top of page
Search

DIEGO COSTA – EL CHOLOEinhver besta frammistaða sem ég hef séð Chelsea leikmann eiga var þegar Chelsea spilaði gegn Man City í fyrra, nánar tiltekið á Etihad vellinum þann 3. desember. Chelsea var búið að sigra 7 leiki í röð í deildinni og ef við myndum vinna „Shitty“ þá yrði toppsætið okkar. Diego Costa átti hreint magnaðan leik þennan dag. Chelsea lenti undir með sjálfsmarki Gary Cahill og okkar menn áttu í vök að verjast í fyrri hálfleik. En Diego var ekki á sama máli. Hann lét finna rosalega fyrir sér í leiknum (eins og reyndar alltaf), hélt boltanum gríðarlega vel á toppnum og bjó til pláss og andrými fyrir Chelsea í leiknum. Eftir klukkutíma leik fékk hann háan bolta inn fyrir vörn City frá Fabregas. Þessi sending var ekkert frábær, Diego var í erfiðri stöðu með Otamendi alveg í sér og á fleygiferð í þokkabót. Honum tókst engu að síður að snúa Otamendi af sér í tveimur snertingum og leggja boltann framhjá Bravo í þeirri þriðju. Magnað mark. Týpískt mark fyrir Diego Costa. Chelsea hefði ekki unnið þennan leik gegn Man City nema vegna Costa og þessi sigur gaf okkur virkilega trú á að liðið gæti farið alla leið þetta tímabilið.

Eins og flestir muna gekk Diego Costa til liðs við Chelsea í júlí 2014. Chelsea sárvantaði framherja eftir að bæði Torres og Demba Ba höfðu hvorki sýnt stöðuleika né nægilega getu til þess leiða framlínu Chelsea. Það er óhætt að segja að Diego hafi byrjað með látum hjá Chelsea. Hann skoraði í hverjum æfingaleiknum á fætur öðrum á undirbúningstímabilinu og byrjaði svo deildarkeppnina á að skora 7 mörk í fyrstu 4 leikjum tímabilsins – meira en nokkur annar framherji hefur gert í sögu Ensku Úrvalsdeildarinnar. Costa var samt að glíma við sífelld meiðsli á þessu fyrsta tímabili, hann var mjög oft tæpur vegna meiðla aftan í læri og æfði á tímabili mun minna en aðrir leikmenn liðsins. Chelsea var samt besta lið Englands þetta tímabilið og endaði Costa með að skora 20 mörk í 26 deildarleikjum – frábær tölfræði. Diego var hins vegar ekki mikið að skora í Evrópukeppnunum og skoraði ekkert mark í 7 leikjum.

Tímabilið á eftir var alger hörmung. Við skulum ekki eyða of mörgum orðum í það. Diego var mjög slakur, sérstaklega framan af. Hann snéri til baka eftir sumarfrí alltof þungur og greinilegt að hann og aðrir leikmenn ofmátu eigin getu, menn verða að vera með kollinn í lagi. Diego endaði þrátt fyrir allt sem markahæsti maður liðsins tímabilið 2015/16, skoraði 16 mörk í 41 leik.

Síðasta tímabil er okkur öllum í fersku minni. Diego var alger lykilmaður, sérstaklega fyrir áramót. Hann skoraði hvert sigurmarkið á fætur öðru í leikjum gegn West Ham, WBA, Crystal Palace og Middlesbrough. 3-4-3 kerfi Antonio Conte gerði það að verkum að hann var ekki eins einangraður frammi og naut þess í botn að hafa Hazard og Pedro nærri sér en vanalega. Hann var alger lykilmaður í liðinu og átti stóran hlut í titlinum sl. vor.

Það verður hins vegar ekki hjá því komist að segja að Diego Costa var mjög krefjandi fyrir okkur stuðningsmennina. Hversu oft var maður pirraður yfir því að hann virtist hafa meiri áhuga á að tuða í dómaranum og spila „dirty“ heldur en að reyna raunverulega að vinna leikinn? Oft á tíðum gekk hann of langt og fékk tvisvar sinnum leikbönn byggða á myndavéladómum hjá aganefnd Enska Knattspyrnusambandsins. Hann var samt alltaf að bæta sig og maður fann virkilega á síðasta tímabili að hann lagði sig fram við að fækka gulu spjöldunum. Hann fékk td 4 gul í fyrstu 5 leikjunum, þá tók Conte hann í gegn, restina af tímabilinu fékk hann „bara“ 6 gul spjöld í næstu 30 leikjum - batnandi mönnum er best að lifa og allt það.


