top of page
Search

Upphitun: Leicester vs. Chelsea


Snörp upphitun um leikinn mikilvæga gegn Leicester.

Það var virkilega áhugavert að hlusta á Antonio Conte á fyrsta blaðamannafundinum í kjölfar þess að leikmannaglugginn lokaði. Óhjákvæmilega var hann spurður út í Chamberlain, Llorente, Barkley og auðvitað Diego Costa. Conte bar sig vel og sagði að klúbburinn hefði gert allt sem í sínu valdi stóð til þess að styrkja leikmannahópinn, tíminn einn mun leiða það í ljós hvort hópurinn sé nægilega sterkur til að berjast á öllum vígstöðum. Conte harðneitaði svo að tjá sig um einstaka leikmenn að undanskildum Ross Barkley, þar sem hann þvertók fyrir að klúbburinn hefði meinað honum aðgangi að Barkley í aðdraganda þess að Everton samþykkti tilboð félagsins í Barkley, eins og sumir fjölmiðlamenn höfðu greint frá.

Að leiknum, Leicester City eru andstæðingurinn og reikna ég með að þeir muni stilla upp þessu liði:


Craig Shakespeare lætur Leicester ekki spila flóknasta fótboltann í bransanum, þvert á móti. Þeir munu að öllum líkindum spila 4-4-2 þar sem þeir liggja aftarlega í vörninni en eru svo afar beinskeyttir fram á við þar sem boltinn fer hratt upp völlinn og er takmarkið yfirleitt að finna Jamie Vardy í svæðinu fyrir aftan vörnina eða láta Riyad Mahrez fá boltann í lappirnar. Vörnin þeirra er líka alltaf þétt og fengu þeir góða viðbót í Harry Maguire. Að mínu viti felast veikleikar Leicester á miðjunni og í bakvörðunum. Simpson og Fuchs eru „solid“ leikmenn en ekkert meira en það, vængmenn Chelsea eiga að vilja fara í 1 vs. 1 stöðu gegn þeim. Hvað miðjuna varðar þá hafa Leicester ekki jafnað sig á því að missa N‘golo Kante og skildi engan undra. Matty James og Wilfred Ndidi skila varnarhlutverkinu ágætlega en bjóða ekki upp neitt rosalega mikið fram á við, enda dvelur boltinn ekki mikið á miðjumönnum Leicester.

Ég ætla að geta mér til um að Conte stilli upp byrjunarliðinu svona:


Ef ég fengi að ráða myndi ég hafa Fabregas inni á kostnað Bakayoko. Ég held samt að Conte kjósi núna að prófa „Kante – Bakayoko“ teymið sitt í tveggja manna miðju. Mér fannst Conte hljóma eins og að Hazard myndi ekki byrja leikinn, talaði mikið um að flýta mönnum ekki um of eftir erfið meiðsli osfrv. Mögulega er hann bara að villa um fyrir Shakespeare og co, sjáum til. Ef Hazard byrjar leikinn þá myndi ég fórna Willian, einfaldlega vegna þess að Willian var í erfiðu prógrami með Brasilíu og kemur úr löngu ferðalagi sem tekur alltaf á. Pedro spilaði bara annan leikinn fyrir Spán og var í stuttu ferðalagi, mögulega er hann ferskari. Að lokum held ég að Zappacosta muni byrja á bekknum, alla vega fyrst um sinn.

Það er samt afar ánægulegt að sjá að núna er komin alvöru samkeppni um allar stöður og jafnvel hörð samkeppni um að komast á bekkinn!

Leicester gaf Man Utd hörkuleik í síðustu umferð fyrir landsleikjahléið, vörðust mjög vel og voru svo óheppnir að skora ekki mark. Þeir sýndi svo líka í opnunarleik Úrvalsdeildarinnar gegn Arsenal að þeir geta svo sannarlega skapað usla og skorað mörk. Það er mikilvægt að byrja þennan leik að krafti, setja Leicester undir alvöru pressu og reyna ná inn fyrsta markinu. Þá mun leikpan Leicester mögulega fara út um þúfur og allt þeirra „shape“ mögulega laskast.

Mín spá er naumur 1-2 sigur á erfiðum útivelli.

KTBFFH


bottom of page