Keppni: Meistaradeild Evrópu
Dag- og tímasetning: Miðvikudagur 29. September kl 19.00
Leikvangur: Juventus stadium
Hvar er leikurinn sýndur: Viaplay
Upphitun eftir Hafstein Árnason
Chelsea kíkir í heimsókn til Ítalíu núna í meistaradeildinni. Andstæðingarnir eru stórliðið Juventus. Eftir svekkjandi tap gegn Manchester City á heimavelli um liðna helgi, þar sem City gjörsamlega yfirkeyrðu okkur, er tækifæri til að koma til baka. Thomas Tuchel stillti upp í 3-5-2 en Pep Guardiola las það alveg eins og bók. Þeir hápressuðu okkur allan fyrri hálfleikinn eins og Þór Jenssen fór yfir í pistli sínum hér. Einnig fóru TIFO yfir þetta í nákvæmari atriðum, nánast lið fyrir lið sjá hér:
Eini ljósi punkturinn sem mætti draga uppúr viðureigninni er að innkoma Ruben Loftus-Cheek var fyrirheit um ákveðna bjartsýni. Hans innkoma á völlinn gaf okkur smá líkamlega burði á miðjunni, sem gerði liðinu kleift að halda boltanum örlítið betur en það hafði gert. Loftus Cheek hlýtur að fá mínútur í leiknum gegn Juventus. Chelsea verður þó án Reece James, Mason Mount og Christian Pulisic sem eru allir frá vegna meiðsla, og N‘Golo Kante greindist með covid veiruna. Allir aðrir leikmenn ættu að vera leikfærir. Tel það nokkuð líklegt að Thomas Tuchel stilli upp í 3-4-3 eins og liðið hefur verið vant að spila, en ekki 3-5-2 eins og liðinu var stillt upp gegn Manchester City.
Við reiknum fastlega með því að Eduoard Mendy verði í markinu og miðverðirnir verða Antonio Rüdiger, Thiago Silva og Andreas Christensen. Í hægri væng-bakverði mun Cæsar Azpilicueta spila, en í þeim vinstri gæti ég trúað því að Ben Chilwell fái traustið, sérstaklega í ljósi þess hversu slappur Marcos Alonso var gegn City. Mateo Kovacic og Jorginho byrja á miðjunni, en það myndi ekki koma mér á óvart að Ruben Loftus Cheek myndi koma inn á seinni hálfleik fyrir annan hvorn þeirra.
Í framlínunni gerum við automatískt ráð fyrir Romelu Luakaku upp á topp, en í þetta skiptið teljum við líklegt að Kai Havertz og Hakim Ziyech spili á köntunum. Timo Werner og hans hæfileikar nýtast ekki, þar sem Juventus munu að öllum líkindum stilla upp varnarsinnuðu liði með lítið pláss til að ógna fyrir aftan.
Juventus
Juventus byrjað nokkuð brösulega í Seríunni, m.a. með því að tapa fyrir nýliðum Empoli, ásamt því að gera jafntefli við Udinese. Liðið tapaði einnig fyrir Napoli, sem gerði það að verkum að eftir nokkra leiki voru þeir í neðri hluta deildarinnar framan af. Eftir sigurinn gegn Malmö fór liðið á dálítið skrið, og náði jafntefli við AC Milan og unnu Sampdoria og Spezia. Bæði Spezia og Sampdoria náðu samt sem áður að skora 2 mörk á liðið, sem er mjög óvenjulegt miðað við standardinn á okkar mönnum frá Tórínó.
Þjálfari liðsins, Massimiliano Allegri, hefur átt í stökustu vandræðum með að finna bestu formúluna, bæði hvað varðar besta byrjunarliðið en einnig bestu taktíkina. Í undanförnum leikjum hefur hann stillt liðinu upp í 4-4-2 með þá Federico Chiesa og Adrien Rabiot á köntunum og með Paulo Dybala og Alvaro Morata saman frammi. Báðir framherjarnir meiddust í síðasta leik og það hefur leitt til þess að ítalskir fjölmiðlar hafa getið sér til þess að Allegri ætli sér að stilla upp í 3-5-2 gegn Chelsea. Helsta vandamál Juventus undanfarin ár hefur tengst miðjumönnum liðsins. Í undanförnum viðskiptagluggum hafa verið leikmenn fengnir til liðsins sem hafa annað hvort, ekki passað í leikskipulagið eins og Aaron Ramsay, eða þeir hafa verið alveg agaleg vonbrigði sbr. Adrien Rabiot og Arthur. Sá sem bar ábyrgð á þessum félagaskiptum er Fabio Paratici – yfirmaður knattspyrnumála. Hann er nú horfinn á braut til nágranna okkar í Tottenham Hotspur. Við sjáum strax hans „anti-Midas“ snertingu á þeim bænum! Það hefur þó verið hæfileiki Allegri að geta skrúfað saman lið þegar líður á tímabilið. Af því leyti, er hann ofboðslega lunkinn stjóri sem gerði einnig góða hluti með Cagliari og AC Milan, áður en hann tók við Juventus. Þar sem við treystum Gazzettunni á Ítalíu ætlum við að trúa því að Allegri stilli upp 3-5-2.
Í markinu verður pólski Arsenal maðurinn, Wojciech Szczesny – sem er líklegast veikasta staða liðsins. Undir venjulegum kringumstæðum hefðu Juventus sótt Gianluigi Donnarumma, en þeir eiga víst ekki bót fyrir boruna á sér. Öfustu þrír miðverðinir verða frá vinstri til hægri; Giorgio Chiellini, Leonardo Bonucci og Matthijs de Ligt. Hægri vængbakvörðurinn verður fyrrum leikmaður Chelsea, Juan Cuadrado, en sá vinstri verður Alex Sandro. Regista miðjumaðurinn verður Rodrigo Bentancur og í mezzala miðjumenn verða Adrien Rabiot og Manuel Locatelli. Framherjaparið verður svo að öllum líkindum Moisé Kean og Federico Chiesa. Ef það skyldi gerast að þeir stilli upp í 4-4-2 er líklegt að de Ligt detti út fyrir Federico Bernardeschi.
Spá
Við spáum því að þetta verði mikil refskák en Chelsea ættu að öllum líkindum að vinna 0-1 með marki frá Romelu Lakaku.
KTBFFH
- Hafsteinn Árnason
Comments