top of page
Search

West Ham vs Chelsea - Lundúnaslagur af bestu gerð

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 4. Desember 2021 kl: 12:30

Leikvangur: London Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma PálmasonInngangur

Nú þurfa okkar menn heldur betur að rífa upp um sig brækurnar. Seinasti leikur, þó hann hafi endað sem sigur, var mjög dapur á köflum að mínu mati. Lið Watford spilaði okkur sundur og saman í stórum hluta leiksins, og voru ákveðnir leikmenn mjög tæpir í þeim leik. Menn á borð við Alonso, Saúl og Ruben Loftus-Cheek stóðu langt undir væntingum, og þá sérstaklega okkar uppaldi. Það var í raun ekki fyrr en TT henti í alvöru skiptingar sem gangur leiks breyttist almennilega. Okkar eigin Money Mase setti skemmtilegt mark á 30 mínútu eftr stoðsendingu frá ungstirninu Kai Havertz, en það tók Watford ekki langan tíma að jafna, en þeir voru komnir aftur inn í leikinn af hörku 15 mínútum seinna með marki frá Emmanuel Dennis. Ég hef alltaf haft ákveðið auga með Watford liðinu, sérstaklega eftir að kempan Claudio Ranieri tók við störfum þar á bæ. Þeir eru að spila skemmtilegan bolta, með fullt af skemmtilegum leikmönnum, sem oftar en ekki stóðu sig ekkert frábærlega hjá sínu fyrra félagi. Nokkur dæmi um þetta eru menn á borð við Moussa Sissoko, Tom Cleverly og Danny Rose. Sissoko skellti í stoðsengingu í þessum leik og ber bandið fyrir Watford eftir að Troy Deeny yfirgaf The Hornets. Eftir virkilega erfiðan leik gegn Manchester United átti ég í raun von á hörkuleik gegn Watford, þar sem ég bjóst við að við myndum alveg yfirspila þá yfir mestallan leikinn. Hins vegar gáfu Watford okkur geggjaða frammistöðu, og við heppnir að sleppa með sigurinn eftir mark frá Ziyech á 72. Mínútu.


Chelsea

Stærsta og besta lið höfuðborgar Englands þurfa rækilega að fara í naflaskoðun fyrir þennan leik á morgun, þar sem andstæðingar morgundagsins eru engin lömb að leika við. West Ham eru á blússandi siglingu þessa dagana, og í raun bara á þessu tímabili. Eftir frábæra 4-0 sigurinn á gömlu konunni frá Tórínó, þá höfum við heldur betur verið að slappa af. Sumir hafa eflaust hugsað með sér að titillinn væri kominn í hús, eða þá að við séum bara það góðir að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af neinum andstæðingum fyrir utan „the big 6“. Hins vegar eru „the big 6“ ekki þeir sömu og þeir voru, og Enska Úrvalsdeildin hefur sýnt það undanfarnar umferðir að allir andstæðingar eru hættulegir, og ekki erfitt að tapa stigum gegn lægri liðum í töflunni. Ég hef miklar væntingar til leiksins á morgun, þar sem mér finnst gríðarlega mikilvægt að bæta frammistöðuna, þó við séum taplausir í síðustu 12 leikjum. Gaman að segja frá því að umræðan um frammistöðu Mendy á síðasta tímabili sem og þessu, er alltaf sérstaklega um hversu oft maðurinn heldur hreinu, en leikurinn gegn Watford var annar leikurinn í röð þar sem við fáum á okkur mark. Það sem gerir þessa staðreynd áhugaverða, er það að í báðum leikjum er lítið hægt að kenna Mendy um. Í leiknum gegn Man Utd, var Jorginho alfarið sökudólgurinn fyrir marki Rauðu djöflanna, en í leiknum gegn Watford var Ruben Loftus-Cheek sökudólgurinn ásamt Saul. Í báðum mörkunum voru miðjumennirnir okkar að reyna einhverjar listir eða eitthvað sem myndi láta þá líta vel út fyrir framan myndavélarnar, sem virkaði svo ekki og endaði sem alvöru árás á okkar mark (og þar af leiðandi mark fyrir andstæðingana). Þetta er nefninlega ekki í fyrsta skipti sem þetta kemur fyrir, og alveg örugglega ekki í það síðasta. Þetta er eitthvað sem TT þarf að taka rækilega á og láta menn vita að þeir mega að sjálfsögðu reyna einhverjar listir, en þeir þurfa að geta lesið í aðstæður og tekið ákvörðun um hvort það sé æskilegt eða ekki.


