top of page
Search

Chelsea vs. FC Bayern München - Meistaradeildin!

Keppni: Meistaradeildin.

Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 25. febrúar 2020, kl.20:00.

Leikvangur: Stamford Bridge.

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport 2, Sportbarinn Ölver, BT Sport 2 & TNT

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.



Chelsea

Leikmenn liðsins eru vonandi allir vel peppaðir eftir sætan sigur á Spurs á Brúnni um nýliðna helgi. Lampard skipti úr fjögurra manna varnarlínu í fimm þar sem Alonso og James spiluðu sem vængbakverðir en Azpi, Rudiger og Christensen mynduðu kjarnann í varnarlínunni. Fyrri hálfleikurinn gegn Spurs var flottur. Giroud kom sterkur inn og minnti Lampard á hvers lags hæfileika sá síðarnefndi hefur haldið fyrir utan leikmannahópinn nánast allt tímabilið. Seinni hálfleikurinn var ekki jafn góður en skilaði engu að síður seinna marki okkar manna en undir lok leiksins þegar Spurs hafði minnkað muninn fannst mér dómarinn ekki geta flautað leikinn nógu fljótt af. Guði sé lof að við héldum þetta út og náðum þriggja stiga forskoti á Manchester United í fjórða sætinu.


Því miður eru nokkrir leikmenn okkar að glíma við meiðsli og verða ekki með í leiknum gegn Bayern. Kante er að glíma við meiðsli í nára (adductor), Hudson-Odoi er meiddur í aftari lærvöðva (hamstring), Pulisic er meiddur í hásin og þá er engin breyting á meiðslum Van Ginkel en hann hefur gleymt við vandamál í hné frá 2018. Samningur hans við Chelsea rennur út í lok júní nk. og verður að teljast ólíklegt að hann verði endurnýjaður. Þá er ekki víst að Loftus-Cheek verði með gegn Bayern en hann fær þó kannski að verma bekkinn eins og í seinasta leik. Auðvitað vill enginn að hann fari of hratt af stað enda er hann mikilvægur framtíðarleikmaður liðsins í hugum margra stuðningsmanna. En ég er viss um að ég er ekki eini stuðningsmaður liðsins sem hlakkar til að sjá hann aftur í spilaformi. Þá ber að óska Rudiger til hamingju með nýfæddan erfingja. Ég geri ráð fyrir honum í liðinu gegn Bayern en það verður að teljast skiljanlegt kjósi hann að vera hjá frumburðinum þessa fyrstu daga.



Lampard stillti upp í 3-4-2-1 gegn Tottenham. Um leið og sú uppstilling varð ljós grunaði mann sem var að Alonso væri í byrjunarliðinu. Það er súrt hvað þessi annars góði vinstri vængbakvörður á erfitt með að spila vinstri bakvörð. En það er þó frábært að við séum með hægri bakvörð sem getur einnig spilað sem hægri vængbakvörður án þess að missa dropa af gæðum. Hann er frábær leikmaður og það er unun að sjá leikmenn hrynja í jörðina af honum. Einhvers staðar las ég að James hefði fengið viðurnefnið „tank“ (Reece „the tank“ James) sem verður að teljast vera við hæfi.


Eftir smá grúsk sýnist mér að Bayern hafi iðulega teflt fram einhverri útfærslu af 4-3-3 (4-2-3-1 / 4-1-2-3 / o.s.frv.) þetta tímabilið. Ég tel að liðsuppstilling seinasta leiks okkar gæti virkað vel gegn sterkum sóknarmönnum Bayern. Þrír öftustu hjá okkur þurfa að vera traustir varnarmenn, sem þeir geta allir verið á góðum degi, þá sérstaklega Rudiger og Christensen, Azpi er iðulega klettur í vörninni. Þrátt fyrir að Alonso hafi gerst sekur um töluverð mistök í seinasta leik þá setti hann boltann engu að síður í netið. En til að bæta upp fyrir veikleika Alonso þarf góða miðjumenn. Þar höfum við bæði Jorginho og Kovacic. Barkley kom reyndar á óvart með góðri frammistöðu í seinasta leik, hann virtist vera í góðu formi og vel stemmdur og spurning hvort hann fái aftur tækifæri í byrjunarliðinu. Mér finnst svo eiginlega engin góð ástæða fyrir því að gefa Giroud ekki byrjunarliðssæti í þessum leik, þrátt fyrir að Tammy sé heill, eða nokkurn veginn heill.


Í stuttu máli er mín spá fyrir byrjunarliðið gegn Bayern óbreytt frá seinasta leik:

FC Bayern München

Bayern hafa ekki verið með sömu yfirburði í þýsku bundesligunni og oft áður. Til marks um það sátu þeir í 7. sæti deildarinnar í byrjun desember eftir tvo tapleiki í röð gegn Bayer Leverkusen og Borussia Mönchengladbach. Þeir hafa þó ekki tapað leik síðan, sátu í þriðja sæti deildarinnar um áramótin og skelltu sér svo á toppinn í byrjun þessa mánaðar. Þrátt fyrir þessa brösugu byrjun í deildinni var gengi Bayern í riðlakeppni meistaradeildarinnar frábært. Þeir enduðu á toppi síns riðils með fullt hús stiga, skoruðu 24 mörk og fengu aðeins á sig fimm. Fótboltaáhugamenn muna kannski eftir 2-7 sigri Bayern á Tottenham í riðlakeppni meistaradeildarinnar í október sl. En það var ekki stærsti sigur Bayern í riðlakeppninni, þeir unnu Red Star Belgrade með sex mörkum í Belgrad.


