top of page
Search

West Ham - Chelsea

Keppni: Premier League


Tími og dagsetning: Laugardagur 11. febrúar 2023 kl: 12.30


Leikvangur: London Stadium


Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport


Upphitun eftir: Þráinn BrjánssonÞá er seinni hluti tímabilsins hafinn eftir einhvern sturlaðasta félagaskiptaglugga í sögu félagsins þar sem dollararnir voru fluttir í bílförmum frá Toddmaster og félögum frá US of A og eyðslan náði nýjum hæðum. Enzo kominn frá Benfica þar sem lá við handalögmálum fram á síðustu stundu uns samningar náðust og metupphæð greidd fyrir snáðann.

Einhvernveginn hefur gríðarleg eyðsla ekki alltaf reynst lykillinn að árangri en þó verður maður að vera bjartsýnn og vona að seinni hlutinn verði kláraður með reisn og alvöru uppbygging komi svo í kjölfarið.

Nú er búið að ráða mann til að skrúfa hausinn rétt á leikmenn en Gilbert Enoka hefur verið ráðinn sem hugþjálfari og sálfræðingur tímabundið en hann hefur starfað undanfarin misseri hjá landsliði Nýja Sjálands í rugby og hans starf á að vera að koma andlegu hlið leikmanna á rétt ról og vænti ég að hann spjalli eitthvað við Felixinn og reyni kannski að tóna hann niður fyrir næsta leik.


Nú sér væntanlega fyrir endann á dvöl Aubameyang hjá okkar ástsælu en hann ku vera að ganga til liðs við Los Angeles FC eftir heldur dapurlega dvöl þar sem hann sýndi nákvæmlega ekkert og er satt best að segja lítil eftirsjá í honum.


En hvað sáum við í síðasta leik gegn Fulham? Þetta var að mörgu leyti áhugaverður leikur og flestra augu beindust að Enzo Fernandez og Mudryk. Enzo var fínn í leiknum og lofar klárlega góðu en fyrsti leikur er þó vart marktækur en Mudryk var með einhverja flumbru og sást lítið en er vonandi að hressast og kemur tvíefldur og með trúna að vopni í næsta leik. Felix var í skammarkróknum og tók því rólega og aðrir sem voru að koma úr meiðslum voru all ryðgaðir en gerðu þó sitt en árangurinn varð þó ekki nema eitt stig gegn erfiðu liði Fulham.


Nýliðarnir Madueke og David Fofana fengu sínar mínútur og gerðu vel og verður gaman að fylgjast með þeim. En stöldrum ekki lengur við liðna leiki og vindum okkur í næsta leik en förum ekki langt þar sem London Stadium er næsti viðkomustaður og mætum við David Moyes og félögum í West Ham í hádegisleik laugardagsins.


Nú finnst mér einfaldlega vera kominn tími til að fá sannfærandi úrslit þó oft hafi Hamrarnir reynst okkur erfiðir. West Ham hafa undir stjórn Moyes verið afskaplega brokkgengir í vetur og mér þykir vera kominn tími til að við látum vita með sannfærandi hætti að lundúnir eru og verða bláir. West Ham situr nú í 16 sæti með 19 stig og hafa ekki verið sérstaklega sannfærandi undanfarið þó þeir hafi náð í stig gegn Newcastle á dögunum og sigrað lánlaust lið Everton þar á undan.


West Ham


Þrátt fyrir allgóðan mannskap á blaði hefur gengið upp og niður hjá Hömrunum þetta tímabilið en David Moyes virðist ekki vera að finna taktinn en aldrei skyldi vanmeta þá. Þeir hafa jú Declan Rice sem hefur verið á leiðinni til Chelsea af og til síðustu ár en aldrei orðið. Emerson sem heiðraði Chelsea með nærveru sinni er einnig á blaði hjá þeim.


Fleiri sterkir leikmenn eru í liði West Ham og má nefna Danny Ings, ítalska landsliðsmanninn Gianluca Scamacca sem nýkominn er til West Ham og að ógleymdum Michail Antonio sem Heimir okkar er að skóla til hjá landsliði Jamaica. David Moyes stjóri West Ham er í hálfgerðu basli með að finna fjölina fyrir liðið en þar fer maður með talsverða reynslu og stýrði meðal annars Manchester United tímabilið 2013 - 2014.

Moyes er klár þjálfari en hefur einhvernveginn misst tökin á liðum sem hann hefur þjálfað en átt gott mót inn á milli.


Hinn skoski Moyes hefur tengingu við ísland þar sem hann hóf knattspyrnuferil sinn með unglingaliði ÍBV árið 1978 áður en hann fór í atvinnumennsku og lék mest með klúbbum í skoska boltanum.


