top of page
Search

Chelsea vs Crystal Palace - Upphitun

Keppni: Enska Úrvalsdeildin.

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 3.október, kl. 11:30.

Leikvangur: Stamford Bridge.

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar ofl.

Upphitun eftir: Elsu Ófeigsdóttur.


Chelsea

Elsku besti klúbburinn minn, hvað það getur stundum verið erfitt að halda í bjartsýnina á þessum vongóðu og vonsviknu tímum. Fjögur stig eftir þrjár umferðir er slappur árangur, sér í lagi þegar litið er til þess að aðeins einn leikur af þessum þremur var gegn toppliði. Ég hafði gríðarlegar væntingar til liðsins og varð fyrir miklum vonbrigðum í fyrsta leik gegn Brighton og gaf sá leikur gaf kannski bara tóninn fyrir það sem var í vændum. Í næsta leik virtumst við eiga möguleika, allt þar til Christensen „henti“ sér á Mane til að koma í veg fyrir að hann kæmist einn á móti markmanni. Þó mig svíði að segja það, þá eru 99% líkur á að boltinn hefði farið framhjá Kepa. Ég kýs því að líta svo á að Christensen hafi fórnað sér fyrir liðið en án þess að hugsa um það sem kæmi á eftir. En að tapa fyrir ríkjandi meisturum með tveimur mörkum verandi einum færri helming leiksins er kannski ekki svo hrikaleg frammistaða. Barnsley leikurinn var ljós punktur – en að sjálfsögðu alltaf skyldusigur. Erum við þá komin að WBA leiknum. Hólí mólí, hvað fyrri hálfleikur var lélegur en að vera þremur mörkum undir í hálfleik... gegn WBA! Meira að segja lýsendurnir á Sky vissu varla hvernig þeir áttu að láta. En góðar skiptingar í hálfleik auk elju og þrautseigju tryggðu okkur eitt stig. Engan veginn það sem væntingar stóðu til en flott að sjá CHO eiga góðan leik. Þetta er þó eitt besta „come back“ í Ensku Úrvalsdeildinni síðustu fimm árin, allavega ef marka má úttekt BBC. Seinasti leikur gegn Tottenham var kaflaskiptur með meiru. Tottenham voru frekar daufir í fyrri hálfleik og voru okkar menn ansi hættulegir. Eftir að Timo skellti inn marki fór Tottenham á smá flug en nýi markmaðurinn okkar, Mendy, stóð vaktina vel. Ég missti af einhverju atviki í teignum þar sem ég þurfti að bregða mér frá skjánum – svo, engin skoðun á því þó ég hafi fengið að heyra að Mendy virtist taugaóstyrkur og það hefði verið eitthvað „havarí“ í vörninni. Ég veit ekki með ykkur en ég var spennt fyrir seinni hálfleik. Mér fannst Odoi hafa staðið sig vel, vörnin virtist svona ekki jafn brothætt og oft áður, hvort það var Chilwell að þakka læt ég liggja milli hluta en hann kom mér ánægjulega á óvart. Seinni hálfleikur varð að hálfgerðri martröð. Odoi virtist hafa yfirgefið völlinn, það reyndi töluvert meira á Mendy og Mount leit út fyrir að þurfa vikufrí í Karíbahafinu. Eftir að Tottenham jöfnuðu var varla hægt að sjá annað en að bláliðarnir væru bara semi-sáttir við að fara með splunkunýja markmanninn í vítaspyrnukeppni. Og þrátt fyrir hrikalega frammistöðu í vítunum þá get ég varla kvartað yfir frammistöðu Mendy í leiknum sjálfum.


Snúum okkur þá að mögulegum leikmannahópi gegn Crystal Palace. Því hefur verið fleygt fram að Alonso hafi spilað sinn seinasta leik fyrir klúbbinn eftir bæði afleita frammistöðu gegn WBA og fyrir að hafa orðið fyrir „hárblásara“ Lampards. Ég veit ekki hvort það sé satt eða ekki, ég spái því allavega að hann verði ekki í hópnum – ekki frekar en í leiknum gegn Tottenham. Ross Barkley er auðvitað farinn á lán til Aston Villa, flott hjá honum að tryggja sér spilatíma og Billy Gilmour er enn að jafna sig eftir hnémeiðsli sem hann hlaut í leik gegn Crystal Palace í júlí sl.