Leikmannahópur Bayern tók nokkrum breytingum sl. sumar. Af þeim sem fóru frá liðinu ber kannski helst að nefna að Arjen Robben lagði skóna á hilluna og lánsmaðurinn James Rodríguez sneri aftur til Madrid. Þá fluttu Ribéry, Hummels. Renato Sanches og fleiri sig um set. Það eru nú ekki minni nöfn sem fylla í skarð þessara leikmanna en Bayern fékk t.a.m. Ivan Perisic og Philippe Coutinho til sín á lánssamningi en Perisic verður ekki með gegn okkur vegna ökklameiðsla. Bayern keypti einnig nokkra leikmenn, þar á meðal Benjamin Pavard, Mickaël Cuisance og ungan áhugaverðan framherja, Jann-Fiete Arp. Arp þessi skoraði 18 mörk í 19 landsleikjum með þýska U17-landsliðinu á árunum 2016-2017. Þessi tvítugi strákur hefur þó enn ekki fengið tækifæri með aðalliði Bayern, það gæti þó bara verið tímaspursmál. Þá má geta þess að núna í janúar fengu Bayern enn aðra viðbót í hópinn en þá fengu þeir varnarmanninn Álvaro Odriozola á láni frá Real Madrid.


Varla er hægt að ræða um breytingar í leikmannahópi Bayern München án þess að minnast á stjóraskiptin á miðju tímabili. Niko Kovic hafði stýrt Bayern í 18 mánuði og unnið bæði deild og bikar á síðasta tímabili. Eftir áðurnefnda brösuga byrjun þá varð það 5-1 tap gegn Eintracht Frankfurt sem fyllti mælinn og sagði Kovic það hafa verið sameiginlega ákvörðun hans og stjórnar Bayern að hann myndi hætta störfum. Aðstoðarþjálfari Kovic, Hans-Dieter Flick, hefur verið skipaður tímabundinn aðalþjálfari liðsins. Ekki er hægt að segja að liðsframmistaðan hafi slaknað við þessi skipti því eins og minnst var á áðan þá situr Bayern nú á toppi Bundesligunnar með eins stigs forskot á RB Leipzig.

Pistlahöfundur náði að kíkja aðeins á seinasta leik Bayern sem var gegn botnliði Bundesligunnar, SC Paderborn. Bayern vann þann leik 3-2 og virtust á tímabili vera í eintómu veseni þrátt fyrir að hafa verið með boltann 70% af leiknum. Neuer átti til dæmis úthlaup sem var algjörlega galið og almennt virtist varnarlína Bayern ekki mjög örugg. Ef eitthvað er svo að marka umræðurnar eftir leikinn þá hefur vörnin einmitt verið veikleiki Bayern þetta tímabil. Það er vonandi eitthvað sem við getum nýtt okkur, með unga fljóta leikmenn sem ættu að geta hlaupið helling, klóka miðjumenn og reynslumikinn framherja eins og Giroud.


Að sama skapi hafa veikleikar í vörn okkar verið til vandræða allt þetta tímabil og eru Bayern með leikmenn sem geta refsað illa þegar varnarmönnum verða á mistök. Stærstu nöfnin eru án efa Lewandowski, Müller, Coutinho og Serge Gnabry. Fyrir þá sem ekki fylgjast með þýska boltanum þá var Serge Gnabry valinn leikmaður ársins hjá Bayern í fyrra. Gnabry virðist einnig vera naskur á mörk því hann hefur skorað alls 15 mörk í 29 leikjum fyrir Bayern þetta tímabil, þar af skoraði hann fjögur marka Bayern í 2-7 sigri þeirra á Tottenham. Þá hefur hann einnig gefið 10 stoðsendingar á sama tímabili. Þar er því enn einn hættulegur leikmaður á ferðinni í sóknarlínu Bayern. En þarna er einmitt ástæðan koman fyrir mögulegri fimm manna varnarlínu hjá okkar mönnum.


Spá

Ég er ekkert allt of bjartsýn á sigur í þessum leik. Í mínum huga er Bayern München alltaf erfiður andstæðingur, þrátt fyrir að þeim hafi ekki gengið sem skyldi á fyrri hluta tímabilsins þá hafa þeir svo sannarlega komið til baka. Þeir glíma við vandamál í sínum leik sem við getum nýtt okkur. Því miður fyrir okkur erum við að glíma við sömu vandamál og nokkur til viðbótar. Ég spái því 1-2 tapi, Giroud setur boltann í netið fyrir okkur. Til að nefna einhverja markaskorara fyrir gestina þá spái ég að mörkin komi frá Gnabry og Coutinho.

Comments


bottom of page