top of page
Search

Brighton vs Chelsea - Veislan hefst!

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Mánudagurinn 14. september kl. 19:15

Leikvangur: The American Express Community Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason



Jæja, lokins er biðin á enda! Biðin var kannski ekkert sérstaklega löng en eftirvæntingin hefur sjaldan verið meiri - Chelsea er með eitt mest spennandi lið í Evrópufótboltanum. Fyrsti leikur tímabilsins er gegn suðurstrandar drengjnum í Brighton & Hove Albion.


Chelsea

Sökum Covid-19 faraldursins hafa okkar menn aðeins leikið einn opinberan æfingaleik á þessu stutta undirbúningstímabili. Reyndar hefðu þeir örugglega orðið fleiri ef FIFA hefði nú bara sleppt því að hafa landsliðsverkefni í síðustu viku en það þýðir ekki að væla yfir því núna. Þessi eini æfingaleikur var jú gegn Brighton á AMEX vellinum og enduðu leikar 1-1. Það er því nokkuð erfitt að rýna í það hvernig Lampard mun stilla upp liðinu. Það sem við vitum er að Ben Chilwell og Hakim Ziyech eru meiddir ásamt Billy Gilmour. Mateo Kovacic tekur út leikbann eftir rauða spjaldið í bikarúrslitaleiknum gegn Arsenal og Thiago Silva mátti ekki byrja að æfa með liðinu fyrr en á laugardag sökum þess að hann var í sóttkví.


Miðað við þessi forföll ætla ég að veðja á að þetta verði liðið sem byrji á mánudagskvöld:

Bæði Cesar Azpilicueta og Christan Pulisic eru tæpir fyrir þennan leik en ég held að þeir munu báðir byrja. Kepa fær fyrsta leikinn í markinu, núna er að duga eða drepast fyrir hann. Captain Dave og Reece James verða bakverðir og ég veðja á Zouma og Rudiger í miðverðina. Ég held að Lampard muni halda áfram að spila með einn djúpan miðjumann og þar mun N´Golo Kanté ráða ríkjum og sitt hvoru megin við hann verða þeira Ruben Loftus-Cheek og Mason Mount. Frammi verða svo Christan Pulisic, Kai Havertz og Timo Werner.


Þetta er auðvitað bara gisk út í bláinn, vel má vera að Havertz byrji á bekknum enda stutt síðan hann kom, þá held ég að Tammy Abraham eða Hudson-Odoi komi í hans stað. Svo er alveg möguleiki að annað hvort Barkley eða Jorginho byrji á kostnað RLC. En þetta er nú stóri höfuðverkurinn hans Super Frank - hann á nóg af leikmönnum að velja úr!


Gengi Chelsea gegn Brighton hefur verið með miklum ágætum en þessi lið hafa aðeins mæst 11 sinnum í það heila. Chelsea hefur unnið 9 sinnum, gert eitt jafntefli og tapað einum leik en sá tapleikur kom 14. janúar 1933! Þannig sagan er með okkur. Hins vegar kom þessi eini jafnteflisleikur á síðastliðnum nýársdag þar sem Azpilcueta kom okkar mönnum yfir en Alireza Jahanbakhsh jafnaði metin eftir hjólhestarspyrnu.


Brighton Hove & Albion

Flestir þekkja nú orðið söguna af honum Graham Potter, stjóra Brighton. Að hann hafi farið með sænska C - deildarliðið Östersund upp um 3 deildir á þremur árum, gert þá að bikarmeisturum og komist alla leið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar. Mér finnst Potter frábær stjóri og nýt þess oft að horfa á Brighton spila fótbolta. Þeir eru með flott plan sem byggir á sterkri hugmyndafræði Potter. Brighton leggjast ekki alfarið í vörn gegn stærri liðum og vona það besta - þeir virkilega reyna að sækja á andstæðinginn.


Fyrsta tímabil Potter hjá Brighton var upp og niður, þeir enduðu að lokum í 15. sæti með 41 stig og voru í raun aldrei í neinni bráðri fallhættu sem var töluvert betur en árið á undan er þeir voru í fallhættu í lokaumferðinni og enduðu í 17. sæti.


Brighton hafa fengið til sín fimm nýja leikmenn í sumar en þeir hafa ekki kostað mikið, eða samtals um 3,5 milljónir punda. Þekktustu nöfnin í þessum hópi eru klárlega Adam Lallana sem kom frítt frá Liverpool og Joel Veltman sem er hollenskur landsliðsmaður og kemur frá Ajax. Þeir hafa aftur á móti ekki misst mikið heldur, Aaron Mooy fór til Kína og Shane Duffy var lánaður til Celtic. Brighton endurheimtu líka hinn stórefnilega Ben White til baka úr lání - hvet fólk til að fylgjast með honum.


Spá

Höfum eitt á hreinu, ekki einn einasti leikmaður Brighton (fyrir utan mögulega Matt Ryan) kæmist nálægt byrjunarliði Chelsea. Þannig að okkar menn eiga að geta landað þessum sigri þægilega í höfn ef þeir mæta bara til leiks með hausinn rétt skrúfaðan á. En það er svo spurning hvort Lampard hafi eitthvað náð að slípa til varnarleikinn á þessu stutta undirbúningstímabili - það verður að koma í ljós.


Annars er ég bara svo peppaður fyrir þessum leik að ég sé ekki neitt annað í kortunum en sannfærandi sigur! Ætla að henda í 3-1 sigur okkar manna. Werner kynnir sig leiks með tvennu og Tammy skorar eitt af bekknum.


Biðin styttist!


KTBFFH

Comments


bottom of page