top of page
Search

Chelsea vs Real Madrid - kemst Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar?

Keppni: Meistaradeild Evrópu

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 5. Maí kl 19:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport (opin dagskrá) og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Snorra ClintonMig langar að byrja þessa upphitun á að hvetja alla stuðningsmenn Chelsea sem hafa tök á að slást í för með okkur úr Blákastinu og ritnefnd CFC.is á Ölver annað kvöld og styðja okkar menn til dáða.


Mæting kl 18:30!


Chelsea

„Hét Brandur eftir Ömmu sinni?“

Þessa spurningu lét hann afi minn heitinn flakka mjög reglulega þegar ég var polli og með því tókst honum alltaf að fá okkur bræður og frændsystkin til að klóra okkur í hausnum. Það virtist ekki skipta máli hverju við svöruðum honum, því alltaf tókst kallinum að rugla okkur enn meira í ríminu, sama hverju við svöruðum. Þetta er það sem ég og hin barnabörnin hans afa eigum sameiginlegt með Zidane, Simeone, Guardiola, Mourinho, Klopp og Ancelotti. Þessir ágætu herramenn stóðu allir jafn ringlaðir, áttavilltir, klórandi sér í hausnum á hliðarlínunni er þeir mættu Bragðarefnum Tuchel og okkar ástkæra knattspyrnuliði.


Það er lyginni líkast að hugsa sér að á aðeins fjórum mánuðum hefur Tuchel farið í gegnum alla þessa tappa án þess að tapa leik og úr þeim viðureignum einungis fengið á sig 1 mark. Ég tala nú ekki um það að rífa liðið upp frá miðri deild, í topp fjóra, ásamt því að vera kominn með liðið í úrslit FA bikarsins og með annan fótinn í úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Ég er þegar farinn að finna þefinn af steikinni sem ég ætla að panta mér yfir úrslitaleiknum.


Það hafa aðeins liðið fjórir dagar frá því að við mættum Fulham á Brúnni og uppskárum þar gríðarlega mikilvægan og nokkuð þægilegan sigur í baráttunni um sæti í topp 4. Kai Havertz, Mount, Silva og Heimakletturinn skiluðu frábærri frammistöðu og hefði Kletturinn átt síðri dag vil ég meina að þessi sigur hefði ekki orðið jafn þægilegur. Þeim leik er gerð góð greinaskil hér, ég hvet alla sem vilja fá auka grasþef í trýnið til að hita extra vel upp fyrir leikinn að renna yfir leikskýrsluna.


Það eru ekki auðveld verkefnin sem bíða okkar manna á næstu vikum, því á eftir Real bíður okkar City – Arsenal – Leicster (í tvígang) og svo Aston Villa. Það myndi því gefa okkur þvílíkt boost fyrir þessa baráttu ef við færum í hana með miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í rassvasanum. Með slíkan byr undir báða vængi hef ég trölla trú á að við rúllum yfir þá leiki.


Svona til að halda áfram að fara úr einu í annað þá er ég farinn að efast um að ég sé að gera heilsunni minni einhverja greiða með því að glápa á svona stórleiki. Ég gerði þau skelfilegu mistök að mæla streitustigið mitt yfir fyrri leik liðanna. Ég hafði vægast sagt sprengt skalann og var pottþétt stutt frá því að sprengja helvítis símann! Streitustigið var það hátt að síma helvítið bauð upp á létta öndunaræfingu til aðstoða mig.Miðað við þetta er það einlæg ósk mín að Chelsea geri út um leikinn í fyrri hálfleik, þá eru allar líkur á því að ég fari að sofa með jafnmörg grá hár á kollinum og ég vaknaði með.


Tuchel og Christensen sátu fyrir svörum í dag á blaðamannafundi og fóru yfir stöðu mála. Skilaboðin frá TT voru einföld: „Við munum nálgast þennan leik líkt og staðan sé 0-0 og munum spila til sigurs“. Hann staðfesti einnig að Kovcic væri enn fjarri góðu gamni en annars væri allur hópurinn tiltækur þ.m.t. Rudiger sem þarf líklega að spila með grímu.


