top of page
Search

Leikskýrsla: Chelsea vs SpursGangur leiksins

Lampard sýndi klærnar og stillti upp í sókndjörfu 4-3-3 leikkerfi, eitthvað sem kom sumum stuðningsmönnum Chelsea á óvart. Það var töluvert jafnræði í fyrri hálfleik en bæðu lið skiptust á að eiga sóknir sem sjaldan sköpuðu neina hættu. Timo Werner kom okkur reyndar yfir eftir um 12 mín leik en var réttilega dæmdur rangstæður - Pínu klaufalegt hjá Timo þar sem hann hafði alla línuna fyrir framan sig.


Í síðari hálfleik voru Chelsea mun sterkari aðilinn úti á vellinum en tókst því miður ekki að nýta sér yfirburðina með markverðum hætti. Giroud komst næst því að skora undir lok leiksins er Joe Rondon gerði mistök en Lloris varði slakt skot Frakkans. Það segir eflaust sitt að Tottenham áttu ekki nema eitt skot á rammann í leiknum og það kom í fyrri hálfleik.


Umræðupunktar

  • Mourinho kom á Stamford Bridge og spilaði upp á jafnteflið, hann lét Spurs liðið sækja á fáum mönnum og Sissoko og Hojberg voru mjög duglegir að elta vængmennina okkar og tvöfalda á þá. Eitthvað sem hamlaði leik Werner mikið. Móri spilaði eiginlega leikkerfið 7-3.

  • Chelsea átti 30(!) fyrirgjafir í leiknum sem telst býsna mikið, James og Ziyech létu boltann hvað eftir annað fljúga inn í teiginn en allt kom fyrir ekki.

  • Margir hafa ekki haldið vatni yfir Kane og Son og það réttilega. En Thiago Silva og Zouma voru með þá báða í rassvasanum allan leikinn.

  • Mateo Kovacic var gjörsamlega frábær í leiknum og er óðum að finna sitt besta form. Hann, Mount og Kante gjörsamlega eignuðu sér miðjuna í seinni hálfleik.

  • Hrós á Lampard fyrir að leggja leikinn upp með hugrökkum hætti. Þetta var pínu stöngin út frammistaða sóknarlega en við vorum miklu betra liðið á vellinum.

Einkunnir leikmanna

Mendy 7 - "Heimakletturinn" heldur áfram að heilla mann upp úr skónum, yfirvegun og öryggi eru hans einkunarorð. Varði skotið frá Bergwijn frábærlega - Kepa hefði líklega ekki varið það skot.


Reece James 7 - Fínasti leikur hjá Reece, stóð vaktina frábærlega í vörninni og átti fullt af ágætum krossum inn í teiginn. Er að þroskast með hverjum leiknum í heimsklassa bakvörð.


Ben Chilwell 7 - Chilwell gerði virkilega vel í baráttu sinni við Bergwijn og keyrði upp vænginn við hvert tækifæri.


Thiago Silva 8,5 - Frábær frammistaða hjá Thiago Silva. Hvet fólk til að skoða það hversu vel hann stýrir línunni okkar. Það er ekki tilviljun að Spurs fengu ekki eitt einasta hættulega upphlaup, líkt og þeir hafa verið að fá í undanförnum leikjum. Thiago lætur vörnina falla niður á hárréttum tíma, skynjar hættuna og les leikinn óaðfinnanlega. Stórkostlegur varnarmaður.


Kurt Zouma 6,5 - Mistökin í lokin draga Zouma niður um einn heilan í einkunn. Var heilt yfir góður í leiknum en hefði getað tapað honum í lokin. Þarf að passa upp þessa hluti. Var engu að síður frábær í loftinu og gerði vel gegn Kane.


N'Golo Kante 7 - Það var mjög gaman að fylgjast með rimmu þeirra Kante og Ndombele. Hefði stundum getað farið örlítið betur með boltann í seinni hálfleik en var engu að síður mjög traustur.


Mateo Kovacic 9 - Var besti maður vallarins og þetta var hans besti leikur síðan eftir Covid pásuna. Var frábær varnarlega og gríðarlega öflugur fram á við. Gerði það sem hann gerir best, keyrði boltann upp völlinn þegar Spurs reyndu að pressa og skapaði þannig mikinn usla hjá Spurs.


Mason Mount 8 - Var okkar hættulegasti maður í leiknum. Það sést í augnaráði Mount hvað þessi leikur skiptir hann miklu máli - hann ætlaði ekki að tapa. Átti frábært skot sem Lloris var einstaklega vel.


Timo Werner 5,5 - Hefði átt að passa sig betur þegar hann skoraði og var dæmdur rangstæður, var með alla línuna fyrir framan sig. Var týndur úti á vængnum þar sem Regulion og Sissoko voru með hann í gjörgæslu.


Hakim Ziyech 6 - Átti fjöldann allan af sendingum fyrir markið en það vantaði alltaf herslumuninn. Reyndi og reyndi en náði sér því miður ekki alveg á strik.


Tammy Abraham 5 - Leiddi línuna ágætlega og barðist vel en það vantaði upp á gæðin. Náði einu sinni að leika vel á Dier í fyrri hálfleik en var annars alltaf einu skrefi á eftir fyrirgjöfunum sem dundu inn í teiginn.


Christian Pulisic 6 - Þokkaleg innkoma hjá Captain America og gaman að sjá hann með þetta myndarlega skegg.


Olivier Giroud 6 - Hefði getað stolið þessu í lokin!


Kai Havertz - Spilaði of lítið til að fá einkunn.


KTBFFH

- Jóhann Már


Comments


bottom of page