top of page
Search

Conte, Sarri og leikmannakaup


Á fimmtudaginn í síðustu viku lét Chelsea loksins til skarar skríða í þjálfaramálum sínum. Antonio Conte var rekinn og heimasíða Chelsea eyddi heilum 63 orðum í þá fréttatilkynningu - meira að segja Scholari fékk fleiri orð en það! Tveimur dögum síðar var svo tilkynnt um versta leyndarmál fótbolta heimsins er Maurizio Sarri var tilkynntur sem nýr þjálfari liðsins.


Allur þessi viðskilnaður við Conte og það hversu langan tíma það tók að klára þessi mál er virkilega ófagmannlegur. Að Conte hafi verið látinn hefja undirbúningstímabilið er ekkert minna en slæmur farsi. Matt Law hjá Telegraph skrifaði áhugaverða grein sem ég hvet alla til að lesa. Hægt er nálgast hana hér. Hún fjallar um það sem raunverulega gekk á hjá Conte og Chelsea á síðasta tímabili. Conte á að hafa verið verulega fúll yfir því að fá ekki að kaupa þá leikmenn sem hann taldi nauðsynlega til að taka liðið áfram í Meistaradeild Evrópu. Þetta voru kappar eins og van Dijk, Lukaku, