top of page
Search

Huddersfield í heimsókn á Brúnni



Chelsea tekur á móti Huddersfield á Brúnni á morgun laugardag kl. 15.00. Leikurinn er ekki sýndur á Stöð 2 Sport en hægt er að sjá hann á Bein Sport 11 og NBC Sport. Síðasti leikur Ekki verður hjá því komist að byrja á að fjalla um síðasta leik gegn Bournemouth þótt mér sé það þvert um geð. Þetta miðvikudagskvöld í janúar 2019 upplifðum við Chelsea menn okkar stærsta tap í 23 ár eða síðan árið 1996 þegar við töpuðum 5-1 gegn ónefndu liði. Fyrri hálfleikurinn í þessum leik var ósköp hefðbundinn leikur eins og þeir hafa spilast í vetur gegn liði sem á að teljast lakara en okkar, við sóttum nánast stanslaust allan hálfleikinn án þess að skapa okkur nein teljandi færi ef frá er tekin skalli sem Kovacic átti í þverslá snemma leiks. Ef við náðum skoti á mark voru þau beint á markmanninn, nánast eins og æfingaboltar. Þetta leit sem sagt ekkert svo illa út, það hlytu að koma einhverjar opnanir í seinni hálfleik með sama áframhaldi. En það var nú öðru nær. Strax á 47. mín. náðu heimamenn forystu eftir varnarmistök og eftir það var ekki aftur snúðið. Við héldum áfram að sækja en hver mistökin á fætur öðrum litu dagsins ljós og niðurlægingin var fullkomnuð á lokamínútu leiksins með skallamarki eftir aukaspyrnu, 4-0 tap staðreynd. Eftir leikinn hélt Sarri leikmönnum inni í klefa í 50 mín og fékk enginn af aðstoðarmönnum hans að vera viðstaddur, ekki einu sinni Zola og kallinn sleppti því síðan að fara með rútunni heim, fékk í staðinn far með bíl til að geta greint leikinn. Á blaðamannafundinum voru sömu svör gefin og í slæmu tapleikjunum gegn Tottenham og Arsenal, liðið bugast við það að lenda undir og leikmenn missa hausinn og hafa ekki andlegan styrk til að koma til baka. Á blaðamannafundinum í dag var Sarri síðan spurður um hvort hann hyggðist breyta eitthvað til, t.d. setja Kante í sína uppáhaldsstöðu o.s.frv. En svörin voru þau sömu, það er ekkert plan B, það er bara plan A og því verður haldið áfram sama hvað tautar og raular. Nú er það bara spurningin hverslu þolimæði stjórnar klúbbsins er mikil ef hlutirnir fara ekki að breytast með þessu plani A. Það er mörgum í fersku minni þegar Scolari var rekinn, en það gerðist í 2. viku febrúar árið 2009 en þá var Chelsea í 3. sæti deildarinnar með einu stigi meira en liðið er núna. Við getum því búist við öllu eins og við vitum. Ég vona samt að menn grípi ekki til örþrifaráða strax og vil að Sarri fái meiri tíma, en það er ljóst að eitthvað þarf að breytast því eftir þennan leik gegn Huddersfield tekur við strangt og erfitt leikjaprógram gegn sterkustu liðum deildarinnar auk leikjanna við Malmö.

Huddersfield Lið Huddersfield er í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig eftir 24 leiki og markatöluna 13-41, sem sagt lang lakasta lið deildarinnar. Þeir eru nýbúnir að skipta um stjóra, þjóðverjinn Wagner gafst upp, var ekki beint rekinn, og annar þjóðverji Siewert var ráðinn í staðinn, en hann var áður aðstjoðarþjálfari hjá Dortmund. Þeir eru búnir að leika einn leik undir hans stjórn gegn Everton heima sem tapaðist 0-1 en talað var um að talsverð batamerki hafi verið á leik liðsins m.a. vegna þess að besti maður liðsins Aaron Mooy lék sinn fyrsta leik á ný eftir meiðsli.

Chelsea Í ljósi reynslunnar er ekki að vænta mikilla breytinga á liðinu fyrir leikinn á morgun, Sarri hefur yfirleitt litlu breytt eftir slæma tapleiki, þvert á móti hafa sömu leikmenn fengið tækifæri til að hreinsa upp eftir sig. Það er því líklegt að liðið verði svipað og verið hefur í leikjum Úrvalsdeildarinnar. Ég ætla þó að vona að það verði einhverjar breytingar enda full ástæða til. Þeir sem mætti hvíla að mínu mati eru a.m.k. þessir: Emerson fékk tækifærið gegn Bournemouth en féll á prófinu. Luiz breyttist í gamla martraðar Luiz og fær vonandi að hvíla sig. Jorginho átti enn einn slæma daginn. Kovacic virðist bara vera meðalmaður sem getur ekki einu sinni skotið á markið og fær vonadi frí. Að lokum átti Petro einn af sínum off dögum. Ekki það að hinir hafi verið eitthvað mikið skárri, en ég ákvað að nefna þessa sérstkalega. Leikmenn sem mér finnst að verði að fá að byrja þennan leik eru Loftus-Cheek og Hudson-Odoi og ætla að leyfa mér að spá því að Sarri verði sammála mér að þessu sinni: Því spái ég liðinu svona:


Ég persónulega myndi stilla liðinu öðru vísi upp, t.d. gefa Jorginho frí og kannski einhverjum fleirum en mér finnst þetta líklegasta niðurstaðan. Það verður mikilvægt að svara þessari skitu almennilega, koma Hazard aftur í gang, hann var nota bene afleitur í síðasta leik og fara að fóðra Higuain á færum, hann kemur til með að nýta þau flest en hann hefur engin færi fengið í þessum tveimur leikjum sem hann hefur spilað. Ætla að spá þessu leik 3-0 og vona að Higuain skori a.m.k. eitt mark.


bottom of page