top of page
Search

Chelsea vs. Man City - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Fimmtudagurinn 25 Júní, kl. 19:15

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Sigurð Torfa Helgason

Chelsea

Þó svo að Chelsea liðið hafi náð í þrjú stig í síðasta leik á móti Aston Villa þá var þetta engin flugeldasýning hjá okkar mönnum. Í fyrri hálfleik vorum við mikið meira með boltann án þess að ná að skapa eitthvað af viti. Og svo rétt fyrir hálfleik þá kemur fyrirgjöf inn í teig Chelsea liðsins sem varnarlínan réð illa við, eftir smá darraðadans þá mokaði Kortney Hause varnarmaður Aston Villa boltanum yfir línuna. 1-0 í hálfeik og var maður nett pirraðir fyrir framan imbann!


Frank Lampard var ekki lengi að bregðast við í seinni hálfleik og setti hann inn á Pulisic og Barkley fyrir Kovacic og Loftus-Cheek. Þeir komu með orku inn á miðjuna og um það vil 7 mínútum síðar var Chelsea liðið komið yfir með mörkum frá Pulisic og Giroud. Mjög mikilvægt að koma sjálfstrausti í Pulisic sem var að glíma við leiðinleg meiðsli rétt fyrir Covid. Villa menn gerðu svo enga svakalega atlögu það sem eftir lifði leiks og sigldi Chelsea liðið þessum leik örugglega í höfn. Þrjú stig og skyldusigur hjá þeim Bláu.

Man City

Miðað við frammistöðu City liðsins í þessum fyrstu tveimur leikjum sem þeir hafa spilað eftir Covid þá er alveg á hreinu að þetta gæti orðið ansi þungur róður fyrir okkar menn. City liðið raðar inn mörkum en leikir þeirra hafa endað 3-0 á móti Arsenal og 5-0 gegn Burnley. Reyndar var það okkar maður David Luiz sem hjálpaði ansi mikið til í Arsenal leiknum.

Það er erfitt að lesa í hvernig City menn mun stilla upp sínu liði því breytingar voru ansi margar á milli þessara tveggja leikja sem liðið hefur spilað. En það er þó nokkurn vegin ljóst að Gabriel Jesus mun leiða línuna hjá þeim ljósbláu því Aguero mun væntanlega ekki spila meira með Man City á tímabilinu vegna meiðsla. Kevin De Bruyne, Phil Foden og Ryiad Mahrez hafa allir litið virkilega vel út og mætti halda að þeir hefðu hreinlega ekki farið í neina Covid pásu eins og restin af fótboltaheiminum. Einnig er þeirra langbesti miðvörður, Aymeric Laporte, núna orðinn heill heilsu sem gerir heilan helling fyrir öftustu línu City.


Byrjunarliðið

Fyrst ber að nefna að bæði Willian og Pedro skrifuðu undir mánaðar framlengingu á samningum sínum við Chelsea. Þetta þýðir að þeir munu báðir klára tímabilið, eru þetta virkilega góðar fréttir. Ég hugsa að Lampard muni ekki hreyfa neitt við vörninni á fimmtudaginn. Þetta er líklega sterkasta varnarlínan sem Chelsea liðið getur stillt upp eins og er. Tomori er enn frá vegna meiðsla. Þó svo að undirritaður vilji sjá Billy Gilmour í liðinu þá held ég að þriggja manna miðjan muni samanstanda af Jorginho, Kovacic og Kanté. Pulisic kemur inn í liðið eftir að hafa hrist upp í hlutunum á sunnudaginn á móti Aston Villa. Svo hugsa ég að Willian og Giroud halda sínum sætum. Hudson Odoi gæti tekið þátt í leiknum í einhverri mynd en hann hefur verið að glíma við ökklameiðsli.

Síðan gæti maður verið að lesa bandvitlaust í þetta. Kannski mun Lampard reyna að nýta hópinn og koma með 7-8 breytingar til að dreifa álaginu. Þá værum við t.d. að sjá leikmenn á borð við Emerson, Zouma, Pedro og Tammy svo einhverjir séu nefndir. En mér finnst það frekar ólíklegt nema að Tammy undanskildum.


Spáin

Ég er smeykur við þennan leik, viðurkenni það fúslega. Ekki það að okkar menn líti eitthvað svakalega illa út. Heldur hversu vel City liðið lítur út. Covid pásan virðist hafa farið vel í City liðið. En ég leyfi mér samt sem áður að spá 1-0 sigri Chelsea þar sem Marcos Alonso setur hann beint úr aukaspyrnu á 67 mínútu.

KTBFFH

bottom of page