjumannakrísu sem felst í því að Fabregas er í leikbanni, þar fyrir utan ætti þetta að vera mestu sjálfvalið þar sem hópurinn er afskaplega þunnur! Ég ætla að tippa á að byrjunarliðið verði svona:


Byrjunarlið Chelsea

Conte virðist treysta Boga ágætlega og það var virkilega sárt fyrir kappann að fá aðeins að spila í rúmar 15 mín í fyrsta leik sökum rauða spjaldsins á Cahill. Auðvitað er líka möguleiki á að Batshuayi byrji leikinn á kostnað Morata eða Boga en m.v. frammistöðuna hans í síðasta leik að þá væri eflaust best geymdur á bekknum í þessum leik.

Ef Bakayoko verður ekki klár er líklegasta lausnin að David Luiz fari inn á miðjuna og Christansen í byrjunarlið, eða þá að Christansen byrji á miðjunni – hann hefur víst reynslu af því að spila djúpan miðjumann hjá Borussia Mönchengladbach. Það styrkir svo að mínu viti holninguna á liðinu að fá Moses aftur inn og Azpi getur þá einbeitt sér að öftustu línunni, mitt mat er Azpi sé ekki nægilega sterkur sóknarlega til þess að leysa þessa RWB stöðu auk þess sem hans er sárt saknað úr öftustu línu.

Ég er ekkert ofurbjartsýnn fyrir þennan leik, sérstaklega finnst mér vanta sóknarþunga í liðið okkar, það er ekki óskastaða að spila Willian, Boga og Morata sem framlínu gegn einu af erfiðustu liðum deildarinnar á útivelli. Einnig hef ég áhyggjur að því að Bakayoko sé alls ekki í 100% formi og gæti átt erfitt uppdráttar, fari svo að hann byrji leikinn.

Til að vinna þennan leik verða okkar menn að mæta með hausinn rétt skrúfaðann á og hætta þessum leiðindavana að fá á sig rauð spjöld! Ef við sjáum sama þéttleika, taktíska aga og vel útfærða sóknarleik og við sáum á síðustu leiktíð getum við að sjálfsögðu unnið þennan leik – Tottenham eru gjarnir á opna sig þegar þeir færa liðið sitt hátt upp völlinn og þá verðum við sýna þau gæði sem búa í liðinu.

Mín spá er 1-1 jafntefli í hörkuleik.

KTBFFH


bottom of page