top of page
Search

Uppgjör og hugleiðingar eftir tímabilið 2018/19Ef það ætti að finna eitt orð yfir þetta nýliðna tímabil hjá Chelsea þá væri það líklega orðið; viðburðarríkt. Í þessum pistli ætla ég að reyna gera tilraun þess koma með einhverskonar uppgjör um þetta tímabil sem hafði vissulega sínar lægðir en einnig sína sætu sigra. Ef einhver hefði spurt mig við byrjun síðsta tímabils hvort það yrði ásættanlegur árangur ef Chelsea myndi enda í þriðja sæti deildarinnar, komast í úrslitaleik deildarbikarsins og vinna Evrópudeildina, þá hefði ég hiklaust svarað þeirri spurningu játandi og vel það. Ég hefði meira að segja bætt um betur og sagt að það væri mjög góður árangur. Þrátt fyrir þennan góða árangur hefur maður blendnar tilfinningar. Það var æðisleg tilfinning að sjá Sarri og leikmennina fagna sigrinum gegn Arsenal í Baku, en það var líka einstaklega hvarlarfullt að horfa upp á Azpilicueta ganga til stuðningsmanna Chelsea eftir útreiðina á Ethihad og biðjast vægðar eftir að hafa tapað þar 6-0. Eins og fyrr segir, blendnar tilfinningar.


Það er líka furðuleg staðreynd að eftir að hafa náð þetta góðum árangi en vera samt að horfa upp á félagið í enn einu endurræsingarferlinu. Sarri er farinn, hann vildi ekki vera áfram eftir að Juventus sýndu honum áhuga og ég skil hann fullkomlega. Eden Hazard er líka farinn, hann fékk draum sinn uppfylltan um að spila með Real Madrid. Félagið er í félagaskiptabanni og virðist tilfinnanlega skorta alla langtíma "strategíu". Það er aldrei dauð stund á Stamford Bridge...


Maurizio Sarri

Þessi pistill átti að verða nokkurs konar "yfirferð" yfir til tímabilið en endar sem yfirferð yfir tíma Sarri hjá Chelsea. Það er alveg ótrúlega krefjandi að gera þetta tímabil upp og er Sarri fyrst og síðast ástæðan fyrir því. Ég er sá fyrsti til að viðurkenna að ég var með gríðarlegar væntingar til Sarri. Ég elskaði þennan Napoli fótbolta sem fékk nafnið Sarri-Ball, mér fannst baksaga Sarri algerlega frábær - að hann væri tæplega sextugur fyrrum bankastarfsmaður sem væri allt í einu orðinn þjálfari eins stærsta liðs í heimi. Mér þótti líka spennandi að Chelsea væri að ráða stjóra sem ætlaði sér að sækja, halda boltanum og spila fótbolta sem sjálfur Pep Guardiola kallaði þann besta sem hann hafði nokkurtíma séð.


Ég var spenntur.


Sarri byrjaði vel. Maður sá strax fingraförin á liðinu, þetta "possession-play" eins og það kallast. Jorginho mætti á svæðið og stýrði liðinu eins og hershöfðingi og liðinu tókst að halda Eden Hazard. Allt virtist vera að ganga vel. Chelsea tókst að hanga í bæði Liverpool og Man City, eftir 10 umferðir var liðið aðeins tveimur stigum á eftir báðum þessum liðum.


Svo fór að halla undan fæti.


