top of page
Search

Risaslagur á Anfield - Klopp vs Tuchel - Lukaku vs Van Dijk

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagur 28. Ágúst kl 16:30

Leikvangur: Anfield Road

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Hafstein ÁrnasonMinni á nýjan þátt af Blákastinu sem hægt að hlusta á með því að smella hér.


Það er nóg um að vera í vestur Lundúnum þessa dagana. Marina Granovskaia hefur staðið í ströngu við að selja leikmenn í burtu frá félaginu og það er óhætt að segja það sé tombóla við Fulham Broadway. Davide Zappacosta var seldur til Atalanta, Timoyue Bakayoko til AC Milan, Matt Miazga til Alavés og Kenedy var lánaður til Flamengo í Brasilíu bara í þessari viku. Flestar sölurnar hafa verið hálfgert klink, en þetta safnast allt saman fyrir rest. Kurt Zouma, okkar geðþekki varnarmaður, er líklegast á leiðinni út til West Ham fyrir 30 milljónir evra. Með þeirri sölu er heildar söluandvirði 130 milljónir evra. Það þýðir að við séum í 15 milljóna plús, en líklegt er að klúbburinn kaupi Jules Koundé frá Sevilla og fái mögulega Saúl Niguez frá Atletico Madrid að láni. Nettó eyðsla sumarsins verður líkast til innan skynsamlegra marka og töluvert minni en hjá nágrönnum okkar í Arsenal, eins skemmtilegt og það nú er.


Leikurinn gegn Arsenal um liðna helgi sýndi glöggt, hvers vegna klúbburinn fjárfesti í Romelu Lukaku. Þessu mætti líkja við þegar Los Angeles Lakers fengu Shaquille O‘Neal. Fyrirferðin í Belganum í sóknarleiknum var ógnvænleg fyrir andstæðingana. Hann dregur mikið til sín og þetta mun opna tækifæri fyrir aðra leikmenn í framhaldinu. Þetta gefur Thomas Tuchel fleiri möguleika í taktík, enda breytti hann í 3-5-2 kerfið seint í leiknum gegn Arsenal, þegar Timo Werner kom inná. Liðið á örugglega eftir að vinna meira með slíkar hugmyndir og verður fróðlegt að fylgjast með því.


Af öðrum fréttum að segja var dregið í riðla meistaradeildarinnar. Chelsea verður í H riðli ásamt Juventus, Zenit Pétursborg og Malmö. Mjög áhugaverðir áfangastaðir ef fólk hyggur á ferðalög á útileikina. Fólk ætti að skoða verð á flugum til Milanó, Kaupmannahafnar eða Helsinki.


Næstu helgi er mikilvægur leikur við Liverpool á Anfield. Það sem er sérstaklega áhugavert er að sjá baráttu milli Lukaku og Virgil Van Dijk sem er einn besti varnarmaður deildarinnar. Allir leikmenn Chelsea eru klárir í leikinn, að undanskyldum Ruben Loftus-Cheek og Christian Pulisic, þar sem þeir eru að jafna sig eftir covid smit.


Byrjunarliðið

Þrátt fyrir mikla útsölur og fækkun í æfingahópnum sem taldi um 40 leikmenn í sumar, er nánast ómögulegt að geta sér til um rétt byrjunarlið. Ég held það sé óhætt að segja að heimakletturinn Mendy verði í markinu. Marcos Alonso er búinn að vera það frábær að ég held hann haldi sæti sínu í byrjunarliðinu. Ég tel að Thomas Tuchel setji Azpilcueta í hægri væng-bakvörðinn, en færi Reece James niður í hægri miðvörð, svipað í úrslitaleik meistaradeildarinnar. Þýski handrukkarinn okkar, Antonio Rüdiger, verður vinstri miðvörðurinn, og danski prinsinn verður í miðri vörninni. Handhafar UEFA verðlaunanna, Jorghinho og N‘Golo Kante verða á miðjunni. Mason Mount og Timo Werner verða í byrjunarliðinu ásamt Romelu Lukaku. Þar sem Liverpool spila yfirleitt með háa varnarlínu munu gæði Timo Werner nýtast sérstaklega vel eins og sannaðist í leiknum á síðasta tímabili.Liverpool

Liverpool hópurinn virðist alveg heill nema James Milner er tæpur. Það er ekki mikið að frétta af leikmannakaupum í Liverpool, en Andy Robertson gerði nýjan samning sem er mikið gleðiefni fyrir "Samfélagið", þar sem þeir líta á hann sem einkonar skoskan Roberto Carlos. Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það.


Liverpool hafa þó misst Gini Wijnaaldum til Parísar, sem ég tel að liðið eigi eftir að sakna. Naby Keita og Thiago eru ekki að heilla undirritaðan, en við skulum þó ekki vanmeta Jurgen Klopp. Annar veikleiki sem virðist vera myndast, er Mohamed Salah. Það kann að hljóma undarlega, en velgengni hans undanfarin misseri, hefur látið hann ofmetnast örlítið. Salah á það til að reyna klára hálffærin með hetjudáð og sóar oft álitlegum tækifærum. Að senda á samherja er nánast síðasta úrræðið í hans huga að ég tel. Hann er eins og gítarleikarinn sem getur ekki hætt að spila gítarsóló. Á síðasta tímabili var þetta farið að angra Sadio Mane bersýnilega og ég bið lesendur að veita þessu eftirtekt.


Síðasta vetur fullyrti einn aðdáandi Liverpool eftirminnilega, í hlaðvarpsþætti fotbolti.net, að Roberto Firmino væri besti striker í heimi. Haha! Það er að sjálfsögðu algjör vitleysa, en ég myndi þó telja hann vera einn besta samherja heims. Firmino lætur þetta ganga upp með óeigingjörnum vinnubrögðum á vellinum.


Líklegt byrjunarlið hjá Liverpool ætti að vera Allisson, Robertson, Van Dijk, Matip, Alexander-Arnold, Fabinho, Keita, Henderson, Salah, Firmino, Mane.Spá

Þetta verður erfiður leikur, sérstaklega þegar áhorfendurnir eru aftur mættir á Anfield. Liverpool voru með ömurlegan heimavallarárangur án þeirra, en þar sem Chelsea eru með betri miðju – og þá meina ég – mikið betri miðju - og betri striker, þá tel ég líklegt að leikurinn fari 1-2 Chelsea í vil.


Lukaku og Werner með mörkin. Týpískt að Salah skori gegn okkur.


Yorumlar


bottom of page