Leikurinn
Chelsea fékk Atletico Madrid í heimsókn á Stamford Bridge þegar loka leikirnir í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fóru fram. Fyrir leikinn í kvöld hafði Chelsea 1-0 forystu eftir að hafa unnið fyrri leik liðanna með stórkostlegu marki frá Olivier Giroud og hafði Chelsea því gott útivallarmark í veganesti fyrir átök gærkvöldsins.
Chelsea kom inn í leikinn með “laskað” lið en Mason Mount, Jorginho, Tammy Abraham, Thiago Silva og Andreas Christensen voru allir fjarri góðu gamni í þessum leik.
Það var eins og við var að búast mikil refskák milli Thomas Tuchel og Diego Simeone þar sem liðin skiptust á að eiga sína kafla. Það var svo á 34.mínútu sem Chelsea liðið náði frábærri skyndisókn þar sem Kai Havertz gerði vel í að ná valdi á boltanum og stinga Timo Werner inn fyrir í hlaupabrautina sem sá frábært hlaup frá Hakim Ziyech á fjærstöng og renndi boltanum til hans sem setti boltann undir Jan Oblak í marki Atletico og staðan orðin 1-0 (2-0 samanlagt).
Eftir þetta mark varð leikurinn aldrei í neinni alvöru hættu og var það varamaðurinn Emerson (af öllum mönnum!) sem rak síðasta naglan í kistu Atletico Madrid með sinni fyrstu snertingu í uppbótartíma en skömmu áður hafði Edouard Mendy varið frábærlega í besta færi Atletico í leiknum þegar Joao Felix átti gott skot sem Mendy náði að verja yfir markið.
2-0 sigur staðreynd eða samanlagður 3-0 sigur. Í fyrsta skipti síðan 2014 komast okkar menn lengra en 16-liða úrslit og kaldhæðni örlagana að síðasta liðið til þess að slá okkur út eftir að hafa komist lengra en 16-liða er einmitt Atletico Madrid. Ég tek mér því það bessaleyfi að formlega aflétta “16-liða álögum”.
Það verður dregið í 8-liða úrslit og undan úrslit á föstudaginn kemur og eru þessi lið eftir í pottinum:
Chelsea
Real Madrid
Liverpool
PSG
Dortmund
Porto
Bayern Munchen
Man City
Draumadrátturinn á föstudaginn væri klárlega að fá Porto og í fullkomnum heimi Dortmund í undanúrslitum á sama tíma og Man City og Bayern þyrftu að mætast innbyrðist. Ég ætla að spá því að við fáum þó PSG upp úr hattinum á föstudaginn og Thomas Tuchel hendi sér í gott “revenge mission” og taki þá út.
Ég ætla alls ekki að útiloka það að við förum hreinlega bara alla leið! En að sama skapi ætla ég ekki að missa mig í gleðinni - njótum þess að vera komin í 8.liða úrslit og fylgjumst spennt með drættinum á föstudag.
xG Bardaginn
Einkunnir
Mendy - 8
Frábær leikur hjá okkar manni. Greip vel inní þegar á þurfti og gífurlegt traust sem fylgir því að hafa hann milli stanganna. Varði frábærlega undir lok leiks gott skot frá Felix.
Azpilicueta - 7
Átti erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik, stálheppinn að fá ekki dæmt á sig víti og þá mögulega rautt en vann sig vel tilbaka.
Zouma - 7
Fór ekki mikið fyrir Zouma í dag sem er kostur fyrir miðvörð að hafa. Leysti vel úr sínu og kom vel inn í leikinn í fjarveru Christensen og T.Silva.
Rudiger- 9
Þvílíkur kóngur sem þessi leikmaður er! Frá zero to hero á einum mánuði! Frábær í dag og náði að pirra Atletico vel í þessum leik, það mikið að Savic fauk útaf með rautt eftir vistarskiptin sín við Rudi. Var svo að espa Madrídingana vel upp og steig þá út.
James -7
Hefðum viljað sjá meira frá Reece James í þessum leik en skilaði af sér góðri varnarvinnu og átti sín móment framar á vellinum. Svolítið eins og hjá Zouma þá fór minna fyrir Reece James en við erum kannaski vön.
Alonso - 7
Var bara í sínum gír allan leikinn. Var hvorki frábær né slakur og heilt yfir bara góð frammistaða.
Kovacic - 8
Fannst hann vera í brasi í fyrri hálfeik og missti svolítið boltann en vann sig vel inn í leikinn og var t.a.m. frábær í seinni hálfleik og gerði það sem hann gerir best að bera boltann upp úr pressu.
Kanté - 9
Maður leiksins. Enginn vafi um það. Framúrskarandi allan leikinn og þvílíkur leikmaður sem N'Golo Kanté er! Leysti upp spil Atlético trekk í trekk og vann boltann vel. Sýndi nokkur Kantéinho móment þar sem hann labbaði í gegnum nokkra leikmenn Atletico og var á iði allan leikinn.
Ziyech - 8
Líklega besti leikur Hakim Ziyech frá því hann kom tilbaka úr meiðslum fyrr á þessu ári. Skoraði frábært mark eftir undirbúning Kai Havertz og Timo Werner og átti að auki gott skot sem Oblak varði vel.
Havertz - 8
Það er allt annað að sjá Havertz eftir komu Tuchel. Hann er orðin harðari af sér og mun meira ógnandi spilandi á milli línanna. Gerði frábærlega í undirbúningi af fyrsta markinu þegar hann stakk Timo Werner í gegn.
Werner - 8
Flottur leikur hjá Timo Werner. Lagði upp og var ekki langt frá því að skora í leiknum en einungis Jan Oblak ver þetta. Spiluðum á styrkleika Werner og reyndum að stinga honum innfyrir vörn Atletico og nýta þar hans hraða.
Varamenn
Hudson-Odoi - 6
Verður að viðurkennast að hann átti alls ekki sérstaka innkomu. Fékk fín færi sem hann fór illa með og hefði hæglega getað gert betur.
Pulisic - 7
Átti ágætis innkomu. Nokkur næstum því móment sem hefðu getað leitt að einhverju frábæru en alltaf féll það saman á síðstu snertingu. Lagði hinsvegar upp annað mark leiksins sem lyfir hans einkun upp.
Emerson - 10
10/10 - Held þetta sé ein snerting, eitt mark. Frábærar 2-3 mínútur frá hinum gleymda Emerson.
Chilwell - Spilaði of lítið
KTBFFH
- Stefán Marteinn
Comments