top of page
Search

Chelsea vs Burnley - upphitun

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 31. janúar 2021 kl. 12:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Árna St. StefánssonInngangur

Áhangendur Chelsea vonuðust eflaust allir eftir blússandi byrjun hjá nýjum þjálfara síðastliðið miðvikudagskvöld en það varð því miður ekki raunin. Liðið hélt vissulega hreinu, átti metfjölda sendinga og hélt boltanum vel innan liðsins en á meðan liðið skorar ekki mörg þá eru þessir þættir ekki að fara að skila okkar mönnum ofar í töfluna. Á morgun fær Tuchel hins annað tækifæri til rífa liðið upp af rassgatinu og hrífa um leið okkur stuðningsmenn með sér, en þá mæta lærisveinar Sean Dyche á Brúnna.


Chelsea

Byrjarliðsuppstilling Tuchel í leiknum gegn Úlfunum vakti töluverða athygli en hann tók t.a.m. bæði Tammy og Mount úr byrjunarliðinu - annars vegar mann sem skoraði þrennu í leiknum á undan og hins vegar mann sem er heilt yfir búinn að vera besti leikmaður Chelsea á tímabilinu. Tuchel færði hins vegar ágætis rök fyrir liðvalinu og hefur jafnframt lofað Mount í hástert þannig að þeir félagar eiga eflaust eftir að fá sín tækifæri undir stjórn “Prófessorsins”.


Það er óvíst hvort Kante sé orðinn nógu heill til að byrja leikinn en hann hefur glímt við meiðsli undanfarnar vikur. Þar fyrir utan eru allir leikfærir skv. mínum heimildum. Tuchel mun eflaust rótera eitthvað í byrjunarliðinu frá leiknum gegn Wolves og það mun án efa taka einhvern tíma fyrir Þjóðverjann að finna “sitt byrjunarlið” - vonandi tekst honum betur upp með það en forveri hans. Vörnin, sem leit svo innilega vel út fyrir nokkrum mánuðum, hefur ekki verið svipur hjá sjón að undanförnu. Mendy hefur ekki náð að fylgja eftir frábærri byrjun en hann má þó eiga það að hann hefur ekki verið að gerar einhverjar afleitar gloríur í rammanum. Þá var maður orðinn sannfærður um að Silva og Zouma væri okkar “auto” miðvarðarpar en sú uppstilling hefur hins vegar skolast til að undanförnu og Zouma á ekki lengur víst sæti í byrjunarliðinu.


Þá á Tuchel víst að mikið álit á samlanda sínum Rudiger og því allt eins líklegt að hann muni halda áfram að stilla honum og Silva upp í miðri vörninni. Ég ætla þó að spá því að Zouma eigi afturkvæmt í byrjunarliðið - bara spurning hvenær. Ég ætla sömuleiðis að spá því að Tuchel haldi sig sömu bakverði, þ.e. Azpi og Chilwell. Hins vegar ætla ég að veðja á að það verði breytingar á miðjunni og Mount komi inn í byrjunarliðið á kostnað Jorginho. Hudson-Odoi sýndi flotta frammistöðu s.l. miðvikudag og vonandi fær hann áfram traustið og nær því “rönni” sem við erum alltaf að bíða eftir. Ziyech og Havertz sýndu einnig lofandi frammistöðu gegn Wolves sem skilar þeim líklega áfram sæti í byrjunarliðinu. Þá finnst mér líklegt að Tuchel byrji með Tammy upp á topp á kostnað Giroud. Það eru hins vegar engin smánöfn sem bíða á bekknum - Werner, Pulisic o.fl. bíða eflaust í ofvæni eftir að sýna sig og sanna fyrir nýjum þjálfara inni á vellinum.Burnley Chelsea hefur haft góð tök á Burnley í gegnum tíðina en í þeim 13 viðuregnum sem liðin hafa mæst í gegnum tíðina þá hafa okkar menn haft betur í níu þeirra, þrír leikir hafa endað með jafntefli og einungis einu sinni hefur Burnley farið með sigur af hólmi.

Eftir hræðilega byrjun í deildinni hefur Burnley náð vopnum sínum og unnið þrjá leiki í röð og sitja nokkuð þægilega í 15. sæti deildarinnar með 22. stig. Dyche fær seint verðlaun fyrir að leggja áherslu á fagurfræði knattspyrnunnar en honum gæti eflaust ekki verið meira sama. Hann heldur sig einfaldlega við gamla góða 4-2-2 og elskar að láta sitt lið leika afar massífan varnarleik með tilheyrandi baráttu. Þá er vert að minnast á magnaðan sigur liðsins gegn Liverpool á dögunum en fékk liðið mikið hrós fyrir hetjulega frammistöðu í þeim leik, eðlilega.


Spá Það dylst engum að gengi Chelsea að undanförnu hefur verið afskaplega dapurt - tveir sigurleikir í síðustu níu leikjum segir í raun allt sem segja þarf. Það má því með sanni segja að liðið þurfi bráðnauðsynlega á góðum sigri að halda og ef heimaleikur gegn Burnley er ekki kjörið tækifæri þá veit ég ekki hvað. Það er einfaldlega um að ræða algjöran skyldusigur á morgun, eins klisjulega og það hljómar Leikmenn eru eflaust ennþá spólgraðir að sanna sig fyrir nýjum þjálfara og vonandi mun það skína í gegn á morgun. Þá eiga gæði liðsins umfram Burnley að koma okkur nokkuð örugglega í gegnum þennan leik. Ég spái 2-0 sigri þar sem Tammy og Hudson-Odoi sjá um að skora mörkin - bæði eftir stoðsendingar frá marokkóska galdramanninum.


KTBFFH

Comentarios


bottom of page