top of page
Search

Southampton vs Chelsea - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 19. febrúar 2021 kl. 12:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir Jóhann M. Helgason



Chelsea

Þeir Bláu eru á fljúgjandi siglingu þessa dagana, fjórir sigurleikir í röð í ensku Úrvalsdeildinni gera okkur að næst heitasta liði Englands, aðeins meistaraefnin í Manchester City eru að raða inn fleiri stigum þessa dagana.


En núna má segja að mesta prófraun Thomas Tuchel sé framundan því leikjatörnin næstu vikurnar er býsna strembin; Southampton, Atl. Madrid, Man Utd, Liverpool, Everton, Leeds og Atl. Madrid - þetta eru okkar næstu sjö leikir. Tuchel hefur gert vel í að nota dýptina í leikmannahópnum hingað til og geri ég fastlega ráð fyrir því að hann muni áfram halda að rótera vel í hópnum milli leikja.


Að því sögðu tel ég að Tuchel verði með annað augað á leiknum gegn Atletico Madrid sem fer fram aðeins þremur dögum seinna, svona að einhverju leiti a.m.k. Það kom fram á blaðamannafundi í dag að Pulisic og Thiago Silva séu þeir einu sem eru frá vegna meiðsla. Meiðsli Tammy Abraham voru sem betur fer ekki alvarleg.


Tuchel staðfesti að Mendy myndi koma aftur í markið og er það vel. Ég tel að Christensen haldi áfram að vera í hjarta varnarinnar með þá Azpilicueta og Rudiger sitt hvoru megin við sig. Ég spái því sömueliðis að Chilwell og Hudson-Odoi verði í vængbakvörðum (sem eru meira eins og vængmenn í þessu kerfi Tuchel). Það er orðrómur um að Kante byrji sinn fyrsta leik í Úrvalsdeildinni undir stjórn Tuchel og þá reikna ég með að Kovacic verði með honum á miðjunni. Werner og Mason Mount eru svo þar fyrir framan og Olivier Giroud mun svo leiða línuna.


Þetta eru auðvitað bara getgátur, kannski ákveður Tuchel að hrissta meira upp í þessu og leyfir leikmönnum eins Ziyech að fá tækifæri. Einnig er Kai Havertz kominn til baka eftir meiðsli en hann mun líklega ekki byrja leikinn.



Southampton

Dýrlingarnir, eins og þeir eru jafnan kallaðir, eru líklega furðulegasta lið ensku Úrvalsdeildarinnar hingað til. Þeir geta unnið alla og tapað fyrir öllum. Sem sakir standna eru þeir kaldasta liðið í deildinni, hafa tapað sex leikjum í röð og hafa ekki unnið leik síðan í byrjun janúar þegar þeir sigruðu enga aðra en Liverpool. Eftir þann leik var hinn austuríski Hasenhuttl ansi tilfinninganæmur og felldi gleðitár. En hann hefur ekki haft yfir miklu að gleðjast síðan þá, liðið tók upp á því að tapa 9-0 fyrir Man Utd og hafa einnig tapað leikjum gegn liðum eins og Aston Villa, Newcastle og Wolves.


Framan af móti voru Southampton að spila frábæran fótbolta og voru í baráttu um sæti í Evrópudeildinni. En mikil meiðsli hafa hrjáð liðið að undanförnu og sjálfstraustið í liðinu augljóslega í molum. Danny Ings er óðum að finna sitt fyrra form og flestir af varnarmönnunum eru komnir til baka eftir meiðsli.


Southampton spilar alvöru fótbolta. Þeir reyna að pressa andstæðinginn og spila alla jafna sókndjarft 4-4-2 kerfi. Ég hef persónulega heillast mikið af James Ward-Prowse, virkilega öflugur miðjumaður með frábærar spyrnur. Það er alveg á hreinu að þetta verður öðruvísi leikur en t.d. gegn Newcastle þar sem andstæðingurinn lá alveg til baka - Southampton munu reyna!


Spá

Ég er bjartsýnn! Ætla leyfa mér að spá 3-1 sigri þar sem okkar menn komast í 2-0 með mörkum frá Werner og Giroud. Ings klórar í bakkann áður en að Hudson-Odoi klárar dæmið fyrir okkar menn.


KTBFFH

- Jóhann Már

コメント


bottom of page