Keppni: Evrópska Sambandsdeildin
Tími, dagsetning: Fimmtudaginn 22. ágúst kl: 19:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Jéremie Pignard (Frakkland)
Hvar sýndur: Ekki neinstaðar.
Upphitun eftir: BOB - Björgvin Óskar Bjarnason
Næstkomandi fimmtudag þann 22. ágúst leikur Chelsea sinn fyrsta leik í Evrópukeppninni í ár. Að vísu aðeins í svonefndri UEFA Conference League eða UEFA Sambandsdeildin. Ekki Europa league eins og staðan í deildinni bauð upp á (Manchester United vann FA bikarinn og stal þar með OKKAR sæti í Europa League). En engu að síður skref fram á við miðað við tímabilið í fyrra. Sambandsdeildin var sett á stofn fyrir fjórum árum síðan til að mæta kröfum stóru og ríku félaganna og hótun þeirra að koma á stofn “Ofurdeild”. Bæði til að fjölga leikjum og þar með tekjur og að fækka leikjum við “óæðri” liðin. Sambandsdeildin er því “þriðja deildin” í evrópukeppninni á eftir UEFA Europe League og UEFA Champions League. Og þar duddum við í ár.
Andstæðingurinn er svissneska liðið Servette frá Genf. Hótfyndnir munu eflaust segja að auðvelt sé fyrir Chelsea að snýta sér á þessari svissnesku sérvettu, en það er mikið ofmat á eigið ágæti. Í fyrsta lagi þýðir orðið “servette” skógur (á latínu) þannig að þar fór helmingur grínsins og sú staðreynd að við höfum þrisvar leikið við svissnesk lið í Evrópukeppni frá árinu 2000 með þrjá leiki unna og þrjá leiki tapaða (og jafna markatölu, 7-7). Það segir mér að hinn helmingur meinta brandarans súrni töluvert. Eflaust muna margir eftir síðustu viðureign okkar við FC Basel fyrir rúmum tíu árum í liðakeppni Champions League. Við mættum með okkar besta lið þ.e. Cech, Terry, Azpilicueta, Ivanovic, Lampard, Oscar, Ramirez, Eto'o, Torres, De Bruyne, Hazard, A. Cole, Mata og fl. En einn leikmaður Basel hljóp af sér alla Chelsea vörnina og skoraði á 89. mínútu og Basel vann heimaleikinn 1-0. Maður gerði ráð fyrir að okkar menn væru illa fyrirkallaðir og mundu bæta fyrir þetta hneyksli á Brúnni. Chelsea var undan að skora en þá hljóp leiðinlegi leikmaðurinn aftur af sér alla Chelseavörnina og jafnaði leikinn. Basel skoraði síðan 10 mín seinna og vann leikinn. Chelsea vann þó hin tvö liðin í riðlinu og hélt áfram í útsláttarkeppnina. Chelsea keypti auðvitað snimmhendis markaskorarann frá Basel sem pissaði alvarlega á evrópuskrúðgöngu Chelsea. Hann heitir Mohamed Salah.
Illu heilli átti hann ekki framtíð hjá Chelsea frekar en liðsfélagi hans De Bruyne. Til samans hafa þeir kumpánar skorað yfir 300 mörk (fyrir Liverpool og Man City) og gefið yfir 200 stoðsendingar fyrir sín félög. Við hefðum alveg getað notað eitthvað af þessum mörkum og stoðsendingum síðustu 10 árin. Servette er gamalgróið (nokkrum árum eldra en Chelsea) og virt félag í Sviss og var mjög sigursælt með marga svissneska titla í farteskinu. Þeir lentu í fjárhagshremmingum fyrir um 20 árum síðan (þá nýbúnir að byggja upp leikvöllinn) og misstigu sig illilega á knattspyrnusviðinu í kjölfarið. En hafa verið að ná áttum og fyrri styrkleika hin síðustu ár. Og talandi um styrkleika þá hefur svissneskur fótbolti verið að sanna sig á stóra sviðinu undanfarin ár. Þeir eru í 15. sæti á styrkleikalista FIFA og bættu sig um heil fjögur sæti eftir Evrópumótið, þar sem þeir töpuðu ekki leik, en duttu út í vító við tjallanna sem kunnugt er. Servette hafa þegar leikið fimm leiki í svissnesku ofurdeildinni, unnið þrjá og tapað tveimur. Þeir þykja leika sterkan varnarleik þótt þeir hafi tapað 0-6 gegn Basel á heimavelli. Þeir léku við 2. deildarlið um helgina í bikarnum og unnu 7-1 þannig að þeir kunna einnig að skora. Servette hefur verið að leika í UEFA Conference Leage frá því í byrjun júlí og náðu að komast áfram, þannig að þeir eru búnir að leika um 11 leiki sem lið, á meðan þetta er annar leikur okkar manna á tímabilinu.