Liðið fór að gera jafntefli og svo í kjölfarið komu nokkrir tapleikir. Það var svo í janúar og febrúar sem liðið fékk harkalega brotlendingu. Þetta byrjaði allt saman 19. janúar þegar okkar menn léku gegn Arsenal á útivelli. Sá leikur tapaðist sannfærandi 2-0. Í kjölfarið ákvað Sarri, í fyrsta skipti í langan tíma, að tala ítölsku á blaðamannafundinum og notast við túlk. Ástæðan var sú að hann var svo reiður og vildi að skilaboðin hans kæmust skýrt og greinlega til skila. Sarri gagrýndi liðið harkalega, talaði um vandræði til þess að mótívera leikmennina, sagði þá ekki ná að spila "sinn" fótbolta og að þeir væru ekki tilbúnir að berjast sem lið. Hann talaði einnig um skort á leiðtogum. Ellefu dögum síðar tapaði Chelsea svo 4-0 gegn Bournemouth (!). Sá leikur var reyndar stórfurðulegur þar sem okkar menn fengu fullt af færum til að byrja með, klúðruðu þeim, og létu svo Bournemouth einhvernveginn skora fjögur mörk. Chelsea vann svo Huddersfield 5-0 og létu svo Man City rúlla sér upp 6-0, í leik sem enginn stuðningsmaður Chelsea mun nokkurtíma gleyma. Vitleysan var fullkomnuð, maður fann það á sér að Sarri var að missa tökin á öllu saman. Eins furðulega og það kann að hljóma að þá var það úrslitaleikurinn sem tapaðist gegn Man City í deildarbikarnum sem barði liðið saman aftur. Þar gerði Kepa reyndar heiðarlega tilraun til þess að láta reka sig úr félaginu en fyrir utan það leiðindaatvik að þá lék Chelsea gríðarlega vel. Að mínu viti var Chelsea betra liðið á þeim degi og voru bara óheppnir að vinna ekki leikinn. Leikurinn tapaðist svo í vító sem er bara 50/50 dæmi. Eftir þennan leik batnaði leikur liðsins til mikilla muna og lagði grunn að því að liðið landaði þriðja sætinu og sigri í Evrópudeildinni. Fyrir mér eru fjórar ástæður fyrir því að Sarri tókst ekki að verða elskaður á Stamford Bridge: 1. Sarri lofaði svakalegum sóknarbolta en tókst ekki að standa við stóru orðin. Chelsea lenti í vandræðum með að brjóta niður þéttar varnir og miðlungs lið voru að líta alltof vel út á móti okkur, sbr. leikirnir gegn Burnley, Everton, Southampton og Leicester. Fólk fílaði alls ekki þennan hæga "possession" fótbolta sem aldrei virtist ná neinu flugi. 2. Sarri klikkaði illilega á því gefa Ruben Loftus-Cheek og Callum Hudson-Odoi stærra hlutverk á liðinu. Allir sáu að Loftus var mun sterkari leikmaður en bæði Barkley og Kovacic. Hudson-Odoi átti svo að fá miklu stærra hlutverk fyrr því bæði Willian og Pedro gengu í gegnum djúpar lægðir á þessu tímabili. Þetta fór verulega í taugarnar á öllum. 3. Sarri náði ekki að heilla stuðningsmennina í gegnum fjölmiðla. Ummæli eins og að Hazard sé ekki leiðtogi og að erfitt sé að mótívera liðið (sem er hlutverk þjálfarans) eru bara ekki nægilega klók "PR-lega" séð. Sarri klikkaði á þessu. Hann hefði þurft að gæta sín betur og reyna að vera jákvæðari.

4. Vondu úrslitin. Það er alveg glatað að tapa 4-0 fyrir miðlungs Bournemouth liði og svo skelfilegt að tapa 6-0 fyrir liði sem þú vilt vera bera þig saman við. Sarri var einfaldlega of þrjóskur til þess að breyta liðinu meira og þora að verjast aftar gegn liðum sem sannarlega voru betri en við. Þessi fjögur atriði eru lykillinn að því að Sarri fékk mjög vonda meðferð frá mörgum stuðningsmönnum Chelsea. En að mínu viti fékk Sarri líka ósanngjarna meðferð, hann er nánast búinn að vera framherjalaus á þessu tímabili og leikmenn eins og Willian, Barkley og Kovacic hafa engan veginn gert nægilega mikið sóknarlega. Ef ég hefði fengið að ráða þá hefði ég vilja halda Sarri. Hann var að breyta liðinu okkar, breyta leikstílnum, fótboltalegu gildunum og kúltúrnum hjá liðinu. Slíkt tekur tíma og hann náði fínum árangri. Gleymum ekki að Pep Guardiola strögglaði verulega á sínu fyrsta ári með Man City, hann lenti líka í þriðja sæti. En eins og ég sagði hér að ofan að þá skil ég vel að Sarri hafi ákveðið að fara aftur til Ítalíu til að taka við Juventus, sá klúbbur er að mínu viti á mun betri stað en Chelsea núna. Ég mun hugsa hlýtt til Sarri. Hann bjó til frábærar minningar í Baku og svo áttum við frábæra leiki undir hans stjórn eins og heimaleikirnir gegn Man City, Spurs og Arsenal. Hann er núna minn maður í ítalska boltanum ásamt Ancelotti og Conte. Ég vona að honum gangi vel. #graztisarri

Hvaða leikmenn sköruðu fram úr?