Það var hins vegar alltaf að plaga þennan frábæra leikmann hvernig honum mistókst að aðlagast lífinu á Englandi. Diego bjó í London í einhver þrjú ár, þrátt fyrir þann tíma virðist hann ekki enn kunna stakt orð í ensku og virðist ekki hafa lagt sig mikið fram við að aðlagast enskum lífstíl. Óstaðfestir orðrómar hermdu að hann óskaði eftir sölu frá félaginu eftir hörmungartímabilið 2015/16. Conte og Emenalo sögðu það ekki koma til greina og lögðu áherslu á að halda öllum sínum bestu mönnum það sumarið. Diego Costa virðist ekki hafa verið alltof sáttur við þetta því tvisvar sinnum á tímabilinu ögraði hann stjórnarmönnum Chelsea all svakalega.

Hið fyrra var þegar hann ákvað að fara út að borða með sínum fyrri stjóra, Diego Simone í London. Hann birti mynd af þeim félögum á Instagram og sagan segir að Antonio Conte hafi ekki verið ánægður með það.

Hið síðara var í janúar sl. Þá á Diego Costa að hafa rifist hressilega við hluta af læknateymi Chelsea og sýnt þeim mikla óvirðingu. Forsagan að því er að læknateymið á að hafa sagt Diego að hann hafi verið óleikfær og ætti að hvíla 1-2 æfingar. Inn í þetta blandaðist svo orðrómur um að Kínverkst lið hafi boðið háar fjárhæðir í kappann og verið tilbúið að gera hann að launahæsta leikmanni heims. Upp úr þessu fór af stað einhver rosaleg atburðarás sem er í raun upphafi að endalokum Costa hjá Chelsea. Þetta endaði með því að Conte tók Costa úr liðinu í einn leik og sagði hann óleikfæran. Allir vissu að það var tómt bull og greinilegt að eitthvað mikið hefði gengið á. Orðrómar fóru af stað að Fagregas og John Terry hefðu náð að tala Diego inn á að semja frið og klára tímabilið þar sem Chelsea var í efsta sæti deildarinnar og í bullandi titilbaráttu. Hvernig sem þetta mál „leystist“, þá liggur það fyrir að þetta var tímapunkturinn sem Antonio Conte ákvað að losa sig Diego Costa næsta sumar.

Ég nenni ekki að rekja þessi hádramatísku sögu í sumar. Hana þekkja allir. SMS, lögfræðihótanir, leyfislaust frí í Brasilíu, hlátursköst á blaðamannafundum, sektir fram og til baka og ég veit ekki hvað og hvað. Það eina sem ég tel mikilvægt er að klúbburinn læri af þessu og láti þetta aldrei koma fyrir aftur.

Í mínum huga er Diego Costa goðsögn hjá Chelsea. Þetta er leikmaður sem spilar oft fótbolta eins og hann myndi gera úti á götu í miðju fátækrarhverfi í Brasilíu. Hann skildi alltaf allt eftir á vellinum og fór nokkrum sinnum yfir línuna. Eftir sem áður var hann markahæsti leikmaður liðsins í öll þau þrjú tímabil sem hann var hjá félaginu. Á þessum tíma varð liðið tvisvar sinnum Englandsmeistari og vann einu sinni deildarbikarinn. Hans verður líka sárt saknað úr klefanum því þótt Diego hafi verið harður í horn að taka á vellinum var þetta hinn mesti sprelligosi utan vallar og í raun mjög stór partur af góðum liðsanda hjá Chelsea, þetta sagði sjálfur John Terry í flottri kveðju á Instagram í vikunni. Auðvitað sverta þessi endalok hans arfleið hjá Chelsea en vonandi mun fólk frekar muna eftir góðu stundunum en ein þeim slæmu – ég ætla alla vega að gera það.

Diego Costa var frábær leikmaður fyrir Chelsea, gangi honum sem allra best á Spáni.


bottom of page