top of page
Search

Chelsea vs Everton - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Mánudagskvöldið 8. mars kl 18:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Sky Sports, Ölver ofl

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Eftir frækinn sigur gegn Liverpool mæta sveinar Thomas Tuchel nú bláa liðinu frá Bítlaborginni. Það er gríðarlega mikilvægt að byggja vel ofan á sigurinn gegn Liverpool, sérstaklega í ljósi þess að bæði Leicester City og Man Utd unnu sína leiki um helgina. Ég ætla ekki að dvelja of mikið við leikinn gegn Liverpool, bendi bara á framúrskarandi skýrslu Stefáns Marteins sem hægt er að finna hér .


Eins og staðan er akkurat núna geta okkar menn hert tökin á þessu fjórða sæti og skotið Everton fjórum stigum á eftir okkur. West Ham eiga leik gegn Leeds sem hefst beint á eftir leiknum okkar gegn Everton, þannig að með hagstæðum úrslitum á morgun, getum við staðið einir og sér í þessu blessaða fjórða sæti, sem gefur sæti í Meistaradeild Evrópu.


Það er spurning hvernig bragðarefurinn Tommi Taktík muni nálgast leikinn gegn Everton. Leikplanið gegn Liverpool gekk frábærlega upp og þar brugðum við hressilega út af vananum og gáfum eftir boltahlutfallið til þess að lokka Liverpool eins framarlega og hugsast gat. Ég er ekki viss um að Everton muni hætta sér í slíka hápressu, svo ég á frekar von á því að þessi leikur muni þróast eins og gegn Atl. Madrid eða Man Utd - við munum vera mikið meira með boltann og Everton munu liggja til baka.


Það er ekkert sem bendir til annars en að Tuchel haldi sig við þriggja miðvarða leikkerfið sitt. Ég trúi ekki öðru en að miðverðirnir þrír haldi sæti sínu frá því í Liverpool leiknum og að Mendy verði á milli stanganna. Ég vænti þess að Hudson-Odoi komi inn í byrjunarliðið fyrir Reece Jame og svo er eitthvað sem segir mér að Marcos Alonso verði kominn í vængbakvörðinn vinstra megin.


Tuchel gaf það sterklega í skyn að N´Golo Kanté yrði hvíldur í þessum leik eftir erfiða leiki gegn Man Utd, Liverpool og Atl Madrid. Ég vænti þess þá að Jorginho og Kovacic verði á miðri miðjunni. Fremstu þrír leikmennirnir eru svo mikið spurningamerki. Mount verður alltaf á sínum stað, enda mikilvægasti leikmaður liðsins að mínu mati. Í hinar tvær stöðurnar ætla ég að veðja á að Tuchel gefi Havertz tækifæri í fremstu víglínu ásamt Timo Werner.


Það sýndi sig í síðasta leik hversu mikilvægt er að spila á styrkleikum Werner, hann þarf stungusendingar og fá að hlaupa á boltann - það hentar honum alls ekki að fá boltann í dauðri stöðu með varnarmann beint fyrir framan sig. Vonandi höldum við áfram að nota Timo rétt.



Everton

Carlo Ancelotti er einn af stjórum ársins í ensku Úrvalsdeildinni. Á rúmu einu tímabili er hann búinn að breyta Everton úr vonbrigðaliði yfir í eitt af hættulegustu liðum deildarinnar. Þeir eru ennþá í hörku baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu og leikmenn eins og Calvert-Lewin, Digne, Tom Davies, Michael Keane og Gylfi Sig hafa byrjað að blómstra. Everton styrktu sig vel í leikmannaglugganum síðasta sumar, bæði Allan og James Rodriguez gera helling fyrir gæðin í liðinu ásamt því að Abdoulaye Doucouré er miðjumaður sem er sniðinn fyrir ensku Úrvalsdeildina.


Everton koma inn í þennan leik á fljúgandi siglingu, hafandi unnið þrjá leiki í röð og hafa ekki fengið á sig mark í þessum þremur leikjum. Þeirra hættulegasti maður er Brassinn Richarlison, en hann hefur skorað sigurmarkið þeirra í síðustu tveimur leikjum sem bæði hafa verið lögð upp af Gylfa Sig. Þeirra síðasta tap var gegn Man City þann 17. febrúar.


Við munum eftir fyrri leik þessara liða, sá leikur var í raun upphafið af endalokum Super Frank, því það tap setti af stað þá slæmu leikjahrynu sem að lokum kostaði Lampard starfið. Mendy fékk þá dæmda á sig vítaspyrnu sem Gylfi skoraði úr. Við eigum því harma að hefna!


Spá

Mér fannst takturinn í liði Chelsea frábær gegn Liverpool og vil sjá sama hungur í liðinu í þessum leik. Þessi leikur er ekki síður mikilvægur en leikurinn gegn Liverpool, því væri ömurlegt að núlla út sigurinn á Anfield með tapi gegn Everton á Stamford Bridge.


Ætla að spá mjög tæpum 2-1 sigri þar sem Mount kemur okkur á bragðið en Calvert-Lewin jafnar. Það verður svo Rudiger sem skorar sigurmark eftir hornspyrnu!


KTBFFH

- Jóhann Már


bottom of page