top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Meistaradeildin byrjar með Bayern

  • Writer: Jóhann Már Helgason
    Jóhann Már Helgason
  • Sep 16
  • 9 min read

Keppni:  Meistaradeildin

Tími, dagsetning:     Miðvikudagur 17. september kl: 19.00

Leikvangur:    Allianz Arena, München   

Dómari:    José María Sánchez Martínez (Spánn)

Hvar sýndur:    Sýn Sport

Upphitun eftir:  Björgvin Óskar Bjarnason

ree

Eftir frábæra frammistöðu og sigur á Club World Cup í sumar og vitneskju um að mögulega yrðu einn eða tveir vinstri vængmenn keyptir til viðbótar (Gittens og Garnacho) sem og tía (Simons), þá var maður farinn að hlakka til vetrarins því Chelsea virtist vel mannað í allar stöður. Pedro (9 og10), Estevao (kantmaður og 10), DeLap (9), Essugo (6), Santos (6 og 8), Hato (bak- og miðvörður) sem og miðverðirnir Sarr og Anselmino voru leikmenn sem bættust í leikmannahópinn.


Ég hafði þó áhyggjur af löngu leiktímabili, mörgum leikjum og lítilli hvíld, áður er vertíðin 2025-26 hófst sem gæti haft áhrif á meiðsli og frammistöðu þegar fram í sækir. Chelsea var þegar með of marga símeiðslapésa í liðinu. Liðsmenn sem fullir heilsu mundu styrkja það verulega. Leikmenn eins og James, Fofana og Lavia höfðu lítið sem ekkert leikið í langan tíma. James var þó að koma til og lék alltaf fleiri og fleiri mínútur hjá Maresca sem greinilega passaði vel að ofgera honum ekki. Ég geri ráð fyrir að Maresca hafi sama háttinn með hina tvo. Fofana taldi sig vita betur en sérfræðingar Chelsea og taldi sig reiðubúinn sl. vor. Auðvitað með neikvæðum árangri og afturför, og er því í áframhaldandi endurhæfingu. En vonandi styttist í að allir verði leikhæfir í meira en mínútur hér og þar þegar vel lætur.


Á miðju Heimsmeistaramótinu í sumar var kantmaðurinn Noni Madueke seldur til  Arsenal. Sterling er ekki í náðinni hjá Maresca enda hefur hann engan áhuga á fótbolta lengur. Aðeins laununum sínum og barnauppeldi. Hinn barnalegi einfeldingur Mudryk var eitthvað rotinpúrulegur fyrir landsleik Ukraínu og lét  sjúkraþjálfara úkraínska landsliðsins plata sig í að fá sprautu í rassinn sem innihélt stofnfrumukokteil úr einhverri skjöldóttri Búkollu sem hafði verið alin upp á Meldonium sem er bullandi bannað efni/lyf af öllum íþróttastofnunum heims. Það er alveg kýrskýrt að það voru engar heilafrumur í þessari blöndu.  Mudryk verður sennilega fyrsti kú-rekinn (!) hjá Chelsea. Þannig að skortur var fyrirsjáanlegur á kantmönnum og því gott að sjá að Chelsea hafði metnað að bæta úr því í sumarglugganum.


Íþróttastjórum Chelsea hefur farið mikið fram að versla leikmenn á hagstæðari verðum en áður. Félög gerðu sér að leik að smyrja á verðið á leikmanni ef Chelsea sýndi minnsta áhuga á honum. Og “gamla” Chelsea lét undan og keypti næstum allt sem hreyfðist á yfirverðum. Nú er það liðin tíð. Stjórarnir setja “eigið” verðmat á þá leikmenn sem þeir sækjast eftir og hafa eiginlega staðið við það í leikmannakaupum í sumar. DeLap var keyptur á hagstæðu verði og hið sama má segja um Hato, Essugo og jafnvel Pedro. Garnacho var keyptur á “spottprís” hvað sem verður úr honum hjá Chelsea. Hæfileikarnir eru fyrir hendi, en hann virðist eiga slæman ráðgjafa/bróðir sem er duglegur að koma öllu í bál og brand, hvar sem þeir kumpánar eru.  


Einnig voru íþróttastjórarnir lunknir að fá góð verð fyrir þá leikmenn Chelsea sem seldir voru. Og duglegir að selja leikmenn sem voru hluti af aðalliðinu síðastliðinn vetur eins og Nkunku, Madueke og Dewsbury-Hall.  Jackson var á sölulista en endaði á láni hjá því liði sem Chelsea leikur við að þessu sinni. Má segja að stjórarnir hafi farið nokkru offari við að selja fullt af leikmönnum sem og að lána leikmenn út um hvippinn og hvappinn. Enda margir leikmenn á launaskrá Chelsea. En mitt í þessum ákafa og dugnaði að selja, kaupa og lána leikmenn heimsótti félagið fyrirbæri sem nefnt er lögmál Murphys og hljóðar  þannig "Allt sem farið getur úrskeiðis mun fara úrskeiðis".


