Keppni: FA Bikarinn
Dag- og tímasetning: Laugadagur 8. janúar. Kl. 17:30
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport
Upphitn eftir Jóhann M. Helgason
Eftir frábæran leik gegn Spurs í miðri viku fáum við núna E-deildarlið Chesterfield í heimsókn í þriðju umferð FA Bikarkeppninnar ( Úrvalsdeildarliðin koma inn í þriðju umferð).
Chelsea er mikið bikarlið og höfum við unnið FA bikarinn átta sinnum og komist 15 sinnum í úrslitaleikinn. Það er reyndar grautfúl staðreynd að okkar menn hafa farið alla leið í úrslitaleikinn undafarin tvö ár en tapað í bæði skiptin.
Það kom eflaust mörgum í opna skjöldu að gegn Tottenham spilaði Chelsea ekki sitt hefðbundna 3-4-2-1 leikkerfi. Liðið spilaði skemmtilega samblöndu af 4-2-2-2 eða 4-3-3 þegar liðið var í sókn en vörðumst í einhverskonar útgáfu af 3-5-2 þar sem engin annar en Hakim Ziyech datt stundum niður í vængbakvörð (alls ekki alltaf samt). Heimasíðan whoscored.com birtir alltaf skemmtilegt kort af meðalstöðum leikmanna í leikjum og það kort er býsna áhugavert eftir Spurs leikinn.
Þessa mynd um meðalstöðurnar má t.d. túlka sem 4-3-3 þar sem Sarr og Rudiger voru í miðverði, með Azpi og Alonso í bakvörðum. Saul, Jorginho og Mount á miðjunni og Havertz og Lukaku frammi. Það er einnig hægt að sjá 4-2-2-2 þar sem Saul og Jorgi eru fyrir aftan Mount og Ziyech og fremstu menn eru svo Lukaku og Havertz (Havertz er engu að síður töluvert vinstra megin og Lukaku mjög "central").
Ég fagna því a.m.k. að Tuchel sé að prufa sig meira áfram, það sakar aldrei að vera með 2-3 mismunandi útfærslur af taktísku uppleggi og er þetta því bara hið jákvæðasta mál.
Á blaðamannafundi fyrir leik staðfesti Tuchel að Christensen væri líklega leikfær en að Thiago Silva og Kante væru í einangrun og að Chalobah, Chilwell og Reece James séu meiddir. Edouard Mendy er svo á Afríkumótinu.
Það hefur verið hávær umræða um að Bettinelli gæti verið í markinu í þessum leik, persónulega skil ég það ekki, því Kepa á bara að fá þá leiki sem hann getur.
Ég held að Saul verði í vinstri bakverði, einfaldlega bara vegna þess að Alonso þarf frí. Saul var flottur á miðjunni gegn Spurs og gaman að sjá það er fótboltamaður ennþá þarna inni í honum.Hægri bakvörður verður mögulega hinn ungi Xavier Simons sem er að upplagi miðjumaður en getur leyst stöðu bakvarðar. Það er nauðsynlegt að hvíla Azpi þar sem Reece James er meiddur. Miðverðir verða svo þeir Malang Sarr og Christsensen, sem vonandi verður klár í að byrja leikinn eftir meiðsli.
Ég ætla henda Kovacic og Loftus-Cheek á miðjuna með hinum gleymda Ross Barkley þar fyrir framan. Hudson-Odoi verður svo vinstra megin og Hakim Ziyech hægra megin. Fremstur verður svo Timo Werner. Það er alveg spurning um að Harvey Vale verði hægra megin og þá Ziyech eða CHO á bekknum en við sjáum hvað setur.
Þetta er auðvitað bara ágiskun, en ég tel þó mikilvægt að hvíla leikmenn eins og Rudi, Azpi, Jorgi, Mount og jafnvel Lukaku, því það er nóg af fótbolta framundan.
Chesterfield
Andstæðingar okkar að þessu sinni koma úr E-deild eða Conference deildinni í Englandi sem er fimmta sterkasta deild enskrar knattspynur. Chesterfield hafa munað fífil sinn fegurri, frá 1995 -2017 voru þeir oftast í League 1 eða þriðju deildinni en lentu í miklum fjárhagserfiðleikum árið 2017 þegar þeir féllu niður í League 2 og svo aðeins tveimur árum seinna niður í Confrence deildina sem er hálfgerð utandeild.
En Chesterfield eru á blússandi siglingu í Conference deildinni, eru efstir og hafa ekki tapað í 23 leikjum í röð í öllum keppnum - er þetta lengsta hryna án taps í öllum enska boltanum á þessu tímabili. Síðasti leikur sem þeir töpuðu var gegn Woking þann 28. september sl.
Þjálfari Chesterfield er enginn annar en James Rowe, 38 ára gamall Englendingur sem tók við liðinu í nóvember 2020. Hann er með 57% sigurhlutfall sem stjóri Chesterfield sem er virkilega gott!
Þeirra hættulegasti leikmaður er engin annar en Kabongo Tshimanga sem hefur skorað 18 mörk í 18 leikjum - geri aðrir betur!
Spá
Thomas Tuchel stöðvar sigurgöngu James Rowe og félaga í Chesterfield. 3-0 sigur þar sem Hudson-Odoi, Loftus-Cheek og Timo Werner skora allir eitt mark.
KTBFFH
- Jóhann Már
Comments