Djurgården heima
- Jóhann Már Helgason
- 11 minutes ago
- 3 min read
Keppni: Sambandsdeild Evrópu
Tími, dagsetning: Fimmtudagurinn 8. maí kl:19:00
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: João Pedro Silva Pinheiro (Portugal)
Hvar sýndur: Viaplay Iceland
Upphitun eftir: Bjarna Reynisson

Kæru félagar, okkar menn taka á móti Djurgården á fimmtudaginn kemur í seinni viðureign liðanna í undanúrslitum Sambandsdeildarinnar. Staðan í viðureigninni er gífurlega hagstæð fyrir okkar menn og ég er ekki feiminn við að fullyrða að við erum komnir í úrslitin. Stuðningsmenn Djurgården voru algjörlega frábærir í fyrri leiknum, hoppandi og trallandi allan liðlangan leikinn og létu það lítið trufla sig þótt að staðan í leikslok var 4-1, Chelsea í vil.
Gömul mýta er aldrei of oft kveðinn en hún er að aldrei má vanmeta andstæðing sinn. Brúin er hægt og smátt að breytast aftur í vígi og það hreinlega stingur að sjá að eina tapið á Brúnni í undanförnum 10 leikjum er gegn Legia Warszawa (7W, 2D, 1L). Andrúmsloftið og stemningin á vellinum þegar við lögðum Liverpool um helgina var óaðfinnaleg og sigurinn blæs ótvíræðlega baráttu anda og von í okkar menn að hægt sé að tryggja Meistaradeildar fótbolta fyrir komandi tímabil. Frammistaðan var gjörsamlega til fyrirmyndar. Cucurella setti Salah í vasann, Enzo hélt áfram að leika eins og engill, Lavia fékk mikilvægar mínútur í lappirnar og Cole Palmer batt enda á markaþurrðina sína og leit glæsilega út. Tilfærslan á Madueke yfir á vinstri vænginn leyfir Pedro Neto að njóta sín á hægri og báðir líta betur út fyrir vikið.
Moisés nokkur Caicedo er piltur sem þykir þokkalegur í fótbolta og guð minn eini almáttugur hvað það veitir mér mikla ánægju að hann spilar fyrir Chelsea. Virgil van Dijk aus yfir hann hrósum eftir leik Liverpool og Chelsea um helgina og sagði að hann hafi gert þeim lífið leitt, eins og hann gerir flestum sem að þurfa að eiga við hann. Í ljósi þess að Caicedo var krýndur leikmaður tímabilsins á dögunum, bæði af stuðningsmönnum klúbbsins sem og samherjum sínum ákvað ég að rýna aðeins í tölfræðina.

Í þetta skipti ákvað ég þá að bera hann saman við Rodri og hans frammistöðu með Man City árið sem þeir unnu þrennuna (tölur úr ensku úrvalsdeildinni). Caicedo skartar betri tölfræði í mörgum þáttum. Hann á fleiri tæklingar, fer í fleiri einvígi, vinnur fleiri einvígi, tapar boltanum sjaldnar. Hann á fleiri stungu sendingar (e. through-balls) og fleiri inngrip (e. interceptions). Rodri var þá mikilvægari sem sendingar hlekkur, þ.e.a.s. átti fleiri heildar sendingar, og átti fleiri ball recoveries heldur en Caicedo. Samt sem áður er Caicedo að spila 24% sinna sendinga fram á við miðað við 21% hjá Rodri. 65% sendinga Rodri voru þá til hliðar og 13% afturábak miðað við 59% til hliðar og 16% afturábak hjá Caicedo. Réttilega titlaður sem erfingi N’Golo Kanté.
Ég viðurkenni fúslega að fyrr á tímabilinu sá ég ekki hvernig hægt væri að koma fyrir Enzo Fernandez, Lavia og Caicedo á sama miðsvæðið en það er ein af ástæðunum af hverju ég er ekki stjóri Chelsea. Fjölbreytileikinn á Caicedo, að geta leyst þessa hægri bakvarðar stöðu og invertað úr henni líka gerir hann svo gífurlega mikilvægan fyrir okkur. Við sjáum það einnig trekk í trekk að þegar þessir þrír eru á miðsvæðinu þá höfum við betri stjórn á leikjum og sækjum betri niðurstöður.
Djurgården sitja í 11. sæti sænsku deildarinnar. Þeirra skeinuhættasti maður, Tobias Gulliksen er með fjögur mörk og tvær stoðsendingar í 11 leikjum í Sambandsdeildinni og hefur því komið að jafn mörgum mörkum í keppninni og Marc Guiu sem hefur skorað sex mörk en hann situr enn í þriðja sæti yfir markahæstu menn í keppninni, þrátt fyrir að hafa ekki spilað síðan 3. febrúar. Mér er spurn hvort Djurgården menn séu að fara að mæta trítilóðir og bjartsýnir um “remontada” eins og Börsungarnir kalla endurkomu sigur. Eða hvort þeir séu hreinlega að fara að koma og leggja rútunni og forða stærra tapi en úr er. Vona persónulega að það sé það fyrrnefnda og þeir bjóði upp á skemmtilegt áhorft.
Þetta er viðureign sem býður uppá að hvíla lykilmenn en það er þó ekki búinn að vera stíllinn hans Maresca hingað til. Ég spái því að hann stillir upp þokkalega sterku liði og muni svo rótera því í hálfleik en eigi síðar en á 60. mínútu. Jörgensen á milli stanganna, vörnin óbreytt frá fyrri leiknum með Acheampong, Tosin, Badiashile og Cucurella. Reece James og Enzo á miðjunni, Dewsbury-Hall fær að spreyta sig í tíunni með Sancho vinstra megin, Tyrique George hægra megin og Jackson upp á topp.
Ég vil sjá Marc Guiu fá mínútur af bekknum en mér skilst að sé orðinn heill eða mjög nálægt endurkomu. Annars Shim Mheuka og jafnvel Reggie Walsh. Leyfa ungmennunum að spreyta sig aðeins, gætum uppskorið næsta Lamine Yamal.
Ég spái sömu niðurstöðu og í fyrri leiknum, 4-1 með mörkum frá Reece James, Dewsbury-Hall, Enzo og Jackson.
Áfram Chelsea! Sækjum þennan bikar!
Comments