top of page
  • Twitter Social Icon
  • Facebook Social Icon
Search

Aftur til hundadaganna

Chelsea - Brentford


Keppni: Premier league

Tími , dagsetning: Miðvikudagur 26. apríl kl: 18.45

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Jæja! Eftir að hafa lokið keppni í Meistaradeildinni gegn Real Madrid og tapað snautlega gegn Brighton, er komið að því að taka á móti býflugunum frá Brentford. Thomas Frank og félagar heimsækja Brúnna á miðvikudagskvöldið. Það gustar sem aldrei fyrr um klúbbinn okkar þessa dagana og fátt sem bendir til að það lægi neitt að ráði á næstunni. Það er reyndar ekki oft sem maður hefur upplifað það að bíða óþreyjufullur eftir því að tímabilinu ljúki, svo hægt verði að byggja eitthvað upp með allan þennan mannskap. Þetta er búið að vera algerlega ömurlegt tímabil og reyndar það versta sem ég hreinlega man eftir. Frammistaða liðsins hefur ekki verið verri allavega síðan hundarnir drápust.



Samkvæmt fréttum er nánast klárt að Argentínumaðurinn Mauricio Pochettino verði ráðinn stjóri og mun hefja störf að loknu tímabili. Óhætt er að segja að hans bíður heilmikið verkefni og leikmenn eru víst nokkuð ánægðir með þessa fyrirhuguðu ráðningu. Pochettino hefur þjálfað Espanyol, Southampton, Tottenham og nú síðast Paris Saint-Germain, en var látinn fara á síðasta ári. Pochettino gerði svosem fína hluti með þessi lið, en ég veit ekki alveg hvað mér finnst um að fá hann til Chelsea. Það er eitthvað við þennan stjóra sem ég fíla bara alls ekki og ég hefði klárlega viljað fá Luis Enrique, en stjórn klúbbsins er mér ósammála. Ég verð að taka þá umræðu við Todd Boehly seinna yfir kaffi og tertu. Hins vegar er ég tilbúinn til að gefa Argentínumanninum séns og sjá hvað hann hyggst fyrir með strategíu, og hvort honum takist að koma með sjálfstraust og hungur aftur inn í liðið.


Að mínu mati er þó klárt að það þarf að byggja upp og breyta til. Ég vona sannarlega að stjórnin fari nú aðeins að komast í takt við leikinn og kaupi ekki bara til að kaupa. Ég vil sjá klúbbinn losa sig við 10 leikmenn að lágmarki og minn sölulisti er löngu tilbúinn. Það eru klárlega ekki allir sammála mér. Það er tími til kominn að losa okkur við Mendy, Chalobah, Cucurella, Loftus Cheek, Mount, Zakaria, Pulisic, Sterling, Ziyech og Havertz. Þó allir þessir leikmenn fari þá er nóg um efnivið í liðinu. Við fáum Nkunku, Malo Gusto og Andrey Santos í sumar og Broja verður vonandi tilbúinn fyrir næsta tímabil. Ég veit ekki betur en belgíska buffið komi aftur heim í heiðardalinn, væntanlega með dýrðlegum fögnuði. Ég vil og hef ekki áhuga á að útskýra, hvers vegna ég vil losna við ofantalda menn, þar sem ég held að allir sem fylgst hafa með í vetur, átti sig alveg á því.


Það verður eflaust spennandi að sjá hvað Pochettino gerir í leikmannamálum. Ef við gefum okkur það að hann verði ráðinn, þá er strax farið að ræða um möguleikann á Harry Kane, þar sem þeir náðu afskaplega vel saman hjá Spurs. Fleiri eru í umræðunni, og hefur heyrst að liðið sé í markvarðarleit. Gazzettan segir að Chelsea séu að skoða Andre Onana markvörð Inter, og hafa skipti á honum og Kepa verið í umræðunni. Einnig er Illan Meslier markvörður Leeds kominn á radarinn. Vitað er af áhuga Chelsea á Rafael Leao hjá AC Milan og svo er Neymar kominn aftur inn í umræðuna, en ég veit ekki hvort það yrðu góð kaup. En hvernig sem fer, þá er kannski fullsnemmt að fara að velta sér of mikið upp úr væntanlegum leikmannakaupum. Það væri klárlega ákveðin hagræðing að selja vanhæfa og óþarfa leikmenn, og losa um einhverja aura. Þó ekki væri nema til að standast Financial fair play reglurnar og kaupa þá kannski hreinræktaða níu, sem kann að skora mörk og þá tvær frekar en eina.


