top of page
Search

Watford vs Chelsea - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 1. Desember kl 19:30

Leikvangur: Vicarage Road

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport og Ölver

Upphitun eftir: Stefán Marteinn


Heilir og sælir lesendur góðir.


Það er heldur betur kominn tími til þess að keyra upp hitann og halda áfram eftir svaðalega sárt og súrt stig gegn Manchester United sl. sunnudag. Leikur sem Chelsea liðið bauð upp á nánast allt nema bara að skora mörk sem er helvíti stór partur í þessu sporti en svo fór sem fór.


Eftir dóminerandi frammistöðu þar sem ekkert annað en Chelsea mark lá í loftinu endaði hreinsun frá Bruno Fernandes með þeim afleiðingum að boltinn skoppar hjá Jorginho sem er almennt mjög öruggur í sínum aðgerðum og Jorginho misreiknar aðeins sveifluna á boltanum og fær hann í legghlífina og missir hann frá sér sem gaf Jadon Sancho og Marcus Rashford færi á að keyra einir upp völlinn gegn Edouard Mendy og eftir örlítið panic var það svo Jadon Sancho sem lagði boltann framhjá Edouard Mendy á nærstöng og kom Manchester United óverðskuldað yfir.


Þetta virkilega sveið og minnti óneitanlega á mómentið þegar Ngolo Kanté rann á svipuðum stað gegn Arsenal hérna um árið þegar Gabriel Martinelli skoraði.


Thiago Silva sótti víti fyrir Chelsea þegar Aron Wan-Bissaka þrumaði hann niður þegar um 20 mínútur voru til leiksloka og steig Jorginho á punktinn tilbúin að bæta upp fyrir mistök sín og brást svo sannarlega ekki bogalistinn og leikurinn orðinn jafn þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks. Allar þessar mínútur beið undirritaður eftir sigurmarkinu því það lá í loftinu allan leikinn en allt kom fyrir ekki og súrt jafntefli varð niðurstaðan.


Thomas Tuchel talaði um eftir leik að við hefðum skorað bæði mörkin í dag og þrátt fyrir að hafa spilað vel þá er ekki alltaf hægt að ná í úrslit og svo sannarlega stöngin út í þetta skiptið.


Michael Carrick talaði með rassgatinu eftir leik og talaði um frábærar frammistöður, gott plan og að þetta hafi aldrei verið víti. Verðum að ganga út frá því að hann hafi runnið til skallað vegg fyrir þessi ummæli því fyrir lið á borð við United var þetta ömurleg frammistaða, hræðilegt plan og alltaf víti.


Watford

Leikurinn gegn Watford er hinsvegar næstur á dagskrá og eins og áður kom fram þá þýðir ekkert nema bara upp með sokkana og áfram gakk. Nágrannar okkar í Watford ætla að bjóða okkur í veislu þar sem Claudio Ranieri sér um veislustjórn heimamanna. Watford sitja í 16.sæti deildarinnar og hafa sótt 4 sigra, 1 jafntefli og tapað 8. Síðasti sigur liðsins var síðasti naglinn í kistu Ole Gunnar Solskjær hjá Manchester United. Watford er með marga skemmtilega leikmenn innan sinna raða en þar ber helst að nefna Ismaila Sarr (sem er reyndar á meiðslalistanum), Joshua King, Moussa Sissoko og Emmanuel Dennis. Það eru þó einnig legend í þessu liði eins og Tom Cleverley, Danny Rose og að ógleymdum samfélagsmiðlastjörnunni og hjólreiðarkappanum geðuga Ben Foster.


Það skal þó sagt að við ættum með öllu að vinna þetta Watford lið í 10 af hverjum 10 skiptum.



Byrjunarliðið

Eins auðvelt og það er að skjóta venjulega á byrjunarliðið þá er óþarfi að auðvelda mér valið með því að spá fyrir um liðið sem spilar á milli mikilvægara leikja Manchester United og West Ham. Fantasy böðullinn Tuchel er ekki þekktur fyrir annað en sterka íhaldsemi og því er byrjunarliðið geirneglt.


Edouard Mendy í markinu. Hafsentarnir þrír sem leika þar fyrir framan verða Rudiger, Christensen og Césár Azpilicueta. Christian Pulisic og Marcos Alonso manna vængbakverðina. Ruben Loftus-Cheek og óvæntur Saúl byrja á miðjunni og fremstu þrír verða Kai Havertz, Mason Mount og Romelu Lukaku. Eins og áður sagði verður þetta allt eftir bókinni. Thomas Tuchel mun reyna nota hópinn og hvíla menn eftir þörfum.



Svo það sé svo sagt þá hef ég ekki minnsta grun um hvernig Tuchel mun stilla þessu upp og við gætum allt eins séð pappírspésa eins og Malang Sarr þarna inni ef svo ber undir.


Spá

Eins og ég kom inná fyrr í þessum pistli þá eigum við að gera kröfu um sigur. Ég ætla að stilla væntingum í hóf og spá 0-3 sigri okkar manna þar sem Mason Mount stýrir ferðinni með mörkum og stoðsendingum. Saúl mun koma á óvart og skora og svo mun Romelu Lukaku minna á sig með marki.


KTBFFH

- Stefán Marteinn

bottom of page