Keppni: Premier League
Tími, dagsetning: Sunnudagur 20. október kl: 15:30.
Leikvangur: Anfield, Liverpool
Dómari: John Brooks
Hvar sýndur: Síminn sport,
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson

Þá er enn einu landsleikjahléinu lokið og þráðurinn tekinn upp að nýju í ensku úrvalsdeildinni. Nú liggur leiðin á Anfield þar sem við mætum þeim rauðu. Arne Slot og hans undirsátar hafa byrjað af krafti og sitja nú í fyrsta sæti eftir laugardagsleiki dagsins og eru ógnarsterkir sem fyrr. Framundan er mikil barátta og allt verður lagt undir hjá báðum aðilum. Síðasti leikur okkar í deildinni var gegn Nottingham Forest og var það átakaleikur sem innihélt nánast allan skalann, vonbrigði, smá von, slagsmál og átök en fer seint í sögubækurnar og endaði með jafntefli, en öll þrjú stigin hefðu átt að enda okkar meginn miðað við gang leiksins. Lentum þó undir, en Madueke sá til þess að einn punktur datt okkar megin og er það vel. Það er ekki mikið sem við getum tekið út úr leiknum gegn Forest. Við áttum að taka öll stigin, en lentum enn og aftur í gömlu ormagryfjunni og fúla pyttinum, þar sem meðalmennskan tók yfir og vanmatið varð yfirsterkara. Það er allt önnur holning á liðinu samt sem áður og Maresca virðist hafa fundið leið og einhverja taug sem menn virðast halda í, og eru tilbúnir til að leggja verulega á sig. Menn eru farnir að finna stöðuna sína og mörgum leikmönnum virðist líða bara fjandi vel í sínum stöðum eins og staðan er í dag. Þetta er gríðarlega ungt lið og þráðurinn er mjög stuttur, en það getur verið kostur svona snemma á tímabilinu þegar menn eru að spila sig saman, en þó verða menn að passa hausinn og hnefana þegar þannig stendur á. Það er alveg á hreinu að þú ert ekkert að fara á hnefanum á móti liði eins og Liverpool og held að þetta verði meiri áskorun fyrir Maresca en leikurinn gegn City í byrjun tímabils. Það er mikið að gerast í herbúðum Liverpoolmanna þessa dagana og nú ríður á að finna veiku punktana og sigla þessu skynsamlega heim. Ef við skoðum andstæðing sunnudagsins þá eru nokkrir leikmenn fjarri góðu gamni og munar þá kannski einna helst um Allison Becker sem er ekki væntanlegur fyrr en í lok nóvember og Endo, Elliot og Chiesa eru ekki til taks hjá Liverpool. Sjaldan hef ég séð okkar meiðslalista jafn stuttann og jákvæðan enda Chilwell sá eini sem er meiddur, en Cucurella og Fofana þurfa ekki að mæta vegna gulra spjalda og hafa það náðugt þessa helgina.
Chelsea
Það hefur verið gaman að fylgjast með okkar mönnum sem af er tímabili. Mikill og góður stígandi á milli leikja og margir leikmenn virðast vera að finna sig í sínum stöðum og eru að gera frábæra hluti. Þurfum ekki að ræða frekar yfirburða frammistöður Cole Palmer, en hann virðist sífellt bæta sig og nýjar fréttir segja að City sé með einhver plön um að fá hann aftur yfir, en Chelsea veifar bara speglinum og málið er ekki til umræðu. Reece James er byrjaður að æfa aftur og verður spennandi að sjá hvort hann fái einhverjar mínútur með liðinu á sunnudaginn, en mér þykir ólíklegt að hann komi mikið við sögu nema kannski í einhverjar örfáar mínútur, þar sem hann er algerlega óutreiknanlegur og er ekki sá stabílasti í boltanum. Hinsvegar eru aðrir að stíga upp og Madueke er sjóðheitur og Jadon Sancho er að sýna fína hluti. Ég er nokkuð bjartsýnn á að hann ná að gera góða hluti fyrir okkur í vetur. Mudryk er því miður ennþá rammvilltur og er ég sannfærður um að við eigum að losa okkur við hann í janúarglugganum og fá einhvern beinskeyttan í staðinn. Til dæmis Osimhen er ekkert ólíklegur kostur myndi ég halda. Mig langar að sjá heilsteypt lið á móti Liverpool á sunnudaginn, sjá menn æða fram og sýna djörfung og dug og sýna hvað þessi mannskapur hefur uppá að bjóða. Ég er sannfærður um að þetta geti verið tímamótaleikur á þessu tímabili.

Liverpool:
Það hefur vart verið þægilegt fyrir Arne Slot að taka við af Jürgen Klopp sem stjóri þessa fornfræga liðs, en hann hefur farið vel af stað á tímabilinu og þarf vart að sýta árangurinn hingað til. Óhætt er að segja að þarna er valinn maður í hverju rúmi. Ein helsta raun Liverpoolmanna þessa dagana er óvissan í kring um Trent Alexander Arnold sem er víst efstur á óskalista Real Madrid. Upphaflega stóð til að semja við Trent þegar samningurinn við Liverpool myndi renna út í vor, en liðbandameiðsli Dani Carvajal gætu þrýst Carlo og Florentino til að taka upp veskið strax í janúar. En víst er að Liverpool hefur á nægum mannskap að halda og eru ógnarsterkir, en okkar menn hafa sýnt að þeir eru til alls líklegir og oft helst gegn stóru liðnum.
Liðsuppstilling og spá:
Mér finnst einhvernveginn að þetta geti verið mikil prófraun fyrir Maresca að finna rétta taktinn og held ég að þetta geti líka verið ákveðin vendipunktur fyrir hann. Er hann maður sem getur fundið leiðina eða er hann kannski ráðalaus eins og svo margir fyrirrennarar hans? Mikið ofsalega væri nú gaman að sjá leik þar sem eitthvað gengi fullkomlega upp og maður þyrfti ekki að vera að naga sófaborðið eins og svo oft áður. Mér finnst þó að núna sé líklegra en oft áður að maður gæti átt góðan seinnipart þar sem það hefur verið allt annað að sjá liðið sem af er tímabils. Ég ætla að spá því að hann stillii upp 4-3-3 og Sanchez verði á milli stanganna og þar fyrir framan verði Veiga, Colwill, Adarabioyo og Gusto. Á miðjunni verða þeir Enzo, Lavia og Caicedo og frammi lúra þeir Sancho, Palmer og Jackson. Það er ekki ólíklegt að Reece James komi inn í einhverja stund og Joao Felix og Pedro verða vafalaust á tánum og til í slaginn. Ég ætla að spá þessu 2-2 og vera hógvær aldrei þessu vant, en gæti þó alveg sætt mig við 1-2 en stig fáum við út úr þessum leik. Þetta verður brekka en þær eru bara til þess að klífa þær.
Með þessum orðum langar mig að óska öllum Chelsea aðdáendum til hamingju með helgina. Áfram Chelsea! P.s. við hvetjum lesendur til að vera í Chelsea klúbbnum á Íslandi. Þannig er hægt að næla sér í miða á leiki með Chelsea á hagstæðum verðum. Allar leiðbeiningar um nýskráningar og fleira í þeim dúr má lesa á www.chelsea.is
Comments