Örlög Chelsea í Meistaradeild Evrópu ráðast í kvöld er seinni leikur Chelsea og Barcelona fer fram á Nývangi. Leikurinn hefst kl 19:45.
Síðasti leikur
Ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í leikinn gegn Crystal Palace heldur einbeita mér meira af fyrri leik Barca gegn Chelsea. Það var þó kærkomið að sjá Chelsea blása vel til sóknar og var fyrri hálfleikurinn gegn Palace einstaklega vel leikinn. Með réttu hefði Chelsea átt að sigra þann leik 5-0 en það er eitthvað harðlífi hjá framherjum okkar og eini maðurinn sem virðist geta komið tuðrunni í netið er Willian.
Leikurinn gegn Palace hefði aldrei átt að enda þannig að Chelsea væru að tefja leikinn með því að halda boltanum við hornfánann í uppbótartíma, en slíkt var að engu að síður raunin. Conte talaði um mikilvægan sigur og er ég honum hjartanlega sammála, þessi blæðing í formi slæmra úrslita var stöðvuð - í bili.
Fyrri leikurinn í einvíginu
Eins og við munum kom Conte okkur öllum á óvart með því að hafa Hazard sem fremsta mann og Willian og Pedro með honum á vængjunum í leiknum á Stamford Bridge. Ástæðan fyrir þessu var einföld, hann vildi setja þrjá fljóta menn í að pressa uppspilið hjá Ter-Stegen, Umtiti, Pique og Busquets. Chelsea setti ekki alltaf í þessa pressu, það var bara þegar boltinn fór alveg til baka á Ter-Stegen að þessir þrír fremstu fóru allir maður á mann og reyndu að þvinga Barcelona í erfiðar sendingar upp völlinn, oftast á Rakitic eða Iniesta, þegar pressan heppnaðist og Chelsea tókst að þvinga Barca í þessar erfiðu sendingar kom maður að nafni N'Golo Kanté askvaðandi og hirti oftar en ekki upp þessa 50/50 bolta og Chelsea átti möguleika á skyndisókn. Þetta var mjög gott plan hjá Conte sem Chelsea útfærði listavel.
Chelsea varðist svo vel í leiknum. Azpilicueta, Rudiger og Christensen voru frábærir að stýra varnarleiknum og Barca virtist ekki finna neinar holur eða glufur til þess að koma sér í einhverjar stöður. En svo gerði Christensen mistökin sín og því fór sem fór. Þetta voru einu mistök Chelsea í leiknum. Það sem verra er þessi mistök virðast hafa haft umtalsverð áhrif á spilamennsku Christensen sem hefur verið gera mistök í leikjunum sem hafa fylgt á eftir.
Staðan 1-1 er mjög erfið. Okkar menn þurfa að skora og helst að skora fyrst.
Andstæðingurinn
Barcelona er búið að ná í mikilvæga sigra frá því að við spiluðum við þá fyrir 3 vikum. Sá mikilvægast var klárlega sigurinn á Atl. Madrid sem fór langleiðina með að tryggja þeim La Liga meistaratitilinn.
Messi fékk frí um helgina þar sem konan hans var að eignast þeirra þriðja barn og verður því ferskur. Iniesta var ekki með um helgina vegna meiðsla en fastlega er búist við því að hann komi inn í liðið í kvöld.
Liðið hjá þeim verður því líklega svona:
Þetta er sama lið og mætti til leiks á Stamford Bridge. Barca mun spila eins og þeir vilja spila, munu halda boltanum vel og reyna þreyta okkar menn niður. Völlurinn á Nou Camp er mjög stór og því meira pláss þar en t.d. á Stamford Bridge. Þetta auka pláss mun nýtast þeim Alba og Sergi Roberto mjög vel. Messi mun detta aðeins niður á völlinn til að koma sér inn í spilið og Paulinho mun reyna að stinga sér í svæðið um leið og færi gefst til. Svo er Luis Suarez líka þarna - einn besti framherji heims.
Niðurstaða; Það verður rosalega erfitt að verjast Barcelona í 90 mín á Nývangi.
Chelsea
Stóra spurningin sem allir eru að spyrja sig að er hvort Conte muni láta Hazard byrja sem fremsta mann eða hvort Morata/Giroud fái sénsinn. Conte er búinn að vera mjög sposkur í aðdraganda leiksins. Talar um að Chelsea þurfi að sækja og valið milli manna sé erfitt. Ég hef það á tilfinningunni að hann muni leggja upp leikinn eins og síðast, þ.e. með Hazard sem fremsta mann en er alls ekki viss um það. Ég persónulega vill sjá Giroud byrja og því set ég liðið upp svona:
Með Giroud uppi á topp hefðu okkar menn leikmann sem gæti barist við Pique og Umtiti í loftinu, þannig gætum við átt auðveldara með að losa okkur undan pressu Barca. Það er spurning hvort við gætum sett upp keimlíka pressu og við gerðum í síðasta leik. Það er auðvitað erfiðara með Giroud í stað Pedro en alls ekki ómögulegt.
Það er mín einlæga ósk að Conte þori að láta Chelsea spila fótbolta. Vissulega verður megináherslan á varnarleik, annað væri galið á þessum velli. En hins vegar verður liðið að þora að sækja þegar þau færi gefast og lykilatriði að leikmenn eins og Hazard, Willian og Fabregas séu ekki geldir í einhverjum varnarhlutverkum.
N'Golo Kanté var frábær í fyrri leiknum, hann þarf að vera ennþá betri í þessum leik. Fyrir mér er eina vitið að spila Fabregas með Kanté en Conte væri mögulega vís til þess að setja annað hvort Drinkwater eða Bakayoko inn á miðjuna til þess að þétta raðirnar.
Chelsea hefur áður tekist að ná ótrúlegum úrslitum á Nou Camp. 2-2 leikurinn árið 2012 var ekkert minna en kraftaverk. Í þeim leik gerði Chelsea lítið annað en að verjast en skoraði samt tvö góð mörk. Ef ég væri Conte þá myndi ég sýna leikmönnum þetta video hér fyrir leikinn í kvöld - það fær mann alltaf til að trúa!
Spá: Hjartað segir dramatískur 1-2 Chelsea sigur eftir framlengingu. Hausinn segir 2-0 tap.
Keep the blue flag flying high!