top of page
Search

Chelsea vs Luton - upphitun

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 24. Janúar kl 12:00.

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 Sport 3

Upphitun eftir: Þór Jensen

Líkt og fyrir leikinn gegn Morecambe fer Lampard inn í þennan bikarleik í sjóðandi heitu sæti eftir slæmt tap gegn Leicester í vikunni. Hann má telja sig heppinn að hafa aftur fengið auðveldan drátt í bikarnum eftir slæm töp í deildinni. Leikurinn er auðvitað algjör skyldusigur og allt annað en sigur gæti þýtt að Lampard hafi stýrt sínum síðasta leik fyrir Chelsea.


Stóra spurning er hvernig Lampard mun stilla byrjunarliðinu upp gegn Luton mönnum. Mun hann hvíla lykilmenn eða spila þeim og reyba þannig að byggja upp sjálfstraust og kemestríu milli leikmanna? Hvaða ungu leikmenn munu fá sénsinn, ef einhver? Snýst þessi leikur meira um úrslit en að gefa mönnum spilatíma?


Ég spái því að Lampard hvíli Mendy, Silva, Kovacic og Pulisic í leiknum, en erfitt er að giska á liðið fyrir þennan leik. Eitt er víst, að liðið verður miklu sterkara en Luton liðið og á að vinna leikinn stórt.


Luton Town FC

Luton menn sigla lygnan sjó um miðja Championship deildina og sitja í 13. sæti. Luton vann sterkan 1-0 sigur á Reading í síðasta bikarleik. Luton menn eru ekki beint þekktir fyrir blússandi sóknarbolta þessa dagana og hafa aðeins skorað 21 mark í 25 leikjum í deildinni í vetur, eða 0,8 mörk í leik að meðaltali. Þeirra markahæsti maður er James Collins með 6 mörk en þeirra besti maður líklega lánsmaðurinn frá Leicester á miðjunni, Kiernan-Dewsbury Hall. Þeir spila öflugan varnarbolta og eru skipulagðir. Við megum því búast við nokkrum rútum, vel lögðum, fyrir framan mark þeirra í leiknum á morgun.


Síðast er þessi lið áttust við var 9. apríl 1994. Það var í undanúrslitum FA bikarsins og vann Chelsea þann leik 2-0 og kom sér í úrslitaleikinn gegn Man Utd. Sá leikur reyndar tapaðist illa 4-0 þar sem okkar menn fengu á sig þrjú mörk á níu mínúta kafla í seinni hálfleik. En þessi leikur gegn Luton var ansi merkilegur fyrir þær sakir að í liði Luton manna var engin annar en Chelsea goðsögnin Kerry Dixon sem þá var orðinn 33 ára gamall og farið að síga á seinni hluta ferilsins. Leikurinn fór fram á Wembley og Kerry Dixon hefur sagt frá því að þessi leikur sé ein af hans bestu Chelsea minningum því allir stuðningsmenn Chelsea sungu nafn hans hástöfum allan leikinn - forsíðumyndin er einmitt úr þessum leik.


Spá

Leikurinn gegn Morecambe var nýttur sem eins konar æfingaleikur eins og Lampard sagði sjálfur. En nú er alvaran meiri í þessum leik, enda erfiðari andstæðingur. Nú er lengra komið í FA bikarnum og sætið hans Lampards er heitara en nokkru sinni fyrr. Ég spái okkar mönnum 2-0 sigri gegn baráttuglöðum Luton mönnum, Werner og Callum með mörkin. Billy Gilmour verður maður leiksins og tryggir sér sæti í byrjunarliðinu fyrir næsta deildarleik.


KTBFFH

- Þór Jensen

留言


bottom of page