Keppni: Enska Úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 29. Desember 2019 kl. 14:30
Leikvangur Emirates Stadium
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn SPORT, BT Sport 3, BeIN Sports HD
Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason
Chelsea
Í seinasta leik mættum við Southampton og endaði leikurinn 0-2 fyrir gestunum. Ég sjálfur sá ekki leikinn í beinni en horfði á klippur úr leiknum og síðan nokkra búta úr endursýningu, og ég get sagt með fullri hreinskilni að liðið heillaði ekki mikið. Við virðumst eiga í miklum erfiðleikum á heimavelli og er það eitthvað sem Frankie þarf að taka alvarlega til sín. Að sjálfsögðu er þetta ungt og reynslulaust lið, en það er eitthvað sem hlýtur að lagast með tímanum og því fleiri leiki sem þessir strákar spila, því meira læra þeir að ábyrgðin er miklu meiri í sterkustu deild heims. Skiljanlega eru aðdáendur verulega vonsviknir eftir þessi úrslit en nú er ekkert annað í stöðunni en að leyfa sér væl í 15 mínútur, og síðan að klára erkifjendur okkar í alvöru leik núna á sunnudaginn!
Það styttist í að Ruben Loftus-Cheek komi tilbaka úr meiðslum en annars eru Chelsea með tilturlega heilan hóp. Eina vandamál okkar er óstöðuleiki einstaklinga í liðinu og við þurfum alla á 100% tempói og að sýna sínar bestu hliðar í næsta leik. Mikilvægt er fyrir Lampard að nota mennina rétt í þessum leik og að ef menn taka við meiðslum, sama hversu lítil þau eru, að ekki vera hræddur við að skipta þeim útaf því við erum með virkilega sterka leikmenn á bekknum, sama hvernig uppstillingin verður.
Lampard hefur stillt upp í 3-4-2-1 í seinustu 2 leikjum, sem hefur reynst okkur bæði vel og illa. Við hljótum að hrista eitthvað upp í þessu, þó ég búist við því að leikkerfið verði það sama. Kepa í markinu, Rudiger, Zouma og Tomori í vörninni, Azpi í vinstri bakverði, Reece í hægri, Kante og Kovacic á miðjunni og Pulisic og Mount síðan fyrir aftan Tammy er það sem ég tel líklegt fyrir þennan stórleik. Stórt skref fyrir suma að spila eftir svona erfitt tap, strax á móti toppliði.
Arsenal
Arsenal Football Club eru okkar erkifjendur og nágrannar úr London. Leikir Chelsea og Arsenal hafa ávallt verið mikil skemmtun og stundum mikill skandall. Arsenal hafa verið í miklu basli á þessu tímabili og nú komnir með nýjan þjálfara, Mikel Arteta. Talið er að sumir leikmenn þeirra muni fara í janúarglugganum og mórallinn í liðinu vægast sagt slæmur. Uppstilling þeirra hlýtur að vera svipuð og í seinustu leikjum þar sem fyrsti leikur Arteta hafa var töluvert jákvæðari en seinustu leikir Emery og Ljungberg. Þeirra heitasti maður, Aubameyang, ætti að vera á sínum stað í framlínunni og þurfum við sérstaklega að passa okkur á honum þar sem það getur verið auðvelt að stinga sér fyrir aftan vörnina með hraða á borð við hann. Til þess að drepa þennan leik þurfum við að vera fyrra liðið til að skora, mórallinn hjá Gunners dettur þá niður og andrúmsloftið á vellinum sömuleiðis. Að sama skapi munu þeir tvíeflast undir nýjum þjálfara ef þeir ná forystu í nágrannaslag í fyrsta heimaleik Arteta.
Spá
Eins og ég sé þetta þurfum við að passa stóru leikmennina þeirra. Aubameyang, Özil (ef hann spilar), Lacazette og hinn efnilegi Gabriel Martinelli. Eins og ég tók fram áðan hafa Arsenal verið í töluverðu basli, en eru samt sem áður með mikil gæði í hópnum. Vörnin þeirra hefur verið í miklu veseni og ég trúi á að Tammy muni eiga auðvelt að eiga við hana, hvað þá Pulisic og Mason Mount. Ég spái því að Mount setji fyrsta mark leiksins, Arsenal jafni rétt eftir hálfleikinn með marki frá Aubameyang. Síðan klárum við þetta með einu frá Tammy og öðru í lokin frá Pulisic. 1-3 lokaniðustöður og við höldum okkar skriði á útivelli með sterkum útisigri á nágrönnum okkar og bætum 3 stigum við okkar. KTBFFH
Comments