top of page
Search

Chelsea - Ofurdeildin og leikurinn gegn Brighton



Venjan er að hér sé fjallað um leiki Chelsea og þessi pistill mun snerta á leik Chelsea og Brighton & Hove Albion. En ég ákvað hins vegar að nýta þessa leikskýrslu til að skrifa mínar hugsanir á bakvið hina steindauðu Ofurdeild (Super League) sem okkar ástkæri klúbbur tók þátt í að stofna, en var svo leiðandi í að svæfa aftur.


Það varla fyrirfinnst sá stuðningsmaður sem var sáttur við stofnun þessarar deildar – forsöguna þekkja allir. Chelsea, ásamt 12 öðrum liðum, vildu stofna með sér sína einkadeild til að tryggja sér margfallt meiri tekjur en um leið rústa einu tekjulind UEFA, sjálfri Meistaradeildinni.


Málið er að tekjur Meistaradeildarinnar enda ekki bara í vasa þeirra liða sem þar taka þátt, þvert á móti renna tekjurnar til allra sérsambanda innan UEFA (þ.m.t. KSÍ). Sérsamböndin deila svo þessum tekjum niður á sín aðildarfélög.


Ef þessi Ofurdeild hefði orðið að veruleika hefði hún rústað öllu fótboltahagkerfi Evrópu.


Allt í nafni græðgi.


Hvert var hlutverk Chelsea?

Fréttir herma að Chelsea hafi verið eitt af þeim liðum sem voru hvað síðust til að staðfesta þátttöku. Ef eitthvað er að marka yfirlýsingu klúbbsins þá virðist það hafa gerst seint í síðustu viku. Liverpool, Real Madrid, Juventus og Manchester United virðast hafa verið þau lið sem keyrðu þetta verkefni áfram enda hefur Ed Woodward sagt starfi sínu lausu. The Athletic talar um að Chelsea hafi verið síðastir inn og fyrstir út.


Á þessari stundu er erfitt að skilja hvers vegna Chelsea ákvað að vera með – þessi hugmynd virðist gjörsamlega galin. En eitthvað segir mér að Florentino Perez, Ed Woodward, Joe Glazer og John Henry hafi lagt þetta mál þannig upp að Chelsea mætti ekki missa af lestinni. Abramovich hefur líklega bara verið stillt upp við vegg og látinn svara já eða nei – því miður stóðum við ekki í lappirnar.


Ólíkir menningarheimar

Það var magnað að fylgjast með þeirri einingu sem myndaðist á Englandi um að reyna kæfa þessa Ofurdeild í fæðingu. Boris Johnson, Vilhjálmur Prins, Jeremy Corbin, Gary Neville, Jamie Carragher, Rio Ferdinand, David Beckham, Alan Shearer og bara allir þeir sem leyfðu sér að tjá sig um þetta mál fordæmdu aðgerðir liðanna harkalega.


En sú var ekki raunin á Spáni og Ítalíu. Þar var málið vissulega umdeilt, en það var engin að missa sig. Hér kemur tvennt bersýnilega í ljós, annars vegar hvað stuðningsmönnum á Englandi er annt um sína eigin deild og sína knattspyrnuarfleið og einnig hversu illa fjárhagslega þessi félög á Spáni og Ítalíu eru stödd.


Barcelona skuldar tæpan milljarð evra og er stór hluti þeirrar skuldar skammtímaskuld, sem þýðir að kröfunar þurfa að greiðast innan næstu 12 mánaða. Real Madrid hefur tapað miklum peningum í Covid og eru ekki það ofboðslega afl sem þeir voru fyrir 2-3 árum síðan. Einnig eru dýrar endurbætur á Santiago Bernabeu vellinum dýrar og Florentino Perez sagt stöðuna þar alvarlega. Eftir að ljóst varð að Ofurdeildin væri dauð og ómerk hefur Perez látið hafa það eftir sér að núna eigi Real Madrid ekki möguleika á að kaupa leikmenn eins og Haaland og Mbappé.


AC Milan er í eigu vogunarsjóðs frá Bandaríkjunum sem eitt og sér er galið. Inter Milan er tæknilega gjaldþrota eftir að kínverskir eigendur liðsins virðast hreinlega hafa klárað peninginn sinn.


Liðin á meginlandi Evrópu eru bara mjög erfiðum málum og þess vegna fór þetta af stað. Bandarískir eigendur Liverpool og Manchester United sáu færi á græða meiri pening og þess vegna fór þessi bolti að rúlla og fékk að rúlla alltof langt.


Hetjurnar frá Paris og Þýskalandi

Margir hafa verið stoltir af Roman Abramovich fyrir að vera fyrsti eigandinn til þess að draga lið sitt út úr þessum skrípaleik sem Ofurdeildin var orðin. En málið er að þessi deild var andvana fædd því í hana vantaði þrjú lið. Tvö af þessum liðum eru með þeim allra stærstu í heiminum í dag og þessi deild hefði aldrei staðið undir nafni ef Paris St. Germain og FC Bayern hefðu ekki verið með í henni.


Hinir umdeildu eigendur PSG stóðu í lappirnar og létu ekki græðgina ráða för – enda eiga þeir ofboðslega mikla peninga fyrir. FC Bayern og Dortmund höfnuðu líka Ofurdeildinni en þar í landi eru liðin í 51% eigu stuðningsmanna. Forráðamenn Bayern og Dortmund vissu því alltaf að þeir myndu þurfa samþykki stuðningsmanna. Þýsk félög eru mjög tengd sínu grasrótarstarfi og mögulega kveiktu þeir fyrr á perunni hverslags feigðarför þessi Ofurdeild yrði.


