top of page
Search

Chelsea vs Liverpool Part II


Seinni leikurinn í tvíhöfðanum gegn Liverpool fer fram á morgun (laugardag) á Stamford Bridge. Leikurinn hefst kl 16:30.

Síðasti leikur

Chelsea gerði sér lítið fyrir og sló Liverpool út úr Carabao deildarbikarnum og það á Anfield. Fyrir leikinn gerði Maurizio Sarri átta breytingar á byrjunarliðinu og var gaman að sjá leikmenn eins og Emerson, Cahill og Moses fá mínútur þó flestir hefðu viljað sjá Hudson-Odoi byrja leikinn.

Chelsea byrjaði leikinn á Anfield mjög vel og var Cesc Fabregas í banastuði en hann lék í stöðu Jorginho sem aftasti maður á miðjunni. Fabregas stýrði "tempóinu" í leiknum gríðarlega vel og tókst Chelsea að skapa sér nokkur góð færi. Liverpool óx hins vegar inn í leikinn og áður en flautað var til hálfleiks voru heimamenn búnir að ná góðum tökum á leiknum.

Liverpool kom á fullum krafti inn í seinni hálfleikinn, pressuðu okkar menn stíft og fengu tvö færi á silfurfati. Fyrst eftir mistök frá Christensen og síðar Barkely en báðir gerðust sekir um slakar sendingar til baka sem Daniel Sturridge komst inn í en mistókst að skora. Willy Caballero sýndi að hann er ekki dauður úr öllum æðum og var heilt yfir frábær í leiknum. Sturridge tókst að lokum að bæta upp fyrir klúðrin sín er hann kom Liverpool yfir á 58' mínútu - á þessum tíma stóð ekki steinn yfir steini í spilamennsku okkar manna.


Sarri brást við og setti Kanté inn á fyrir Kovacic til að þétta miðjuna en skömmu áður hafði Hazard komið inn fyrir Willian. Það vakti svo töluverða undrun þegar Sarri notaði þriðju breytinguna til að setja David Luiz inn fyrir Christensen en eftir leikinn kom það í ljós að Daninn hafði kastað upp í hálfleik og var greinilega ekki upp á sitt besta. Luiz kom með kraft og grimmd í vörnina, eitthvað sem hafði hreinlega vantað - eftir 1 mínútu var hann búinn að brjóta á Shaqiri og öskra hressilega á alla samherja sína. Með þessum breytingum vann Chelsea sig inn í leikinn, tókst að halda betur í boltann og færa liðið ofar á völlinn. Chelsea jafnaði svo metin þegar Emerson fylgdi eftir góðum skalla frá Barkley - fyrsta mark Emerson fyrir Chelsea, ekki amalegt að skora það á Anfield. Áfram var jafnræði með liðunum en á 84' mínútu tók besti leikmaður ensku Úrvalsdeildarinnar til sinna ráða: Eden Hazard fékk boltann á miðjum vallarhelmingi Liverpool og eftir að hafa klobbað bæði Firmino og Moreno og farið framhjá Naby Keita tvisvar sinnum í sama hlaupinu afgreiddi hann boltann stórglæsilega í fjær hornið framhjá Mignolet í markinu. Orð fá þessu marki varla lýst - það þarf bara að horfa á það, aftur og aftur og aftur. Leikurinn fjaraði svo út, frábær sigur á Anfield.

Chelsea

Þessi síðasti leikur gaf Sarri ákveðin svör um standið á leikmannahópnum. Fyrir mér var hvað áhugaverðast að sjá Fabregas spila í stöðu Jorginho. Í fyrri hálfleik var Fabregas frábær og hann kemur klárlega með öðruvísi sendingargetu inn í leik liðsins sem mun nýtast okkur þegar Chelsea þarf að brjóta niður sterkar varnir. Það er hins vegar augljóst að hann vantar töluvert upp á varnarleikinn og þá aðallega staðsetningarnar. Það sem gerir Jorginho í raun einstakan er hvernig hann bindur saman svæðið á milli miðju og varnar og stýrir því hversu hátt varnarlínan á að stíga upp eða hversu hátt hinir miðjumennirnir tveir eiga að fara í pressu - vonandi koma þessir þættir inn í leik Fabregas og þá erum við komnir með stórgóða breidd í þessa mikilvægu stöðu.

Ég spái byrjunarliði Chelsea svona:


Ef liðið yrði með þessum hætti væru þetta aftur átta breytingar á milli leikja en það er vissulega nokkrir óvissuþættir. Til að byrja með er Rudiger tæpur vegna meiðsla en Sarri staðfesti á blaðamannafundi í dag að hann hefði æft eðlilega og yrði metinn á leikdegi. Sömu sögu er að segja um Pedro og Christensen - þeir æfðu báðir en ég veðja á að Willian byrji leikinn og Pedro verði öflugt vopn af bekknum ásamt Fabregas.