Byrjunarliðið

Það er nú alltaf sami hausverkurinn að reyna að spá fyrir um byrjunarliðið hjá Bragðarefnum. Það fær mann stundum til að sakna Sarri, þar sem eina vafaatriðið var hvor myndi byrja inná Kova eða Barkley! Mun Tuchel stilla upp 3-4-2-1 eða 3-5-2? Hvorugt mun koma mér á óvart. Mér finnst samt ansi líklegt að hann byrji leikinn svipað og í fyrri leiknum og þar af leiðandi mun hann hafa eins mikla reynslu og hann getur inn á vellinum. Ég tel því að byrjunarliðið verði eftirfarandi:


Í markinu verður alltaf Heimakletturinn Mendy. Vörnin mun vera skipuð af þeim Rudiger, Danska Prinsinum, Thiago "Faðir vor" Silva og svo Azpilicueta og Chilwell í vængbak. Í hjarta miðjunnar verða þeir Kanté og Jorginho til halds og trausts.


Gullkálfurinn hann Mason Mount er alltaf sjálfskipaður í liðið og með honum frammi tel ég að Pulisic og Werner verði fyrir valinu. En það kæmi mér ekki á óvart ef Ziyech og Kai Havertz kæmu inn í leikinn á kostnað Pulisic og Werner. Tel samt líklegra að Werner fengi bekkinn fram yfir CP 10 þar sem sá síðarnefndi hefur verið hreint magnaður síðustu vikur.Real Madrid

Spanjólarnir frá Madrídarborg hafa endurheimt nokkra lykilleikmenn fyrir þennan leik. En í hópnum á morgun snúa aftur menn á borð við Sergio Ramos, Ferland Mendy, og Valverde. Einnig lítur allt út fyrir að Marcelo hafi sloppið við vaktina í unglingavinnunni eða hvað það var nú sem átti að kosta það að hann fengi ekki að fara með liðinu til Lundúna. Það er risa styrkur fyrir spánverjana að endurheimta Ramos en maður veltir fyrir sér hvort hann fái að byrja því leikformið er ekki upp á það besta.


Madridar liðið hefur einnig endurheimt okkar ástkæra Hazard, en kauði fékk einhverjar mínútur á móti okkur í fyrri leiknum og hann einfaldlega sást ekki, vonum að það endurtaki sig. Það er nokkuð ljóst að Real Madrid getur teflt fram gríðarlega sterku liði á móti okkur annað kvöld og Zidane hefur legið yfir teikniborðinu undanfarna viku til að reyna átta sig á hvernig hann getur skákað Refnum. Eitt er víst að hann þarf að galdra fram eitthvað extra ef hann ætlar að setja á okkur mark og koma sér í úrslitaleikinn, enn eina ferðina.


Spá

Það er aðeins eitt vitað fyrirfram og það er að Real verður að skora. Ég hef þó ekki mikla trú á því að þeir byrji leikinn með einhverri bombu. Þeir þurfa að vera skipulagðir og þolinmóðir til að brjóta okkur á bak aftur. Þeir vilja alls ekki opna sig að óþörfu í byrjun leik og eiga það á hættu að fá mark í smettið snemma. Þessi leikur mun eflaust vera tactical masterclass og hef ég fulla trú á að Bragðarefurinn muni teikna enn einn leikinn upp á 10. Ég spái því auðvitað að okkar menn fari með sigur úr bítum úr þessari viðureign og sigri leikinn 1-0 með marki frá Thiago "Faðir Vor" Silva.

Tuchel mun spyrja „hét Brandur eftir Ömmu sinni“ og skilja Zidane eftir á hliðarlínunni klórandi sér í hausnum lítandi út eins og ráðavilltur krakki eftir 90 mín 😊


Sjáumst á Ölver!!!!

- Snorri Clinton


Comments


bottom of page