Hvers vegna skipti Abramovich um skoðun?

Ef eitthvað er að marka fréttir dagsins þá var það hinn bandaríksi Bruce Buck sem hvatti Roman sjálfan til þess að endurskoða veru Chelsea í keppninni. Bruce Buck er mjög áhugaverður náungi, hefur búið lengi í London eftir að hafa byrjað ferilinn sem bankastarfsmaður hjá bandarískum fjárfestingabanka í London.

Ég persónulega held að mótmæli stuðningsmanna hafi skipt miklu máli, ekki bara fyrir utan Stamford Bridge heldur líka á samfélagsmiðlum.


Við verðum líka að hafa það í huga að Roman Abramovich þarf ekki þessa Ofurdeild. Chelsea er mjög vel sett fjárhagslega og Abramovich hefur aldrei leitast eftir því að taka hagnað út úr klúbbnum, ólíkt t.d. Man Utd og Liverpool. Í raun var það alveg stórkostlega heimskulegt af Roman að styðja þessa deild til þess eins að bjarga liðum eins og Barcelona, Inter og Real Madrid úr sínum skítamálum.


Er Roman hér með gefið gula spjaldið af ritstjórn CFC.is =)



Sigurvegarinn í þessu öllu saman er hinn slóvenski Aleksander Ceferin, forseti UEFA. Völd hans hafa aukist til muna eftir þessa uppákomu. Auk þess sem stjórnarformaður PSG, Nasser Al-Khelaifi, er núna orðinn formaður ECA (European Club Association), staða sem Andrea Agnelli hafði áður en Ofurdeildin fór af stað.


Yfirlýsingin Chelsea

Seint í gærkvöldi sendi Chelsea svo frá sér yfirlýsingu um að klúbburinn væri búinn að draga sig úr Ofurdeildinni. Mér persónulega fannt þessi yfirlýsing ekki upp á marga fiska. Það vantaði auðmýkt í hana og klúbburinn baðst ekki afsökunar á þessu líkt og t.d. Liverpool og Arsenal gerðu. Þeir koma því laumulega að, sem flestir vissu, að Chelsea hafi verið fyrsta liðið til að bakka út.


En skaðinn var skeður. Það er ákveðið traust farið og allt þetta mál skilur mann eftir með óbragð í munninum.



Hvað næst - verða einhverjar refsingar?

Sem betur mun þessi skrípaleikur gera það að verkum liðin munu ekki hætta sér út svona hugmyndir í bráð. Eini möguleikinn er að hafa stuðningsmennina og UEFA með sér um borð.


Hvað Chelsea varðar að þá hafa einhverjir kallað eftir því að breyting verði gerð á yfirstjórn félagsins og að forstjóri félagsins Guy Laurance fái sparkið og mögulega líka Bruce Buck.


Ég persónulega veit ekki með það – þessi ákvörðun var Abramovich. Allir sem fylgjast með Chelsea vita að það er hann, og hann einn, sem tekur ákvarðanir sem þessar. Ef hann sjálfur metur stöðuna þannig að raða þurfi sterkara fólki í stöður félagsins þá verður hann að taka á ákvörðun.


Það er orðrómur uppi um að liðinum 12 verði refsað með einhverskonar hætti, en við skulum bara bíða og sjá með það.


Brighton leikurinn og einkunnir leikmanna

Leikurinn gegn Brighton var mjög slakur sóknarlega. Ég ætla ekki að pirrast neitt alltof mikið út í liðið því fókusinn hjá leikmönnum var engan veginn á þessum leik. Það er bara þannig og Tuchel minntist á að bæði fyrir og eftir leik að undirbúningur fyrir leikinn hefði verið með versta móti, enda hefði hann ekki svarað einni spurningu um þennan leik á blaðamannafundum í kjölfar leiksins.


Þannig ég ætla ekki að vera of dómharður.


Einkunnir leikmanna


Kepa – 7,5

Maður leiksins. Hann reddaði okkur með frábærri markvörslu seint í leiknum og spilaði vel.


Zouma - 4

Var skelfilegur og gerði tvö slæm mistök í leiknum.


Christensen - 6

Spilaði hægra megin í vörninni sem mér finnst óskiljanlegt en átti þokkalegan leik.


Rudiger - 6

Var í smá basli undir lokin en komst ágætlega frá leiknum.


Jorginho – 5

Hefur verið frábær upp á síðkastið en virkaði þreyttur og svifaseinn í leiknum.


Mount – 5

Fann sig engan veginn í þessari varnarmiðjumanns stöðu og var slakur.


Alonso – 6

Var flatur í leiknum en gerði þó engin mistök.


Reece James - 5

Einhvernvegin tókst Dan Burn að vera með Reece í vasanum – sem er fáranlegt.


Ziyech – 6

Var flottur í fyrri hálfleik en týndur og tröllum gefin í þeim síðari.


Pulisic - 5

Mjög döpur frammistaða hjá Captain America sem virtist fljúga á hausinn í hvert skipti sem boltinn kom nálægt honum.


Havertz - 4

Úff hvað Havertz var slakur í þessum leik. Klúðraði einu dauðafæri sem hann fékk upp í hendurnar og létt svo Lewis Dunk éta sig trekk í trekk.


Hudson-Odoi – 7

Fáranlegt að láta hann ekki byrja þennan leik. Á að spila meira.


Werner – 6

Reyndi að berjast en náði sér ekki á strik.


Giroud – 6

Komst aldrei í takt við leikinn.


KTBFFH

- Jóhann Már Helgason

Comments


bottom of page