Andstæðingurinn

Ég fékk einn eldrauðan stuðningsmann Liverpool, Vigni Örn Hafþórsson að nafni, til þess að segja nokkur orð um sitt lið og spá fyrir um bæði leikinn og byrjunarliðið:

Klopp mun líkt og Sarri gera margar breytingar frá bikarleiknum á miðvikudag. Vörnin í þeim leik var ágætis upprifjun á því hversu miklar framfarir hafa orðið á vörninni hjá Liverpool á einu ári, en þessir öftustu fjórir, Mignolet, Clyne, Matip, Lovren og Moreno greyið sem dreymir Hazard örugglega fram yfir fyrsta í aðventu, voru byrjunarliðsmenn liðsins þá. Alisson, Robertson, Trent, Gomez og vonandi Virgil munu manna vörnina í þetta skipti og mun Trent væntanlega fá það verkefni að gæta Hazard.Leikstíll Liverpool krefst mikils af bakvörðunum en Trent mun ekki geta sótt jafn hátt og hann er vanur, en hann sýndi það í leiknum á móti PSG þegar hann átti stórleik gegn Mbappé að hann hefur þroskann til að halda haus gegn heimsklassa leikmönnum.


Virgil hefur byrjað alla leiki í deildinni og hef ég fulla trú á að hann nái leiknum og muni leikstýra Gomez í miðverðinum. Á miðjunni spái ég að Henderson verði aftastur með Wijnaldum og "Hames" Milner fyrir framan sig og að Milner muni fá það verkefni að herja á Jorginho. Frammi eru svo auðvitað Mané, Salah og Firmino. Ég spái því að þetta verði ekki markaleikur og að bæði lið spili varfærnislega. Fyrir Liverpool skiptir mestu máli að Virgil verði með og leiði vörnina og fyrir Chelsea að Hazard skapi nóg, því hin annars frábæra miðja Chelsea getur verið nokkuð þung með þá Jorginho, Kanté og Kovacic. Chelsea mun vera meira með boltann, en Liverpool mun fara með sigur af hólmi 0-1 þar sem Mané skorar sigurmarkið.

Spá

Þessi leikur veður stærsta próf Sarri hingað til. Vörn Chelsea hefur á köflum litið út fyrir að vera brothætt og núna mætum við einu besta sóknarliði Evrópu. Það verður að hrósa þeim framförum sem Jurgen Klopp hefur náð fram hjá Liverpool á undanförnum árum, auðvitað þurfti hann að brjóta odd af oflæti sínu og kaupa alvöru leikmenn á alvöru pening en öll stórlið eru að eyða risafjárhæðum þessa dagana. Klopp hefur haldið áfram að þróa leik Liverpool og allt liðið er orðið mun þroskaðara en áður. Besti vitnisburðurinn um þessi framfaraskref er 2-1 sigur liðsins á Tottenham en í þeim leik sást bersýnilega sá agi sem liðið hefur tamið sér og leikstíllinn hefur farið úr því að vera í sífelldri hápressu yfir í að vera með klókari og skynsamari nálgun með því að beita pressunni betur og á réttum augnablikum í leikjum. Ef Mo Salah er besti leikmaður Liverpool er Virgil van Dijk klárlega sá mikilvægasti. Með tilkomu van Dijk virðist svo liðið vera hætt að fá á sig ódýr mörk.

Það sem hræðir mig við þennan leik er að Liverpool virðast þrífast hvað best á því að spila gegn liðum sem vilja stjórna leikjum og verjast hátt uppi á vellinum. Með allt þetta pláss fyrir aftan okkur eru leikmenn eins og Salah og Mané hvað hættulegastir. Sem dæmi má Marcos Alonso ekki skilja eftir allt þetta pláss fyrir aftan sig á vinstri vængnum nema vera handviss um að einhver sé kominn í hans stað um leið og hann leggur af stað - Chelsea þurfa að vera agaðir.

Ef okkar mönnum tekst að vera skynsamir á boltann og gera ekki mistök sem leiða til skyndisókna á Chelsea fullan séns á að fá eitthvað úr þessum leik, tala nú ekki um ef Hazard ákveður að vera í sínu bestu formi - þá getum við unnið öll lið. Það þarf hins vegar allt að ganga upp og ég tel að Chelsea megi alls ekki lenda undir, þó það hafi gengið eftir sl. miðvikudag er ég nokkuð viss um að Salah og co. nýti færin sín betur í þetta skiptið.

Chelsea hjartað mitt segir að þessi leikur fari 2-0 fyrir okkar mönnum en heilinn spáir 1-2 sigri Liverpool. Ég ætla því að fara milli veginn og spá 1-1 jafntefli í háspennuleik.

KTBFFH


bottom of page