Jæja, biðin er senn á enda. Stærsti leikur tímabilsins í uppsiglingu hjá okkar mönnum , amk það sem af er vetri. Í kvöld tekur Chelsea á móti Barcelona í 16. liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, leikurinn hefst kl 19:45.
Sagan
Alls hafa Chelsea og Barcelona mæst 15 sinnum, fyrst árið 1966 og síðast árið 2012. Af þessum 15 viðureignum hafa Chelsea unnið 5 leiki, Barcelona unnið 5 leiki og 5 leikir hafa endað með jafntefli, það er nefnilega þannig - jafnt á öllum vígstöðum.
Margir af þessum leikjum eru mínar bestu "Chelsea-minningar" og að sama skapi eru sumar minningarnar þær verstu ( lesist sem: Tom Henning Ovrebo).
Fyrir mér standa þrír leikur upp úr gegn Barca. Sá fyrsti var heimaleikur í Meistaradeildinni árið 2000. Þann leik vann Chelsea 3-1, en þá líkt og nú vorum við miklir "undirhundar" (e.underdogs). Frábærasta minningin úr þeim leik var markið sem Gianfranco Zola skoraði beint úr aukaspyrnu. Síðari leikurinn fór ekki eins vel og við töpuðum 5-1 eftir framlengingu og duttum út.
Næsta minning er eflaust sú besta. Magnaði leikurinn árið 2005 þar sem við unnum Barcelona sannfærandi 4-2 - ég hef alltaf haldið því fram að þessi leikur sé sennilega besti leikur sem Chelsea hefur spilað. Barcelona voru þarna með gríðarlega sterkt lið knúið áfram að Ronaldinho sem þarna var óumdeildur besti knattspyrnumaður heims. Þetta 2004/2005 tímabil var Chelsea með besta lið Evrópu og þessi leikur var einn besti vitnisburðurinn um það.
Síðasta minningin er leikurinn stórfenglegi árið 2012. Allt gekk á afturfótunum framan af leik, lentum undir, Terry fékk rautt en svo skoraði Ramires (af öllum mönnum) eitt smekklegasta mark í sögu Meistaradeildarinnar. Allar lukkudísir veraldar voru þarna með okkur í liði, við vörðumst eins og ljón, Messi klúðraði víti og svo var rúsínan í pylsuendanum markið hans Torres - ég held að röddin hans Gary Neville sé enn þá að jafna sig.
Til að trylla aðeins í nostalgíunni læt ég fylgja hér hlekk á video af youtube sem inniheldur öll mörk milli þessara tveggja liða frá árinu 2000, ef þið horfið á myndbandið munuð þið sjáið ekki eftir þessum 14 mínútum sem fara í það - því lofa ég.
Barcelona
Frá því að deildarkeppnin hófst á Spáni þann 20. ágúst sl. hefur Barcelona spilað 38 leiki í þremur keppnum. Af þessum 38 leikjum hafa þeir unnið 29, gert jafntefli í 8 leikjum og tapað aðeins einum leik. Leikurinn sem tapaðist var grannaslagur gegn Espanyol í spænska Konungsbikarnum, Barcelona vann hins vegar síðari leikinn og komst áfram í þeirri keppni. Liðið hefur því verið óstöðvandi.
Það leit samt ekkert út fyrir að þetta tímabil yrði eitthvað sérstakt fyrir Barca. Luis Enrique ákvað að segja starfi sínu lausu eftir síðasta tímabil og við keflinu tók Ernesto Valvarde, 53 ára gamall Spánverji, sem var frekar lítt þekktur í Evrópu en þó nokkuð virtur á Spáni eftir að hafa náð góðum árangri með bæði Athletic Bilbao og Olympiacos í Grikklandi.
En nánast öll umræðan um Barcelona sl. sumar snérist um Neymar og mjög svo umdeild vistaskipti hans til PSG - sú saga verður ekki rakin hér en þessi sápuópera dróst verulega á langinn og laskaði klárlega allan undirbúning Barcelona, það sást í Supercopa leikjunum gegn Real Madrid í ágúst þar sem Barca tapaði báðum leikjunum nokkuð sannfærandi.
Leikmennirnir sem áttu svo að fylla skarð Neymar þóttu ekki nægilega spenanndi, hinn ungi Dembele kom frá Dortmund og svo voru ein óvæntustu félagaskipti sumarasins kaup Barcelona á Brassanum Paulinho (meira um það síðar). Svo mistókst liðinu að fá Phil Coutinho frá Liverpool en náðu svo að klófesta hann í janúarglugganum.