Líklega hefur sjaldan verið jafn lítil samkeppni um titilinn leikmann ársins. Eden Hazard átti sitt besta ár í treyju Chelsea hvað varðar markaskorun og stoðsendingar. Þessi belgíski snillingur lék 52 leiki á þessari leiktíð og skoraði 22 mörk og gaf 17 stoðsendingar, í ensku Úrvalsdeildinni skoraði hann 16 mörk og gaf 15 stoðsendingar. Hafa ber í huga að Chelsea skoraði 63 mörk á öllu tímabilinu í og kom því Hazard að 49,2% marka liðsins í ensku Úrvalsdeildinni.


Hazard er núna farinn til Real Madrid og myndast þannig hálfgert tómarúm í hópnum um það hver sé okkar hæfileikaríkasti leikmaður. Ég er alls ekki fúll út í Hazard, hann sýndi Chelsea alltaf virðingu og var eiginglega orðinn of stór fyrir klúbbinn (eins sorglega og það hljómar). Leikmaður með hans hæfileika á að vera berjast um alla stærstu titlana á hverju einasta tímabili. Chelsea er ekki að gera það um þessar mundir.

Annar leikmaður sem mér fannst virkilega skara fram úr á þessu tímabili var svo Ruben Loftus-Cheek, segja má að hann hafi endanlega sprungið út og farið úr því að vera efnilegur yfir í að vera góður. Það eina sem virðist geta aftrað för hans hans að titlinum heimsklassa miðjumaður eru hin sífelldu meiðsli sem hann virðist tína upp alltof oft. Hann mun byrja næsta tímabil meiddur en í þeim leikjum sem hann spilaði fyrir Chelsea á nýliðnu tímabili var hann yfirleitt einn besti leikmaður liðsins. N'Golo Kanté var svo mjög solid allt tímabilið og það þrátt fyrir að spila ekki "sína" hefðbundnu stöðu. Antoni Rudiger fær svo líka lof fyrir sína frammistöðu, hann var okkar traustasti varnarmaður og er að vaxa sem einn af leiðtogum liðsins. Að lokum vil ég líka nefna Kepa, hann er mjög góður markvörður sem á framtíðina fyrir sér.

Hvaða leikmenn voru vonbrigði?

Willian átti klárlega að gera betur, hann skoraði alltof lítið m.v. leikjafjöldann sem hann fékk.


Marcos Alonso byrjaði tímabilið frábærlega en dalaði svo hressilega.

Mateo Kovacic er besti miðjumaður í heimi sem kann ekki að skora mörk eða bara yfir höfuð skjóta á markið - ég vil ekki að við höldum þeim ágæta leikmanni.


Ross Barkley gerði líka of lítið, það eru hæfileikar í Ross, hann þarf bara að vera meira afgerandi. Morata og Higuain. Tek þessa tvo bara saman. Voru báðir vonbrigði. Morata getur ekki spilað á Englandi þar sem dómarar leyfa aðeins meira og miðverðirnir kunna að sparka hressilega í þig. Higuain a.k.a. Big Mac þarf að skafa af sér svona 10 kg og byrja svo að spila fótbolta aftur.


Aðrir leikmenn voru annað hvort ekki nægilega góðir eða ekki nægilega slakir. Áttu bara miðlungstímabil eins og Azpilcueta, David Luiz og Jorginho (sem var afar misjafn).


Næsta tímabil

Skv. öllum miðlum er Frank Lampard að fara taka við Chelsea - það sem mig hlakkar til þess að skrifa aðeins um það! En það er erfitt að gera það akkurat núna því það er ekki staðfest. Það sem er þó vert að taka fram að Lampard hefur nú þegar fengið góða eldskírn með Derby þar sem hann náði mjög miklu úr liði sem var með afar takmarkaðan fjárhag. Hann hefur einnig talað mikið fyrir því að gefa ungum leikmönnum tækifæri og gerði það hjá Derby þar sem leikmenn eins og Tomori, Wilson og Mount sprungu allir út. Hver veit, kannski mun Lampard loksins verða þessi stjóri Chelsea sem mun ná að smíða nýtt lið, byggt upp á uppöldum Chelsea leikmönnum úr hinni feykilega sterku akademíu félagsins - mikið ofboðslega hljómar það spennandi! PS. Ef einhver ætlar að nota það sem rök að Lampard skortir reynslu til að stýra Chelsea þá finnst mér vert að minna viðkomandi á þá staðreynd að bæði Guardiola og Zidane höfðu minni reynslu en Lampard áður en þessir herramenn tóku við Barcelona og Real Madrid. Krossum fingur og vonumst til þess að Lampard verði nýjasti stjóri Chelsea eftir nokkra daga.


Comentários


bottom of page