top of page
Search

Meistaradeildin: Nú er að duga eða drepast gegn Real Madrid

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 12. Apríl kl 19:00

Leikvangur: Santiago Bernabéu

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay, Sky Sports, Ölver ofl

Upphitun eftir: Snorra ClintonChelsea

Jæja þá er komið að því! Önnur lota í viðureign Chelsea á móti Real Madrid og í þetta sinn förum við í ferðalag til Spánar þar sem okkur bíður heldur betur erfitt verkefni. Fyrri leikur liðanna sem fram fór í síðustu viku á Stamford Bridge endaði ekki alveg jafn vel fyrir okkur líkt og fyrir ári síðan. Undirritaður var þessa vafasama heiðurs aðnjótandi að vera gestur á Brúnni í síðustu viku þegar Real leit við í heimsókn. Ég veit ekki hvort það voru allir bjórarnir að tala en í upphafi leiks var að mín upplifun að Chelsea voru með gott grip á leiknum og leikmenn bæði peppaðir og tilbúnir í að taka Los Blancos í nærbuxnaglímu. Þessi þægilega sælutilfinning og kúkurinn fóru hinsvegar beint í viftuna á 21. mín þegar franski fjárkúgarinn hann Karim nokkur Benzema ákvað að bjóða upp á flugeldasýningu með setja tvö mörk í andlitið á okkur með þriggja mín millibili.


Þó svo að Þýska smjörið hann Kai Havertz hafi náð að minnka muninn stuttu fyrir hálfleik, þá sagði Karim einfaldlega „Ekki í dag strákar mínir“ og fullkomnaði þrennuna eftir skelfileg mistök hjá Mendy í upphafi seinni hálfsleiks. Það við endaði sagan og sangríu lepjandi og síestu sjúku kryddpylsurnar frá Spáni í kjörstöðu fyrir seinni viðureign liðana.


Það er eflaust hægt að leikgreina okkar frammistöðu fram og tilbaka í tilraun til að sjá hvað í ósköpunum klikkaði. Ég er einfaldlega ekki nógu gáfaður til að gera það, en mín tilgáta er að Tuchel hafi hugsanlega gleymt að segja við strákana „Hey, sjáið þið fílfið í treyju nr. 9? Passið ykkur á honum, hann er heavy fínn í fótbolta“. Í mínum saklausa og einfalda fótbolta heila voru þetta þrenn mistök / kæruleysi sem urðu til þess að Real refsaði í öll skiptin. Benzema fékk allt of mikið pláss óáreitt til að hreyfa sig og hlaupa í opin svæði í teygnum okkar, tala nú ekki um heilaprumpið í honum Mendy að einfaldlega gefa honum eitt mark.


En áfram gakk, ég nenni að ekki að eyða fleiri orðum í þetta lestarslys og þeir sem eru illa haldnir af einhverri sjálfspyntingarhvöt geta einfaldlega farið á YouTube eða einhvern andskotann til að horfa á endursýningu. Málið er að viðureignin er ekki búinn heldur aðeins fyrri hálfleikur. Við erum það heppnir að útivallarmörk gilda ekki og er því 0-2 sigur nóg til að kaupa okkur framlengingu. Minni þá á sem ekki hafa trú á árið 2012 þegar við vorum í sömu stöðu á móti Napoli. Við munum svo öll hvaða lið lyfti dollunni það árið.


Við erum að mæta í þennan leik með endurbætt sjálfstraust eftir geggjaðan leik á laugardaginn á móti Southampton. Chelseavélin einfaldlega sprakk í gang í þeim leik og sýndi hvað í sér býr eftir tvo tapleiki í röð. Okkar menn léku á alls oddi og eftir aðeins 21 mín var leikurinn búinn í stöðunni 3-0. Elsku kallarnir í Southampton vissu þá í hvað stefndi og var það eina sem þeir gátu gert var að koma í veg fyrir meiri skaða. Það þýddi víst ekki mikið því þegar dómarinn flautaði leikinn af var staðan 0-6 og Timo Werner með 2 mörk + stoðsendingu. Með smá heppni hefði Timo sett fimm mörk, en hann afrekaði það að slúðra boltanum í báðar stangir og slánna í þessum leik. Það sást vel á spilamennsku okkar manna að þeir hafa fengið að heyra það eftir Real Madrid leikinn og voru ákveðnir að sýna TT hvað í þeim býr.


Byrjunarliðið

Það er nú alltaf sami hausverkurinn að reyna að spá fyrir um byrjunarliðið hjá Bragðarefnum. Það fær mann stundum til að sakna Sarri, þar sem eina vafaatriðið var hvor myndi byrja inná Kova eða Barkley. Mun Tuchel stilla upp 3-4-2-1 eða 3-5-2 eða 4-1-4-1? Persónulega vil ég bara sjá sama byrjunarlið og leikkerfi sem við notuðum á móti Southampton en tel það ekki líklegt. Ég væri svo til í að sjá Werner fá tækifærið strax aftur svo hann fái að byggja ofan á þessa frábæru frammistöðu í síðasta leik. En það kemur í ljós, hann á það allavega skilið.


Mendy verður auðvitað í markinu með þá Rudiger, Silva og Christianssen fyrir framan sig. Í vængbakvörðunum munum við sjá Reece James og ég held að Alonso fái aftur traustið, hann var einfaldlega frábær í síðasta leik. Á miðjunni fáum við að sjá Kante og Kovacic, á meðan fremstu þrír verða Pulisic, Kai og Mount.


Real Madrid

Spanjólarnir frá Madrídarborg hafa líklega ekki miklar áhyggjur af þessum leik enda í frábærri stöðu og vita það að Chelsea verður að taka sénsa og sækja ef við ætlum okkur áfram. Papa Don Carlo (Ancelotti) er okkar maður og af þeim þjálfurum sem hafa verið reknir í gegnum tíðina, átti hann það minnst skilið. Við sem Chelsea stuðningsmenn vitum því upp á hár hvað hann kann og hvernig hann getur látið lið spila. Við erum ekki að fara mæta manni sem fékk þjálfara réttindi sín í skóinn frá Kertasníki. Ancelotti er "the real thing" og Bragðarefurinn verður að vera með plan A-B-C-D-E-F og G efvið eigum að geta siglt þessu heim.


Spænsku pissudúkkurnar eru því miður á rosalegri siglingu með 12 stiga forskot á toppi spænsku deildarinnar. Fyrir utan tapið á móti Barcelona fyrir ekki svo löngu þá hafa þeir einfaldlega ekki verið að tapa leikjum, hvað þá að vera skila einhverjum jafnteflum þeir eru einfaldlega að vinna nánast ALLA leiki. En ég trúi því að TT sé með ás í erminni!


Spá

Trúin er sterk fyrir þennan leik þar sem við höfum séð þetta áður, 2012 á móti Napoli og 2014 á móti PSG. Í báðum viðureignum lentum við 3-1 undir í fyrri leiknum og kláruðum málin í seinni leiknum. Það er nánast komin hefð fyrir því að klára mótherjana okkar í svona stöðu.


Ég spái því að við fáum „Angry“ Kai Havertz inn á völlinn á morgun. Hann skorar fyrsta markið okkar snemma í leiknum. Faðir vor kemur okkur í 0-2 í seinni hálfleik og þar við situr eftir 90 mín. Timo Werner kemur inn af bekknum og setur eitt í framlengingu og niðurstaðan eftir 120 mín 0-3 og Heims- og Evrópumeistarar Chelsea fer í undanúrslit.


- Snorri Clinton

Comments


bottom of page