Ég held að það hafi lítil áhrif á leikmenn Servette þótt liðið kosti í heild innan 10 milljón pund meðan lið Chelsea kostar næstum 100 sinnum meira. Undirbúningstímabil Chelsea hefur gengið stórslysalaust (nema auðvitað með Reece James). Allir leikmennirnir að reyna að dansa Maresca-konga með misjöfnum árangri. Vörnin hangir enn á gömlu hjörunum sem sagt láta undan við minnsta áreiti og getuleysi upp við mark andstæðinganna enn við okkar auðkenni. Ég ætla ekki að reyna að stilla upp liði fyrir leikinn gegn Servette en er alveg 100% viss um að eftirtaldir leikmenn verða ekki í liðinu. Kepa, Chalobah, Humpfreys (lán), Gallagher, D. Fofana, Lukaku, Ugochuckwu (lán), Lukaku, Broja, Moreira (seldur) og jafnvel Petrovic. Það er samt af nógu af taka, eiginlega ofgnótt leikmanna eins og henti í fyrra. Chelsea hefur keypt 11 nýja leikmenn fyrir um 230 milljón punda og eru ekki alveg hættir kaupæðinu sem eiginlega enginn kann skýringu á. Þannig að grimmur niðurskurður er sýnilega framundan.
Fækka þarf leikmannahópnum niður í 25 til 26 leikmenn þannig að hann sé viðráðanlegur fyrir stjórann og aðeins borð fyrir báru ef meiðsli henda eins og við þekkjum bærilega frá síðustu leiktíð. Ég hef ekki hugmynd um hvernig Maresca lítur á þennan leik og hvaða áherslur hann leggur á Sambandsdeildina en hafa ber í huga að þremur dögum seinna eigum við erfiðan útileik gegn Úlfunum og viku seinna útileikinn við Servette í Sviss. En hafa ber einnig í huga að góð frammistaða í Sambandsdeildinni þýðir meira klink í kassann. Þannig að BlueCo gerir vonandi sömu kröfur og við dauðlegir aðdáendur liðsins að Chelsea fari í hvern leik til að vinna og sætta sig ekki við tap. Þeir sem vilja kynna sér fyrirkomulag Sambandsdeildarinnar geta fræðst um það hér.
Í leik okkar við Manchester City um helgina sáum við held ég það leikmunstur sem lið munu nota gegn Chelsea í vetur eða allavega þangað til sóknarleikur liðsins verður hraðari og markvissari. Hina margnefndu “lágblokk”. Meira að segja Man City beið til baka og lét Chelsea gera mistökin í sókninni og sótti síðan hratt í veiku svæðin. Chelsea fékk alveg jafn góð eða betri tækifæri til að skora en Man City (xG Chelsea var 1.23 gegn 0.82 hjá Man City) en munurinn var eitt stykki klassa framherji. Chelsea þarf að vera grimmari í báðum teigum (vörn og sókn), nota færri og beinskeyttari snertingar í sókn (í anda Maresca) og reyna að vanda til þeirra. En allt of mikil ónákvæmni var í sendingum liðsins á síðasta þriðjungi vallarins. Ég geri ráð fyrir að Servette liggi til baka og reyni skyndisóknir. Maresca verður ekki búinn að leysa það vandarmál fyrir fimmtudaginn þannig að ég spái því að við náum mögulega tveimur mörkum. Því miður erum við ekki nógu grimmir í vörninni og markmennirnir eiga yfirleitt 1-2 gloríur í leik þannig að við lekum inn einu marki. Okkar besti maður í fyrra, bæði í markaskorun og stoðsendingum var Cole Palmer. Þá fékk hann töluvert frelsi til að sækja en var töluvert heftur á kantinum á móti Manchester City um helgina. Christopher Nkunku var okkar besti leikmaður á undirbúningstímabilinu og lék þá yfirleitt sem tía. Í Man City leiknum var hann “geymdur” úti á vinstri vængnum þannig að liðið fékk aldrei að njóta hans hæfileika til fullnustu. Maresca þarf að finna leið til að nýta bestu hæfileika okkar hæfustu sóknarmanna en ekki frysta þá í stöðum sem henta þeim ekki. Nkunku og Palmer munu þá skora. Sem sagt Chelsea 2 – Servette 1 og þeir félagar með sitt hvort markið.
Áfram Chelsea og KTBFFH!! E.s. Við hvetjum aðdáendur Chelsea til að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Félagsmenn njóta góðra kjara og forkaupsákvæða á heimaleiki Chelsea. Klúbburinn útvegar félagsmönnum miða. Leiðbeiningar til að skrá sig og upplýsingar yfir miðakaup má finna á www.chelsea.is
Σχόλια