Í þessum leik spái ég alvöru byrjunarliði. Okkar menn eru að fá leikmenn aftur úr meiðslum og ég ætla henda í NEGLU. Tommi Túkall var búinn að segja á blaðamannafundi að Kante, Chalobah, Kovacic og að sjálfsögðu Chilwell séu frá vegna meiðsla. Það besta við allt þetta neikvæðna er að Belgíska tröllið er aftur byrjað á fullu og hann VERÐUR að byrja gegn Hömrunum. Menn á borð við James, Jorginho og Timo Werner eru allir klárir í slaginn, og mér finnst nánast staðfest að Jorginho og Reece byrji þennan leik. Stóra spurningin er Timo Werner eftir að Big Rom kom aftur úr meiðslum. Það sem gæti gerst væri að Werner fái sénsinn á vinstri kantinum, en ég ætla að skjóta á að TT sjái tenginuna á milli Captain America og Lukaku, og nýti sér það í þessum stórleik.


Svona spái ég liðinu:


West Ham

Andstæðingar okkar í þessum leik eru West Ham United. Okkar erkifjendur í Lundúnum og eitt af þeim liðum sem Chelsea-menn „þurfa“ að hata að einhverju leyti. Að sjálfsögðu erum við alltaf sáttir með Hamrana eftir að þeir gáfu okkur menn á borð við Frank Lampard og John Terry. Það hins vegar gengur ekki að leyfa þeim að eiga nokkurn skapaðn hlut þar sem við þurfum sigur, við þurfum stig og við þurfum að segja öllum klúbbum landsins að það er aðeins EINN ofurklúbbur í London. Hinir mega allir leika saman í sandkassanum fyrir litlu félögin.


West Ham eru að koma úr alvöru leikjaprógrammi. Þeirra 4 síðustu leikir í deildinni hafa endað með 1 jafntefli, 2 töpum og 1 sigri. Sigurinn var stór, enda gegn Liverpool, en töpin voru súr, gegn Manchester City og Wolves. Þeir gerðu svo frekar slappt jafntefli á heimavelli gegn Brighton. Hins vegar hafa þeir gjörsamlega rústað riðlinum sínum í Evrópudeildinni, og enduðu riðlakeppnina á komast í úrslitakeppnina, í fyrsta skipti í sögunni, og hafa ekki tapað einum einasta leik á leiðinni í lokaumferðina. Það hefur ekki vantað uppá mörkin, en áhugaverðasta er að þeir hafa aðeins fengið á sig 2 mörk, í 5 leikjum, og bæði komu í sama leiknum. Svo er það deildarbikarinn. Þar hafa West Ham slegið út 2 risa, eða bæði stórliðin frá Manchester-borg. Þeir tóku Manchester United 0-1 og unnu Manchester City í vítaspyrnukeppni.


Þeirra byrjunarlið verður líklegast svipað og á móti hinum stórliðinum. Ég spái því að þeir stilli upp svona:

GK – Fabianski

RB – Coufal

CB – Zouma (okkar eigin)

CB – Dawson

LB – Cresswell

CDM – Rice (okkar eigin)

CDM – Soucek

RM – Bowen

LM – Benrahama

CAM – Fornals

ST - Antonio


Eins leiðinlegt og mér sjálfum finnst það, þá þarf ég að horfa uppá minn mann Kurt mæta sínum gömlu félögum, og eins mikið og ég elska þennan mann, þá verð ég að fá að sjá hann tapa!


Spá

Þetta verður hörkuleikur, og ég trúi því að það séu nánast engar líkur á því að það verðir engin mörk. Ég spái því að sumir hjá okkur komi inn af krafti, sérstaklega eftir meiðsli og síðustu leikjum, og setji nokkur mörk á morgun. Ég spái 3-1 sigri okkar manna, þar sem Lukaku fær startið og setur 2 slummur, en Pulisic kemur sér á blað líka. Að sjálfsögðu þurfa gestirnir mark í þessum leik og ég spái því að Soucek, markamaskínan á miðjunni, setji eina slummu úr horni. Annars gæti vel verið að allt hjá mér sé út úr kú, og hver veit, kannski verður þetta bara besti leikur tímabilsins, eða sá leiðinlegasti. Sama hvað gerist þá hef ég aðeins eitt að segja.


Grípið ykkur einn ískaldann, setjist fyrir framan skjáinn í treyju, og sjáið okkar menn valta yfir þetta þykjustustórlið.


KTBFFH!

- Markús Pálmason

Comments


bottom of page