En, eins og fyrr segir tókst Valvarde að rífa sitt lið upp úr leiðindunum og um leið og mótið hófst hafa þeir ekki litið um öxl og eru núna að eiga stórbrotið tímabil.
Taktík Barcelona undir Valvarde
Valvarde er öðruvísi þjálfari en margir forverar sínir. Alveg frá því að Frank Rijkaard stýrði Barcelona árið 2003 hafði þetta fornfræga lið spilað leikkerfið 4-3-3 eða a.m.k. einhverskonar útfærslu af því kerfi og nánast alltaf notast við 3 sóknarmenn. Rijkaard byggði liðið í kringum Ronaldinho, Guardiola breytti Lionel Messi úr efnilegasta leikmanni heims í þann allra besta og Enrique stillti upp besta sóknarþríeyki heims, MSN (Messi, Suarez & Neymar).
Margir ráku því upp stór augu er Barcelona byrjaði að spila nokkurskonar útfærslu af 4-4-2. Valvarde lætur líka Barcelona spila öðruvísi, þessi mikla hápressa sem Guardiola innleiddi svo eftirminnilega er vissulega enn til staðar en hún er þó ekki allsráðandi í leik liðsins og notuð með öðrum hætti. Valvarde virðir það að stundum þurfa hans menn að falla aftar og jafnvel liggja aftarlega í einhvern tíma. Jafnvægi og agi spila núna mun stærra hlutverk í leik Barcelona og ólíkt t.d. Guardiola að þá nálgast Valvarde ekki alla leiki eins.
Varnarleikur Barcelona hefur einnig tekið miklum stakkaskiptum og sennilega aldrei verið betri en því til sönnunar þarf aðeins að líta stöðuna í spænku La Liga deildinni. Liðið hefur aðeins fengið á sig 11 mörk í þeim 24 leikjum sem búnir eru. Ekki misskilja samt þessa tölfræði, Barcelona er ekki varnarsinnað lið, í þessum 24 leikjum hafa þeir skorað 62 mörk sem er það mesta í deildinni.
Sem fyrr er Barcelona knúið áfram að besta knattspyrnumanni heims (sumir segja allra tíma) Lionel Messi. Hann er að eiga enn eitt stjörnutímabilið. Hann er markahæsti maður liðsins með 27 mörk í 37 leikjum og búinn búinn að leggja upp önnur 13 mörk fyrir liðsfélaga sína. Í 4-4-2 kerfi Valvarde er hann með nokkuð frjálsa rullu í kringum Suarez sem jafnan spilar sem fremsti maður. Hlutverk Messi er að finna þessi litlu svæði fyrir framan vítateiginn þar sem hann getur skaðað öll lið á einu augabragði eða eins og Conte orðaði það, breytt vonlausum aðstæðum í mörk eða stoðsendingar.
Fjölmiðlar eiga von á að Barcelona stilli upp sama byrjunarliði og gegn Eibar um helgina sem er í raun þeirra sterkasta lið, aðeins bakvörðurinn Nelson Semedo sem er í banni. Þegar Barcelona verst er uppstillingin nokkurnveginn svona:
Iniesta, Paulinho og Rakitic mynda nokkuð beina línu á meðan að Busquets gerir það sem hann gerir best, verndar varnarlínuna. Hápressa Barcelona er unnin öðruvísi en áður fyrr, í stað þess að pressa boltann beint er pressunni yfirleitt beint að veikasta manninum á boltann og reynt að "loka þann leikmann inni" í ákveðnu svæði með takmarkaða sendingarmöguleika - Luis Suarez er alger lykilmaður í þessari vinnu og skal ég hundur heita ef hann mun ekki láta Gary Cahill vera þann leikmann sem þeir reyna að beina pressunni sinni að. Ef Cahill spilar ekki verður það væntanlega Rudiger.
Eins og áður segir er þetta Barcelona lið mjög þétt og með mun meiri varnarhugsun en t.d. liðið sem Luis Enrique bjó til.
Þegar Barcelona sækir þá líta þeir nokkurveginn svona út:
Það má eiginlega kalla þetta kerfi 4-4-2 með tígulmiðju eða á ensku "diamond midfield". Barca sækir á mörgum mönnum og uppspilið þeirra fer mikið í gegnum bakverðina sem fara hátt upp á völlinn og þrýsta þannig varnarlínunni niður. Samspil Iniesta og Rakitic við bakverðina er svo alger lykill að spilamennsku Barca, þannig ná þeir að teyga mjög á vörnum andstæðingsins og opna pláss fyrir sína fremstu menn. Einn lykilmaður í þessu kerfi er Brassinn Paulinho en hans hlutverk í sókninni er að spila svipaða rullu og Frank Lampard gerði fyrir Chelsea hér á árum áður. Hann er einstaklega duglegur að koma sér í teyginn og þefa upp marktækifæri og hefur skorað 8 mörk í 23 leikjum í deildinni. Paulinho tekur heilmikið til sín og opnar þannig á mikið svæði fyrir Messi sem þá getur látið til skarar skríða.