Pulisic sagði í beinni útsendingu á Twitch að honum liði vel, hann væri tilbúinn fyrir þennan leik gegn Palace og að hann saknaði þess að spila með liðinu. Lampard staðfesti svo á blaðamannafundi fyrir leikinn að Pulisic væri í hóp en myndi ekki byrja leikinn. Ziyech birti í vikunni myndaseríu af sér á æfingasvæðinu með titlinum „Step by Step“ og hann er því vonandi að komast í leikhæft form og verður klár eftir landsleikjahléið. Báðir leikmenn hafa svo verið kallaðir inn í landslið sín fyrir komandi landsleiki. Aðrir leikmenn eru að öllum líkindum heilir nema eitthvað komi upp á korter í leik. Ég spái byrjunarliðinu þannig að Mendy verði í marki, Chilwell vinstri bakvörður, Silva og Tomori miðverðir, Azpi hægri bakvörður. Miðjan samanstandi af Kante, Jorginho og Havertz fyrir framan. Werner og Odoi verða svo á „sóknarköntunum“ og Abraham fremstur.


Crystal Palace

Crystal Palace er með sex stig úr þremur umferðum. Þeir byrjuðu á að sigra Southampton og komu svo öllum á óvart með því að vinna Man.Utd. 1-3 á Old Trafford. Þeir töpuðu seinasta leik sínum gegn Everton með einu marki. Liðið hefur skorað í öllum leikjum sínum og hafa sett inn fimm mörk í þessum þremur leikjum. Wilfred Zaha er þar afkastamestur með þrjú mörk enda gríðarlega snöggur leikmaður og hefur verið eitt stærsta nafn Crystal Palace síðustu árin. Aðrir leikmenn sem við þurfum að passa vel eru miðjumennirnir Andros Townsend, með tvær stoðsendingar og eitt mark á þessu tímabili, og Cheikhou Kouyaté sem hefur skorað eitt mark og spilað vel sem miðvörður. Vicente Guaita hefur staðið vaktina í marki Palace í byrjun tímabilsins og varið 11 skot en hann varði þriðju flestu skotin í Premier League í fyrra. Ekki má gleyma honum Michy Batshuayi sem er á láni hjá Palace, en hann má að sjálfsögðu ekki taka þátt í leiknum þar sem hann er lánsmaður okkar.


Stjóri Palace er Roy Hodgson sem flestir Íslendingar ættu að kannast við enda sagði hann starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari Englands eftir tap þeirra gegn Íslendingum á EM 2016. Það þýðir þó ekki að þetta sé lélegur þjálfari enda hefur hann verið þjálfari frá árinu 1976 og því marga fjöruna sopið á sínum ferli.

Palace hafa verið mjög þéttir og skipulagðir í upphafi tímabils. Þeir eru greinilega þyrstir í að sanna sig en Palave er engu að síður lið sem hefur átt heima í neðri hluta úrvalsdeildarinnar. Þetta ætti því að vera skyldusigur fyrir okkar menn en ég held að leikurinn verði erfiður og Palace verðugur andstæðingur.


Spá

Eftir brösótta byrjun er óskandi að bláliðarnir fari að detta inn á rétta braut. Þegar litið er til viðureigna liðanna þá er sagan með okkur en við höfum unnið seinustu fimm viðureignir liðanna. Ég ætla ekki að segja að Havertz sé lykillinn að velgengni en hann er með gott auga og því mikilvægt að hann verði heitur í leiknum. Við vitum öll hvað Pulisic er mikill töframaður og hlökkum til að sjá hann fá spilatíma og leika listir sínar. Ég er spennt fyrir Silva og Tomori sem miðvarðapari og tel Tomori geta lært ýmislegt af Silva sem hinir miðverðir okkar geta ekki kennt. Það er bara ein efasemd í mínum huga, eru þeir nógu snöggir til að hlaupa t.d. Zaha uppi? Svörin við því birtast vonandi í leiknum. Ég spái því að Mendy haldi hreinu og við sigrum leikinn 3 – 0: Werner, Abraham og Pulisic með mörkin.


KTBFFH

- Elsa Ófeigsdóttir

bottom of page