Á fyrstu æfingu eftir sumarfrí þá meiddist Colwill (ACL = krossbandaslit) og verður frá í allan vetur. Colwill er mjög mikilvægur Chelsea því sendingar út frá vörninni var helst á hans könnu og enginn annar virðist hæfur til að feta í hans spor. Síðan meiddist Palmer í nára sem geta verið þrálát meiðsli. Í leiknum gegn Fulham reif DeLap vöðva aftan í læri og verður varla alvarlega leikhæfur fyrr en um áramót. Það fer auðvitað eftir því hvort þetta hafi verið annað eða þriðja stigs trosnun. Þetta leit því miður út eins og versta gerð af tognun. Þannig að þrír mánuðir eru normið. Meintur staðgengill Caicedo í vetur, Portúgalinn Essugo skrapp í landsliðsferð með 21. árs unglingalandsliðinu og endaði á skurðarborðinu vegna meiðsla í læri. Hann verður líklega frá til áramóta. Þar fyrir utan eru Lavia og Badiashile á sjúkralista að venju og Wesley Fofana ekki að fullu leikfær en að koma til. 



ree

 

Ekki nóg með það. Salan á Jackson gekk ekki eftir og því varð ekkert úr kaupunum á Xavi Simons sem endaði þó í London. Því miður í Norður-London hjá Tottenham. Sarr,  Anselmino og Guiu voru allir lánaðir. Enciso (eign Strasbourg eða þannig), Penders og Paez lentu hjá Strasbourg og Tyrique George seldur á góðu verði  til Fulham en gjörningurinn féll á tíma á lokadegi og er því áfram hjá Chelsea. Murhpy-lögmálið setti því allt á annan endann. Jackson var “innkallaður” úr láni til Bayern Munchen en hann harðneitaði að koma aftur. Guiu var því kallaður heim úr láni frá Sunderland og Buenanotte (Brighton) fenginn að láni frá Brighton (en ekki hvaðan). Emanuel Emegha (9) var keyptur frá Strasbourg en lánaður til baka þetta leiktímabil þannig að hann kemur ekki við sögu hjá Chelsea í vetur. Þannig að Chelsea stendur nú allt í einu frammi fyrir þeirri staðreynd að vera ekki nógu vel mannaðir í sumar stöður vegna meiðsla og mistaka á markaðnum. Nú þegar aðeins þrír leikir eru liðnir af vetrinum og framundan eru sjö leikir á 22 dögum (frá 13.9 til 4.10). Fyrstu fjórir eru allir útileikir og sá fyrsti laugardaginn 13.9 gegn Brentford, svo Bayern München. Í Evrópukeppninni miðvikudaginn 17.9 þá Manchester United á Old Trafford laugardaginn 20.9 og síðan Lincoln City í bikarnum þann 23.9. Síðasti leikurinn í þessari hrinu er gegn Liverpool.


Þetta kom allt berlega í ljós þegar við lékum gegn Brentford. Að margra mati mjög skrýtin uppstilling en augljóslega gerð til að hvíla þá sem eru að koma úr meiðslum (Palmer) og landsleikjum (James og Cucurella, Santos og Gusto). Samt voru Caiceido, Neto og Pedro notaðir. Pedro gekk augljóslega ekki heill til skógar og sást það langa leiðir á hans leik. Hato og Fofana voru “bakverðir” og Buenonotte leikjstjórnandi og Gittens á vinstri kanti. Enn kemur í ljós hversu erfitt liðið á með að leika gegn andstæðingum sem leggjast í vörn og nota líkamann í pressubolta. Það var ekki fyrr en Palmer kom inn á að aðeins örlaði á hættulegum sóknum frá okkar hendi eða frekar fæti. Annars var þetta eiginlega bara hægt boltarúll á milli varnarmanna Chelsea og engin raunhætta fram á við. 