Höfum það í huga að þetta lið sem Chelsea mætir í kvöld er líklega það best spilandi í heimi um þessar mundir og með sjálfstraustið í botni. Við gætum spilað okkar allra besta leik á tímabilinu og samt tapað sannfærandi. Það þarf því allt að ganga upp til að stoppa Barcelona.
Chelsea
Talandi um að stoppa Barcelona, Antonio Conte sagði á blaðamannafundi í síðustu viku að hann væri núna búinn að vera vinna að leikplani gegn Barcelona í yfir einn mánuð. Hann fór auðvitað ekki út í nein smáatriði en ef ég þekki Conte rétt er hann búinn að stilla upp öllum mögulegum sviðsmyndum af leik Barcelona og er plan til að bregðast við öllum þeirra helstu vopnum - svo er bara spurningin hvort okkar menn geti hrint plani Conte í framkvæmd.
Það var rosalega gott að sigra Hull örugglega í bikarnum og það án þess að þurfa að nota Hazard, Kanté, Azpilicueta, Moses eða Christensen. Okkar menn eiga því að vera vel hvíldir og tilbúnir í stríð. Hvað byrjunarliðið varðar eru nokkrar getgátur. Mun Conte spila 3-5-2 eða 3-4-3? Mun Morata eða Giroud byrja leikinn? Verður Willian tekinn fram yfir Pedro? Miðað við hvernig Conte breytti liðinu gegn Hull og hvaða skiptingar hann framkvæmdi ætla ég að giska á að þetta verði byrjunarliðið:
Ef ég persónulega fengi að ráða myndi ég klárlega byrja með Willian á kostnað Pedro og Rudiger á kostnað Cahill. Svo er spurning með Giroud eða Morata, ég er mjög 50/50 í því vali. En það er eitthvað sem segir að þessir 11 leikmenn byrji leikinn. Ef Conte ákveður að fara í 3-5-2 er augljóst að Drinkwater komi inn fyrir Pedro. Rökin fyrir því að spila 3-5-2 eru þau að það er næstum því galið að ætla hjóla í Barcelona með tvo miðjumenn og að annar þeirra sé Fabregas sem er ekki þekktur fyrir mikla varnartilburði, Kanté þarf því að eiga risaleik í kvöld.
En geymum ekki að Chelsea þarf að ná úrslitum í þessum leik. Við munum aldrei lifa af leikinn á Nou Camp í jafnri stöðu, það er alla vega mitt mat. Þess vegna verður Chelsea að þora að sækja og þora að nota þrjá sóknarmenn gegn vörn sem vanalega fer með bakverðina sína mjög hátt upp völlinn.
Hvað þarf Chelsea að gera til að vinna leikinn?
Chelsea þarf að eiga hinn fullkomna leik bæði í vörn og sókn. Við þurfum að treysta uppspilinu okkar og ég vona að Conte þori að láta liðið spila stutt frá aftasta manni. Ef það gerist og Chelsea nær að brjóta fyrstu pressuna hjá Barcelona eigum við að vera með nægilegt sóknarafl til þess að geta skaðað spænsku risana.
Eden Hazard er okkar lykilmaður og núna er sviðsljósið hans. Hann þarf að vera algerlega á sínum besta leik og þora að hlaupa á vörn Barcelona. Það mun einnig mikið mæða á Fabregas, hann er lykilleikmaður í því að halda í boltann þegar þau færi gefast og þannig ná að ýta Barcelona liðinu niður á sinn vallarhelming.
Christensen þarf svo að stýra varnarleiknum okkar og helst ná að halda Messi niðri, það er þekkt staðreynd að Messi hefur aldrei skorað gegn Chelsea og það í 8 tilraunum, það er versta tölfræði Messi gegn nokkru liði. Vonandi heldur hún áfram :)
N'Golo Kanté má svo vera í tvöföldum Superman galla innan undir treyjunni í kvöld því hann mun vera í miklum eltingaleik við Iniesta og Rakitic.
Þessi leikur verður vonandi alger veisla, ég get alla vega ekki beðið. Ef Chelsea nær úrslitum í kvöld og fer á Nou Camp í 50/50 leik er aldei að vita nema að annað Evrópuævintýri sé í uppsiglingu hjá okkar mönnum.
Vonum það besta.
KTBFFH