top of page
Search

Leikskýrsla og einkunnir í frábærum sigri á LiverpoolLiverpool fengu okkar menn í Chelsea í heimsókn á Anfield nú kvöld í sannkölluðum sex stiga leik i baráttunni um sæti í topp 4. Með sigri í þessum leik gátum við komist í tveggja leikja fjarlægð frá Liverpool og tyllt okkur í 4.sæti deildarinnar um stundarsakir.


Leikurinn byrjaði af krafti og Liverpool mögulega ívið ákveðnari fyrstu mínútur leiksins en það snérist fljótt við og Chelsea tók fulla stjórn á leiknum. Timo Werner tókst að koma knettinum í netið þegar um 25 mínútur voru liðnar af leiknum en honum var stungið innfyrir og hafði betur gegn Alisson og varnarmönnum Liverpool. Allt kom fyrir ekki og okkar maður VAR-aður ragstæður sem undirrituðum fannst helvíti hart. En það kom ekki að sök því á 42. mínútu kom N’Golo Kanté boltanum út í svæðið á Mason Mount sem keyrði inn á völl rétt fyrir utan teig og smellti boltanum snyrtilega út við stöng og við fórum með eins marks forskot inn í hálfleikinn. Seinni hálfleikurinn var líkt og sá fyrri mjög líflegur, skot frá Ziyech var bjargað á línu og Chilwell átti fínt skot sem Alisson varði vel. En fleirri urðu mörkin ekki og fyrsti sigur Chelsea á Anfield í deild frá 2014 staðreynd.


Umræðupunktar

● Thomas Tuchel lagði leikinn hárrétt upp - 10/10

● Fleirri færi og skot á ramman en við höfum verið að sjá undir stjórn Tuchel - vonandi er sóknarleikurinn að fara smella saman.

● Liverpool með ömurlegan skalla beint á markið sem sína einu marktilraun á rammann, þannig í raun var þetta rólegur dagur fyrir Mendy - Erum virkilega þéttir fyrir í vörninni.

● Er Thiago Silva að fara komast aftur beint í byrjunarliðið? Danski Prinsinn að spila frábærlega í hans fjarveru.

● Mason Mount - Enn og aftur stígur hann upp þegar mest á reynir

● Timo Werner - Erum við loksins að læra inn á hann og hans leikstíl?


xG bardaginn


Einkunnir leikmanna

Edouard Mendy - 8 Greip vel inní þegar á reyndi og var virkilega traustur. Var vel á verði og kom út á hárréttum augnarblikum. Var einnig frábær á boltanum og hélt spilinu gangandi eins og dagsskipun Tuchel gerði ráð fyrir.


Cesár Azpilicueta © - 9 Var virkilega góður í dag eins og varnarlínan í heild sinni í kvöld. Kæfði sóknaraðgerðir Liverpool og stýrði liðinu eins og alvöru hershöfðingi.


Andreas Christensen - 9 Danski Prinsinn er að upplifa endurnýjun lífdaga þarna í öftustu línu Chelsea og steig ekki feilspor í leiknum. Þvílík upprisa hjá Dananum.


Antonio Rudiger - 9

Stórkostlegur leikur frá Rudiger. Pakkaði Saido Mané saman og líklega einhver albesti leikur sem ég hef séð frá Toni Rudiger.


Reece James - 7 Fínn leikur hjá James, hefði mátt taka virkari þátt sóknarlega en vann það vel upp varnarlega.


Ben Chilwell - 7 Skilaði sínu vel í dag. Fór illa með nokkrar stöður framarlega á vellinum en skilaði heilt yfri góðu dagsverki.


Jorginho - 8 Einn besti leikur sem ég hef séð frá Jorginho í treyju Chelsea. Frábært framlag í frá okkar manni í dag.


Ngolo Kanté - 8,5 Litla grjótmulningsvélin okkar. Var heppin að fá ekki dæmt á sig víti en það hefði líka verið harður dómur. Var virkilega öflugur í dag og átti stoðsendinguna á Mason Mount.


Hakim Ziyech - 7 Óheppin að skora ekki í dag þegar Robertson bjargar á línu. Var allt í lagi en á klárlega meira inni.


Mason Mount - 9 (Maður leiksins) Hvernig er bara til fólk sem þolir ekki Mount? Geggjaður leikmaður og frábær leikur frá Mount, bæði sóknar og varnarlega. Er að verða einn af leiðtogum þessa liðs.


Timo Werner - 8 Hefði átt að fá markið sitt dæmt gott og gilt að mínu viti. Með því besta sem við höfum séð frá Timo Werner lengi. Vonandi heldur hann áfram að vera svona ógnandi, því þá munu mörkin skila sér.


Varamenn

Christian Pulisic - 6 Bætti engu við sóknarleikinn, því miður. Óska eftir gamla góða Pulisic sem leyfði okkur að dreyma í sumar.


Matteo Kovacic - 6 Átti satt að segja ekkert frábæra innkomu, en það er að vísu erfitt að koma inn í svona leik þar pressan var mikil á okkar mönnum.


Kai Havertz - N/A


KTBFFH

- Stefán Marteinn

Kommentare


bottom of page