Á blaðamannafundi fyrir leikinn á miðvikudag, kom fram að raunum liðsins er ekki lokið, en Lampard tilkynnti að Reece James og Mason Mount leika ekki meira með liðinu á þessu tímabili. Mount er víst þjáður af beinmari og Reece James fór í aðgerð vegna meiðsla aftan í læri. En kannski sem betur fer, er ekkert annað til að vinna að, en að ljúka þessu með eins mikilli reisn og mögulegt er. Það er klárlega súrt að missa Reece James út tímabilið, en eitthvað er til af mannskap þannig að það ætti að bjargast. Þó er ástæðulaust að leggja árar í bát og aðdáendur gera þær kröfur á leikmenn, að þeir klári þetta almennilega. Taki þetta hörmungartímabil á kassann og noti sumarið til að rífa sig upp á rassgatinu.


Chelsea:


Það gekk ekki sem skyldi hjá okkar mönnum gegn Real Madrid í Meistaradeildinni og töpuðum við fyrri leiknum á Spáni 2-0 og seinni leiknum með sömu markatölu á Brúnni, en sýndum þar mun betri leik, en 4 - 0 tap samanlagt varð þó raunin og er sá draumur úti. Áður vorum við búnir að tapa fyrir Brighton og það var einn af allt of mörgum ömurlegum leikjum, sem við höfum þurft að horfa á í vetur. Þó einn ljós punktur hafi sést, jú! - Þeir skoruðu nefnilega eitt mark og það löglegt! Eins og staðan er núna þá eru Brentford með 44 stig í 10. sæti, en við sæti neðar með 39 stig. Skelfing væri nú gaman að fá eins og þrjú stig út úr þessum leik. Það yrði aðeins plástur á sárin svona inn í vorið. Ég held að leikmenn séu hreinlega að verða bensínlausir eftir glataðan vetur, en gaman væri þó að sjá smá sprengikraft í lok tímabils.


Brentford:


Thomas Frank og flugurnar hafa staðið sig vel í deildinni, - raunar mun betur en menn spáðu og virðast hafa á að skipa fínu liði með prýðilega leikmenn innanborðs. Þar má nefna Ivan Toney sem er búinn að vera sjóðheitur í vetur. Einnig má nefna, að þarna er stór norrænn vinkill hjá Brentford, en Svíinn Pontus Jansson hefur verið að gera fína hluti. Í liðinu eru einir fimm Danir og einn Norðmaður. Albaninn Thomas Strakosha er einnig gríðarsterkur en Ivan nokkur Toney er þeirra hættulegastur, en hefur verið í einhverjum vandræðum með veðmálavesen en það virðist ekki hafa mikil áhrif á spilamennskuna.



Byrjunarlið og spá:


Ég á ekki von á að það verði miklar breytingar eða róteringar á liðinu gegn Brentford og ég er nokkuð viss um að það verði hent í 4-3-3 og þetta líti einhvernveginn svona út: Kepa skoppar á milli stanganna og þeir Azpi, Fofana, Silva og Chilwell verða þar fyrir framan. Kante, Enzo og Kova verða á miðjunni og þrír fremstu verða Havertz, Felix og Mudryk.





Ég er hreint ekkert bjartsýnn - og þegar menn eru komnir á þann stað að hafa ekki að neinu að stefna, þá fari þeir gjarnan að spara sig nema að þeir bresti í gírinn, þegar þeir vita að nýr væntanlegur stjóri er væntanlega að fylgjast með. Ég held að þeir verði varkárir og reyni að fremsta megni að tapa ekki. Líklega ná í eins og eitt stig. Þar af leiðandi spáir leiðinlegu 1-1 jafntefli. Það verður sennilega Kante sem setur markið. En nú er bara að horfa framávið og vonast eftir bjartari tímum með hækkandi sól. Mæli með því að allir sem vettlingi geta valdið mæti á Ölver eða aðra staði, og horfi á leikinn og styðji okkar menn fram í rauðan dauðann.


Áfram Chelsea !!!


  • Grey Google+ Icon
  • Grey Twitter Icon
  • Grey LinkedIn Icon
  • Grey Facebook Icon

© 2023 by Talking Business.  Proudly created with Wix.com

bottom of page