top of page
Search

Porto vs. Chelsea - 8. liða úrslit í Meistaradeild Evrópu!

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Miðvikudaginn 7. apríl kl 19:00

Leikvangur: Ramon Sanchez Pizujan

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 sport, Sky sports og NBC sports

Upphitun eftir: Snorra Clinton


Chelsea

Það er nú aldeilis skellurinn sem okkar menn fengu nýliðna helgi. 2-5 tap á heimavelli á móti næst lélegasta liðinu í ensku deildinni. Chelsea var búið að vera ósigrað í 14 leikjum undir handleiðslu Bragðarefsins og aðeins búið að fá á sig 2 mörk í öllum keppnum. Adam var nú ekki lengi í paradís eins og ritað er einhvers staðar og var okkur heldur betur skellt niður á jörðina. Big Sam og hans drengir komu, sáu og sigruðu á Brúnni og fyrsta tapið staðreynd. Ég hef nú aldrei haft jafn litla list á því að reifa síðasta leik eins og akkúrat núna og ætla mér heldur betur að sleppa því. Þeir sem eru haldnir einhverri sérstakri sjálfspýningar hvöt geta lesið sig til um leikinn hér þó mæli ég eindregið gegn því.


Það er nú samt alltaf líf í okkar herbúðum og hefur nú mikið verið fjallað í fjölmiðlum um ósætti milli Rudiger og Kepa. En staðfest er að þeim lenti saman og var Rudiger beðinn um að yfirgefa æfinguna. Það er nokkuð ljóst að fjölmiðlar vilja gera sér mat úr þessu og hafa ýmsar sögusagnir ratað upp á yfirborðið, t.a.m að þeir félagarnir hafi verið saman í 5v5 og Rudiger einfaldlega buffað Kepa fyrir að geta ekki varið einfalda bolta. Aftur á móti er líklega ekkert til í þeim sögusögnum þar sem bæði leikmenn og Tuchel hafa dregið úr atvikinu og sagt að Rudi hafi séð strax af sér og beðist afsökunar og hópurinn sé einbeittur fyrir verkefninu sem er framundan. Eitt er þó víst að okkar mönnum er heitt í hamsi og líklegt er að tapið hafi farið öfugt ofan í menn og þeir hafa vonandi fengið útrás fyrir þeim pirring.


Fyrr í dag sátu Tuchel og Kovacic á blaðamannafundi og fóru yfir þessa þætti hér að ofan sem og komandi viðureign við drengina frá Porto. Það var ákveðin auðmýkt í Bragðarefnum og Kova þar sem þeir minntu á að vanmat sé alls ekki í boði þar sem Porto eru sýnd veiði en ekki gefin, var leikurinn á móti WBA heldur betur áminning um að ALLT getur gerst i boltanum. Ég hef þó fulla trú á því að TT hafi greint tapleikinn í frumeindir og farið gríðarlega vel yfir allt sem illa fór.


Byrjunarliðið

Það er nú alltaf sama hundakúnstin að spá fyrir um byrjunarliðið eftir að TT tók við. En hann staðfesti á blaðamanna fundi að Rudi myndi byrja og að allir í hópnum væru byrjaðir að æfa á fullu. Ég tel því öruggt að Kletturinn okkar góði sé í búrinu með þrjá miðverði fyrir framan sig, Danska prinsinn, Rudiger og Azpi. Þeir James og (vonandi) Chilwell mæta svo í stöður vængbakvarða. Á miðjunni sjáum við svo félagana Kovacic og Kante, þetta byggi ég helst á því að Kova sat með TT á blaðamanna fundinum í dag. Jorginho átti afleitan leik á móti WBA og tel ég að hann verði hvíldur. Fremstu þrír verða svo Havertz á toppnum með Mount og Zyiech fyrir aftan sig. Tammy hefur ekki verið að klára æfingar upp á síðkastið og tel ég því líklegt að hann byrji pottþétt ekki en gæti komið við sögu. Giroud er einnig líklegur til að leiða sóknarlínuna en TT staðfesti að hann væri í hópnum fyrir leikinn. Ef ég hitti á sex rétta þá verður sko fjárfest í lottó miða fyrir helgina!Porto

Þeir portúgölsku gerðu sér lítið fyrir og skelltu Juventus mönnum í 16-liða úrslitum og hafa unnið alla sína leiki síðan, n.b þá töpuðu þeir seinni rimmunni en komust áfram á útivallarmörkum. Aftur á mótii til að setja þetta smá samhengi þá er Juventus búið að vera mjög lélegt í ár og því er afrekið ekki jafn stórt og það er á pappír. Eitt er þó víst að þeir verða án tveggja lykil leikmanna á morgun en þeir Taremi og Oliveira eru að taka út leikbönn. Saman eru þessir kappar með 21 mark á milli sín og því ljóst að þeir skilja eftir skarð í sóknarbiti Portúgalana. Eins og staðan er núna sitja þeir í 2. Sæti portúgölsku deildinni, 8 stigum á eftir toppsætinu. Það má gera ráð fyrir að þeir séu með blóðbragð á tönnum eftir viðureignina á móti Juve og ætli sér ekkert nema sigur í báðum leikjum. Á venjulegum degi er þetta leikur sem við eigum að klára nokkuð auðveldlega og helst gera út um rimmuna í fyrsta leik.


Spá

Ef það er eitthvað sem síðasti leikur kenndi okkur, þá er það að ekkert er sjálfsagt. Okkar menn vita fullvel að það er verk fyrir höndum og ekki er nóg að bara mæta. Þeir verða látnir spila til sigurs. Eins og ég kom inn á hér fyrr í pistlinum, þá eru allar líkur á að TT er búinn að taka í lurginn á lekmönnum og koma í veg fyrir að slík útreið endurtaki sig í bráð. Við mætum varkárir en með fókusinn á verkefninu upp á 100%. Tuchel er búinn að skrifa handritið af þessum leik og ef menn vinna sína vinnu förum við frá Sevilla með 0-3 sigur í handfarangrinum. Mount setur fyrsta um miðjan fyrri hálflek og Zyiech setur tvö í seinni hálfleik.


- Snorri Clinton

Comments


bottom of page