Chelsea


Ég hef góða tilfinningu fyrir næstu vikum og menn eru óðum að tínast inn úr meiðslum en meiðslalistinn hefur verið í lengra lagi frá því í haust. Chillwell og Rice eru klárir og ekki er langt í að Wesley Fofana komi til baka og krossar maður fingur að hann springi út til vors.

Joao Felix er kominn með grænt ljós og vonandi er Mudryk orðinn sprækur og mæti með jesú sér við hlið í leikinn, ekki veitir okkur af öllum þeim stuðningi sem völ er á. Kova er farinn að æfa eftir meiðsli og Kante er mættur á æfingasvæðið.

Ég er viss um að Madueke og D. Fofana berja á dyrnar með að komast í liðið og verður vafalaust veisla að fylgjast með Mudryk, Enzo og Felix komast á fullt skrið.


Ég hef góða tilfinningu fyrir næstu vikum og held að laugardagurinn verði byrjunin á góðum hlutum. Það er alveg klárt að baráttan um byrjunarliðssæti er orðin hörð og menn þurfa að leggja allt í þetta og sýna metnað og áhuga til að fá sénsinn. Það er erfitt fyrir leikmenn að halda haus þegar illa gengur en ég efast ekki eina mínútu um að Potter vinnur að því hörðum höndum að raða saman liði sem er vænlegt til árangurs en hann hefur verk að vinna þar sem nýir menn bíða á húninum klárir í slaginn og vilja ólmir sanna sig.

Það er þó enn verið að tala um að kornmælirinn sé alveg að fyllast hjá Toddaranum og menn séu farnir að snusa af nýjum mönnum til að taka við keflinu af Potter og hafa heyrst nöfn á borð við Luis Enrique og Hansi Flick. Mér finnst þessi umræða ótímabær, held að enginn þjálfari í enska boltanum hafi þurft að díla við önnur eins meiðsli og vandræði á sínu fyrsta tímabili. Held að það hafi varla verið leikur þar sem allir voru heilir og í lagi.


Nú ríður á að Potterinn verði skynsamur og um leið ákveðinn. Sumarið bíður svo og eru miklar væntingar gerðar til þess að þá mæta til sögunnar þeir Nkunku og Malo Gusto sem þykir gríðarlegt efni. Eitthvað virðist vera eftir í rassvasanum hjá Todd því hann hefur áhuga á að fá Nígerísku markamaskínuna Victor Osimhen frá Napoli og eru víst fleiri um hituna en það er langt í sumarið og allt getur gerst og kannski að æra óstöðugan með að fara að velta fyrir sér næstu skrefum í leikmannakaupum eftir truflaðann janúarmánuð.


Byrjunarlið og spá:


Það hefur verið erfiðara en allt að spá fyrir um úrslit og jafnvel að spá fyrir um byrjunarlið þar sem þetta er búið að vera mikið púsluspil og fáir menn í boði en frá og með síðasta glugga þá er þetta nánast orðið að lúxusvandamáli. Jæja ég er allavega peppaður fyrir leiknum og ætla að leyfa bjartsýninni að ráða sem svo oft áður. Ég ætla skjóta á að Potter tefli fram 4-3-3/4-2-3-1 kerfi í þetta sinn og Kepa verður í markinu. Fyrir framan spánverjan verða þeir Reece James, Thiago Silva, Badiashile og Chilwell. Miðjan verður í orðsins fyllstu merkingu rándýr þar sem Enzo Fernandes ræður ríkjum og einnig verða Gallagher og Chukwuemeka honum til halds og trausts en snáðinn með erfiða nafnið hefur sýnt góða hluti. Fremstu menn

verða þeir Mudryk, Madueke og Felix. Já þetta er kannski ekki alveg eftir bókinni en þetta lið langar mig að sjá. Það er alls ekki ólíklegt að David Fofana fái einhverjar mínútur og Kai efalaust tilbúinn ef þarf. Held að Felix vilji ólmur bæta fyrir óhemjuganginn í fyrsta leiknum og sýna sitt besta en hann hefur sagt í viðtölum að það gæti allt eins verið að hann yrði lengur en til vors þó engin klásula sé í lánssamningi hans um kaup á leikmanninum.


Þetta verður góður laugardagur! Ég er sannfærður um sigur og við skulum bara segja að við tökum þetta 3-0 og Mudryk setur eitt og Felix setur 2. Það þýðir ekkert annað en að vera peppaður og bjartsýnn þar sem þetta er allt á uppleið.

Áfram Chelsea!!!!
댓글


bottom of page