Hato er ekki búinn að átta sig á hraðanum og ákafanum í enska boltanum og þarf að mannast sem fyrst. Fofana er greinilega ekki kominn í fulla leikæfingu og var enginn greiði gerður með að setja hann í stöðu sem “blendings” bakvörður sem hann ræður ekki við. Hann virkaði eins og álfur út úr hól á stundum, annað en þessi flotti miðvörður sem hann á eðli til. Bæði hann og Hato voru látnir leika mjög framarlega þannig að “þeirra” svæði (bakvarða) voru gapandi auð. Nokkuð sem Brentford hafði “lesið” og nýtt sér til fullnustu.  Gittens virkaði eins og kólibrífugl í baráttu við turnfálka í sínum aðgerðum og hefur því miður ekki heillað mig þessa fáu leiki hjá okkur.  Mér finnst skiptin á honum og Madueke kjánaleg. Neto og Enzo voru alveg þokkalegir, en fyrirgjafir í fyrri hálfleik voru daprar, sérstaklega hjá Neto. Það lagaðist í seinni hálfleik en enginn til að taka við þeim inn í teig. Caicedo stóð sig frábærlega að venju. Það er með ólikindum hvað þessi leikmaður er öflugur og skilar alltaf sínu þótt hann komi hundþreyttur úr landsleikja”fríi”.  Buonanotte stóð sig alveg þokkalega í sínum fyrsta leik, en hann er enginn Palmer og þess vegna voru sóknir sem fóru í gengum hann nokkuð fyrirsjáanlegar. Garnacho kom seint inn á og var öllu líflegri en Gittens. Tosin hefur verið öflugur í undanförnum leikjum en í þessum leik komu veikleikar hans í ljós. Maður á móti manni í skyndisóknum. Enda léku Fofana og Hato það framarlega að Toshin og Chalobah voru látnir einir (engin varadekkning) um stóra, sterka og fljóta Schade og Thiago á stóru svæði. Robert Sanchez er og verður ekki þessi markmaður sem skipta mun sköpum fyrir Chelsea í báráttunni um Englandsmeistaratitilinn þótt hann hafi sýnt góða takta í heimsmeistarakeppninni. Kelleher í Brentford-markinu bjargaði aftur á móti stigi fyrir sitt lið með fínum vörslum. Ég hefði viljað sjá álíka frammistöðu frá Sanchez. 


ree

Ef kenna má leikskipulagi Maresca um fyrra markið, má alveg eins kenna sérfræðingnum í “föstum leikatriðum” um seinna mark Brentford. Auðvitað átti Garnacho að vera á fjærstönginni í innkastinu.  Sem gamall varnarjálkur og þjálfari lagði maður áherslu að verja fjarstöngina jafn vel og nærstöngina. Fjórir varnarmenn Chelsea hoppuðu upp í innkastið og töpuðu fyrir einum Brentfordmanni en boltinn skaust áfram að miðju marki þar sem James dekkaði eina andstæðinginn sem þar var. Hann hafði betur gegn James og skondraði boltanum í átt að fjarstönginni þar sem Garnacho var á einhverju útsýnisróli frekar en í varnarvinnu. Þessi leikmaður sem truflaði James kom að vísu úr rangstöðunni en VAR tjáði dómaranum að hann hefði ekki haft “áhrif á leikinn”. Og markið dæmt réttmætt. Um 25% af mörkum eru skoruð úr föstum leikatriðum og góður hluti af þeim er þegar boltanum er “flikkað” á fjærstöngina sem er í okkar tilfelli er yfirleitt ómönnuð svo skrítið sem það er. Og Cueva (sérfræðingurinn) þekkir Brentford inn og út því hann þjálfaði þá í föstum leikatriðum áður en hann kom til Chelsea.    


Mótherjar okkar Bayern München léku gegn Hamburger Sportverein sl. laugardag. Bayern var búið að skora fjögur mörk áður en hálftími var liðinn af leiknum og vann sannfærandi 5-0 sigur. Kompany stjóri Bayern hvíldi Kane, Gnabry og Diaz þegar leið á leikinn. Greinilega fyrir átökin á miðvikudaginn gegn Chelsea. Hann skipti Jackson inn á 46. mínútu. Það verður áhugavert að sjá hvort Jackson fái mínútur gegn Chelsea, en mér skilst að ekki gilda sömu reglur  um lánsleikmenn í Evrópukeppninni og á Englandi. Bayern er vel mannaður hópur með gott byrjunarlið. Auk ofangreindra má nefna Neuer, Upamecano Kimmich, Olise, Tah, Goretzka, Pavlovich og síðan Muisala og Alphonso Davies sem eru meiddir. Þannig að gera má ráð fyrir hörkuleik á  Allianz Arena.


