top of page
Search

FA Bikarinn og uppjör fyrir hluta tímabilsins

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: 5. janúar 2020 kl. 14:01

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? T.d. Stöð 2 Sport og BeIn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Chelsea

Ég ætla ekki að eyða miklu púðri í að fara yfir leikinn gegn Brighton, né fjalla of mikið um leikinn gegn Nottingham Forest. Í þessum pistli ætla ég að reyna að koma með stutt uppgjör á því hvernig Chelsea hefur staðið sig á fyrri hluta tímabilsins, hvernig Lampard er að standa sig sem stjóri, hvaða leikmenn eru að skara fram úr og að lokum, hvaða leikmenn hafa verið að leika undir væntingum.


Ef tölfræðin er skoðuð að þá hefur Chelsea núna leikið 30 leiki undir stjórn Frank Lampard, í 15 þeirra hefur Chelsea borið sigur úr bítum, tíu hafa tapast og 5 endað með jafntefli. Þetta er aðeins sigurhlutfall upp á 50% og mun lakara en við eigum að venjast hjá Chelsea Football Club. Þar með er ekki öll sagan sögð, Lampard er auvðitað búinn að vera í uppbyggingarstarfi og hefur þurft að takast á við starfið án Eden Hazard. Lampard hefur þvert á móti fengið mikið hrós fyrir að hafa treyst ungum leikmönnum og látið liðið spila skemmtilegan fótbolta.


Til þessa að einfalda þetta allt saman var útbúin tafla þar sem leikmenn eru hólfaðir niður í fjóra árangursflokka; Framúrskarandi, Góður, Í meðallagi og svo Slakur. Þetta er auðvitað bara mín persónulega skoðun, og ég hvet lesendur til að vera ósammála mínu vali =)

Í heildina eru þetta 21 leikmaður sem er flokkaður niður, leikmenn eins og Billy Gilmour eða Matt Guehi fá ekki einkunn þó þeir hafi spila 2-3 leiki. Það sem sker í augun hjá mér persónulega er að engin varnarmaður kemst í flokinn "Framúrskarandi" eða "Góður". Zouma er búinn að vera of mistækur, Rudiger hefur ekki spilað nægilega mikið og Tomori byrjaði vissulega frábærlega en hefur svo dalað (eins og reyndar flestir í liðinu). Azpilicueta byrjaði tímabilið illa en hefur svo náð að rífa sig í gang. Vinstri bakvörðurinn er mesta vandræðarstaðan í vörninni, ástæðan fyrir því að ég met Alonso betur en Emerson er einfaldlega sú staðreynd að Alonso er búinn að taka þátt í fleiri sigurleikjum þrátt fyrir að hafa spilað minna í heildina. Marcos Alonso er líka yfirleitt mjög traustur þegar hann fær að spila sína stöðu, vinstri væng-bakvörð.


Fyrir mér eru Tammy Abraham og Mateo Kovacic bestu menn liðsins hingað. Kovacic átti sinn fyrsta slaka leik í jafnteflinu gegn Brighton, er annars búinn að vera frábær. Tammy Abraham er líklega orðinn mikilvægasti leikmaður liðsins, a.m.k. sá sem erfiðast er að vera án, þar sem Giroud og Batshuayi hafa hvorugur náð að heilla mikið.


Kepa er búinn að vera slakur, svo einfalt er það. Þetta er okkar dýrasti leikmaður og hann stóð sig vel á sínu fyrsta tímabili. Í ár er hann engan veginn búinn að finna taktinn, er óöruggur og nær engan veginn að skapa öryggi í öftustu línunni. Svo er hann gríðarlega óöruggur í föstum leikatriðum, sem hafa einmitt verið okkar akkílesarhæll á þessu tímabili - er til of mikils mælst að hann rjúki endrum og sinnum út í vítateiginn og grípi eina og eina fyrirgjöf?


Mount, Jorginho, Kanté, Pulisic og Willian eru svo búnir að eiga góð tímabil. Mount var líklega næstur því að komast í efsta flokkinn en hann hefur dalað örlítið undanfarnar vikur. Pulisic þarf að finna markaskóna sína aftur, þetta er leikmaður sem getur þetta allt og mun reynast okkur vel næstu árin. Ég set N'Golo Kanté í góða flokkinn en satt best að segja var í nálægt því að hafa hann í miðlungsflokknum. Ég vil fá aðeins meira frá Kanté, hann er eini heimsklassa leikmaðurinn í þessum hópi og þarf að stíga aðeins betur upp.


Að lokum gef ég Lampard 6,5 í einkunn. Hann er klárlega á réttri leið, er að þroska unga leikmenn o.s.frv. Hins vegar er liðið gríðarlega óstöðugt og varnarleikurinn heilt yfir slakur. Það er í raun fáranlegt að liðið geti farið og unnið Spurs og Arsenal á útivelli en á sömu vikum tapað gegn Southampton, Bournemouth og gert jafntefli við Brighton. Fyrir mér vantar Lampard einn heimsklassa miðvörð (Koulibaly), einn góðan framherja (Werner) til hjálpa Tammy og svo þurfum við Ruben Loftus-Cheek til baka úr meiðslum. Þá væri hópur Chelsea orðinn samkeppnishæfur við Liverpool og Man City.


Leikurinn gegn Nottingham Forest

Lampard mun vonandi rótera eins mikið og hann mögulega getur. Það sást í leiknum gegn Brighton að margir leikmenn liðsins voru orðnir ansi þreyttir eftir jólatörnina. Ég myndi stilla liðinu svona upp:

Tomori og Alosno eru báðir meiddir, þannig þeir eru "out". Ég vonast til þess að sjá bæði Billy Gilmour og Marc Guehi byrja leikinn. Vonandi er Ross Barkley líka klár í hefja leik, það er orðið ansi langt síðan við höfum séð hann spila. Svo er aldrei að vita nema Tariq Lamptey fái einnig tækifærið.


Nottingham Forest eru fínu skriði í ensku Championship deildinni þar sem þeir hafa unnið þrjá leiki í röð. Þeir sitja sem stendur í fjórða sæti þeirra deildar sem er býsna gott. Þeirra mesti markaskorari er neðrideildar potarinn Lewis Grabban, hann er með 14 mörk í 25 leikjum á tímabilinu. Það eru nokkur þekkt nöfn að spila með Forest, m.a. Ben Watson, Michael Dawson og hinn eini sanni Sammy Ameobi.


Spá

Ég spái góðum 3-1 sigri fyrir Chelsea. Hudson-Odoi skorar eitt á meðan Batsman setur tvö.

Comments


bottom of page