top of page
Search

Tap gegn Man City á heimavelli - leikskýrsla



Í fyrsta skiptið í síðustu 4 viðureignum töpuðu okkar menn gegn Manchester City liði Pep Guardiola. Leikurinn var nánast eign City manna frá upphafi til enda og okkar menn sáu varla til sólar. Í fyrri hálfleik fengum við varla að klappa boltanum og City menn sóttu með 10 (nánast 11) menn á okkar vallarhelmi. Þegar við fengum boltann, sem var nánast bara í markspyrnum, pressuðu City menn okkur með 6-7 mönnum. Allir miðjumenn og framherjarnir (6 leikmenn) og svo annað hvort Walker eða Cancelo með í pressunni. Það gekk illa hjá okkar mönnum að losa fyrstu pressu City manna. Kovacic, sem er vanalega frábær í að sóla sig út úr fyrstu pressunni og finna sendingar gekk erfiðlega að komast framhjá Bernando Silva sem stoppaði hann trekk í trekk. Gabriel Jesus pressaði Alonso vel og við vorum í vandræðum með uppspilspunktana okkar. James fór meiddur útaf á 29. mínútu og inn kom Thiago Silva og Azpi var færður í vængbakvörðinn.


Staðan var markalaus þegar liðin gengu inn í hálfleik og við vonuðumst við mögulegri kerfisbreytingu yfir í 3-4-3 og skiptingu en Tuchel beið með það. Persónulega vildi ég sjá Kai Havertz koma inn fyrir Kovacic í hálfleik og skipta strax yfir í okkar hefðbundna kerfi, því 3-5-2 kerfið var alls ekki að virka gegn City.


City menn komust loks yfir á 53. mínútu með marki frá Gabriel Jesus. Markið kom eftir stutta hornspyrnu, Cancelo fíflaði Timo Werner sem seldi sig ódýrt og skaut að marki, boltinn fór af varnarmanni til Jesus sem skóflaði boltanum á einhvern óskiljanlegan hátt í færhornið og City menn komnir yfir.


Eftir markið færðist örlítið meira líf í okkar menn og við fórum að reyna að sækja á mark City í fyrsta skiptið í leiknum. Á 60. mínútu kom Kai Havertz inn fyrir Kanté og við skiptum yfir í 3-4-3. Tveimur mínútum síðar skoraði Lukaku mark sem Havertz lagði upp, en markið var dæmt af vegna rangstöðu þar sem Þjóðverjinn var um 2 metra fyrir innan.


Með auknum sóknarþunga fengu City enn fleiri færi til að auka muninn en Mendy stóð sem klettur í markinu og átti nokkrar frábærar markvörslur, maður leiksins hjá okkar mönnum. Ruben Loftus-Cheek kom inn á fyrir Jorginho á 76. mínútu. Hann kom inn með krafti og styrk og blés lífi í okkar menn en það dugði ekki til. 0-1 tap á heimavelli er staðreynd og í raun áttum við ekki skilið krónu úr þessum leik.


Næsti leikur er á miðvikudaginn gegn Juventus í Torino. Okkar menn verða að skrúfa hausinn rétt á fyrir ferðalagið og læra af þessum leik. Mér fannst 3-5-2 kerfið virka illa í dag og menn greinilega ekki nógu vel drillaðir í því. Tuchel verður að taka þennan leik á sig því oft á tíðum var erfitt að skilja hvað leikplanið var hjá Chelsea í dag.


x-G Bardaginn

Gríðarlega dapur frammistaða sóknarlega séð, eins og xG staðfestir.


Einkunnir

Mendy: 8 - Gat ekkert gert í markinu enda sá hann boltann seint. Átti nokkrar frábærar markvörslur sem björguðu okkur frá stórslysi.


Alonso: 5 - Var ágætur varnarlega í dag en slakur sóknarlega. Fékk fá tækifæri til að strauja upp vinstri vænginn og nýtti þau illa þegar þau bárust.


Rüdiger: 7 - Góður að vanda í vörninni. Vann boltann og hreinsaði frá margoft, var sterkur í baráttunni við Jesús í fyrri hálfleik.


Christensen: 6 - Ekkert undan honum að kvarta í dag, var stöðugur varnarlega.


Azpilicueta: 5 - Ekki besti leikurinn hjá fyrirliðanum, var í basli sóknarlega eftir að hafa verið færður úr hafsent í vængbakvörð þegar að James meiddist.


James: Fór meiddur útaf á 29. mínútu.


Kanté: 6 - Góður varnarlega að vanda og vann marga bolta en var í basli með sendingarnar í uppspilinu.


Jorginho: 5 - Frekar slakur leikur hjá Jorginho sem gekk illa að losa pressu City manna með sendingum á milli lína og tapaði nokkrum boltum.


Kovacic: 5 - Lélegur í fyrri hálfleik en betri í þeim seinni. Gekk illa að rekja boltann í gegnum fyrstu pressu og stoppaði á B. Silva trekk í trekk.


Werner: 4 - Lélegur leikur hjá Þjóðverjanum. Hafði oft takmarkaða möguleika þegar hann fékk boltann en gerði lítið þegar hann fékk hann. Seldi sig illa í marki City. Átti ágætis sprett upp hægri kantinn í seinni hálfleik en ekkert kom úr því.


Lukaku: 4 - Belginn slakur í dag, fékk litla þjónustu en gerði lítið til að bæta leik liðsins.


Silva: 7 - Bjargaði á línu og ef það væri ekki fyrir hann hefðum við örugglega tapað þessum leik mun stærra en við gerðum.


Comments


bottom of page