Chelsea hefur leikið fimm sinnum við Bayern í Evrópukeppninni. Unnið einu sinni og gert eitt jafntefli. Bayern tók Chelsea í bakaríið í báðum leikjum í 16. liða umferðinni 2019-20. Í fjórðungsúrslitum 2004-05 unnu bæði liðin sinn heimaleik en markatala Chelsea var hagstæðari og lenti á móti Liverpool í undarúrslitum. Aðeins eitt mark var “skorað” í rimmunum tveimur þótt margir hafi verið þeirrar skoðunar að boltinn hafi aldrei farið yfir marklínuna hjá Chelsea. Dómarinn dæmdi mark en hann var hundeltur með köllum og látum af áhorfendum á Anfield í hvert skipti sem Chelsea-leikmaður kom nálægt púllaraskratta og heimtaði að dómarinn dæmdi  eða þá vafaatriðum í innköstum og hornum. Engin marklínutækni var komin hvað þá VAR (eins og það hefði breytt einhverju á Anfield). Liverpool vann síðan AC Milan í vítakeppni eftir 3-3 jafntefli í úrslitaleiknum. Chelsea komst í úrslit í Evrópukeppninni 2011-12 með því að vinna Barcelona (sigur og jafntefli) en Bayern vann Madrid í vítaspyrnukeppni eftir að unnið sitt hvorn leikinn með sömu markatölunni. Úrslitaleikurinn, sem fór fram á HEIMAVELLI Bayern Allianz Arena, var markalaus fram á 83 mínútur þegar Muller skoraði fyrir Bayern og flestir töldu leikinn unninn fyrir þýsku meistarana. En Drogba skoraði á 88 mínútu og leikurinn fór í framlengingu og síðan í vítaspyrnukeppni. Við Chelseaáðdáendur höfum illan bifur á vítaspyrnukeppnum sérstaklega eftir hrakfarirnar í Moskvu 2007-08 á móti Man United, en leikur þar eins og á Allianz Arena endaði 1-1 og fór í framlengingu.


ree

Í framlengingunni í Moskvu rak dómarinn Drogba út af en hann var fyrsti útileikmaðurinn í sögu úrslitakeppni Meistaradeildarinn til að vera rekinn út af. Sem þýddi að Drogba tók ekki víti. Chelsea komst 4-3 í vítakeppninni þegar Terry tók fimmtu og mögulega sigurspyrnuna. Völlurinn var nýtyrftur og rann Terry í aðhlaupinu og skotið varð brandari. Anelka var síðan sá sem klikkaði á spyrnu meðan Man United nýtti alla. Þannig að menn voru ekkert upplitsdjarfir þegar vítakeppnin á Allianz Arena hófst (2011-12). Ég tala nú ekki um þegar Mata klúðraði fyrstu spyrnu Chelsea og Bayern skoraði úr þremur (gegn okkar tveimur). En dæmið snérist við og Olic og Schweinsteiger mitókst báðum að skora meðan Ashley Cole og Drogba skoruðu fyrir Chelsea og liðið varð Evrópumeistari eftir að hafa misst svo grátlega af titlinum í Moskvu forðum daga.


Ég geri ráð fyrir hörkuleik á milli Bayern München og Chelsea á miðvikudagskvöld. Ég held að Bayern leggist ekki í lágvörn eins og öll félögin sem við höfum leikið gegn á þessari leiktíð í Úrvalsdeildinni. Áhangendur Bayern mundu ekki leyfa það. Heldur verði leikurinn opinn og vonandi skemmtilegur á að horfa. Áhorfendur Bayern eru magnaðir og munu vafalítið hvetja sína menn til dáða. Ég vonast auðvitað eftir góðum úrslitum en því miður veit maður ekki HVAÐA Chelsea-lið mætir hverju sinni.  Ég er ekki alveg klár á því hversu heilir okkar menn eru fyrir þessa rimmu en ætli ég segji ekki að liðið verði þannig: Sanchez, James, Tosin, Chalobah, Cucurella, Enzo, Caicedo, Palmer, Neto, Garnacho og Pedro. Vera kann að Gittens byrji því þetta eru leikmenn og leikstíll sem hann kannast við. Vonandi fáum við að sjá eitthvað af  Estevao og tilvalið að blóðga hann strax á stóra sviðinu. 


Áfram Chelsea! Björgvin Óskar


P.s. Munið að skrá ykkur í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig fáið þið miða á leiki á hagstæðu verði. Framundan er ferð sem vinir okkar í Blákastinu skipuleggja á næsta leik í Meistaradeildinni sem verður gegn Benfica. Meira um það síðar! Klúbburinn hefur þó í hyggju að skipuleggja fleiri ferðir, þannig að það er um að gera að vera með í þessu! Upplýsingar um skráningarferli má finna á www.chelsea.is


Chelsea aðdáendur á Akureyri ætla að hittast og horfa saman á Bayern leikinn á Verksmiðjunni Glerártorgi. Að venju fáum við Chelsea félagar 20% afslátt af matseðli og gleðistundartilboð á Lite bjór á meðan leik stendur.


Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri og uppsveitir Árnessýslu - takið eftir! Chelsea aðdáendur á Suðurlandsundirlendinu ætla að hittast saman á Miðbarnum á Selfossi. Trausti Falkvard, vertinn á Miðbarnum hefur heitið því að það verði 2 fyrir 1 tilboð á bjór komi menn í Chelsea treyjum! Við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.



 


 




 


    

 
 
 

Comments


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page