Keppni: Meistaradeild Evrópu
Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 8. Desember 2021 kl: 17:45
Leikvangur: Gazprom Arena
Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport3
Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason
Eftir afar vont tap í síðasta leik gegn West Ham eru okkar menn núna mættir til Pétursborgar í Rússlandi til að spila við heimamenn í Zenit. Fyrir leikinn eru Chelsea í efsta sæti riðilsins með 12 stig eftir 5 leiki, sama stigafjölda og Juventus. Til að vinna riðilinn verða Chelsea að sigra Zenit, því eitthvað segir mér að Juventus muni leggja Malmö að velli örugglega.
Síðasti leikur, gegn Hömrunum hans David Moyes, var vonbrigði! Það er afskaplega ólíkt okkar mönnum að fá á sig þrjú mörk og það er einnig afskaplega ólíkt Chelsea að komast tvisvar sinnum yfir í leikjum en tapa samt. Núna þarf Tuchel að rífa liðið aftur í gang, og tilvalið að gera það með því að tryggja sigur í H-riðli í Meistaradeild Evrópu.
Zenit St. Petersburg
Eins og eflaust flestir muna var leikurinn á Stamford Bridge gegn Zenit mjög krefjandi leikur þar sem Chelsea kreistu fram sigur með góðu marki frá Romelu Lukaku.
Zenit spila að mínu mati flottan fótbolta og eru með mikla ákefð í leik sínum. Það eru nokkrir þekktir leikmenn hjá þeim, m.a. Dejan Lovren, framherjinn stóri Artem Dzyuba og Brassinn Malcom sem var eitt sinn hjá Barcelona. Raunar er þetta mikil suður-amerísk hersveit því það eru heilir 6 leikmenn frá þeirri heimsálfu á mála hjá Zenit. Þeirra besti leikmaður er hins vegar án vafa Íraninn Sardar Azmoun sem er búinn að skora sjö mörk og leggja upp önnur fimm í 15 leikjum í Rússnesku deildinni, hann er einnig talinn meðal verðmætustu og bestu leikmanna rússnesku deildarinnar - þurfum að hafa góðar gætur á honum og Dzyuba, sem einnig er búinn að skora gimmt í vetur.
Zenit eru á toppnum í heimalandinu og kemur það núll á óvart - þetta er hörkugott lið.
Chelsea
Það er meiðslakrísa í gangi hjá okkar mönnum og þá sérstaklega á miðsvæðinu. Jorginho, Kante og Kovacic eru allir frá vegna meiðsla og veikinda. Kovacic náði að mæta á æfingu í einn dag eftir meiðsli, en tók svo upp á því að greinast með Covid. Til að bæta gráu ofan á svart er Trevoh Chalobah einnig frá vegna meiðsla og hann getur því ekki komið inn á miðjuna líkt og hann gerði í seinni hálfleiknum gegn Watford.
Þetta þýðir að Ruben Loftus-Cheek og Saul Niguez eru þeir einu "hreinræktuðu" miðjumennirnir okkar sem eru heilir. Mér finnst Saul Niguez hafa verið gjörsamlega hroðalegur í öllum þeim leikjum sem hann hefur spilað fyrir Chelsea en Tuchel tók nú aðeins upp hanskann fyrir hann á blaðamannafundi fyrir leik og talaði um að ákefðin í þeim leikjum sem hann hefði spilað hefði verið mjög mikil og að hann þurfi að venjast nýjum aðstæðum. Hann nánast staðfesti að Saul yrði í byrjunarliðinu í þessum leik sem eitt og sér gerir verkefnið meira krefjandi.
Miðað við þessar forsendur þá spái ég því að Mendy verði áfram í markinu, Christsensen, Azpi og Rudiger verði í þriggja manna miðvarðarlínu. Hudson-Odoi verður hægra megin og Alonso vinstra megin. Á miðri miðjunni verða svo félagarnir Saul og Loftus-Cheek, ásamt Mason Mount sem mun koma meira inn á miðjuna í þessum leik. Frammi verða svo Timo Werner og Romelu Lukaku.
Þetta er auvðitað bara hreinræktuð getagáta, mögulega verður Pulisic frammi og Hakim Ziyech á alls ekki skilið að fara á bekkinn m.v. sínar frammistöður. En Tuchel þarf að rótera í hópnum og við megum alls ekki missa leikmenn eins og Reece James og Thiago Silva í meiðsli í þessum leik.
Spá
Við rífum okkur í gang og vinnum þennan leik, spái 2-0 sigri þar sem Mount heldur uppteknum hætti og Lukaku vaknar loksins til lifsins eftir meiðslin.
KTBFFH
- Jóhann Már
Comments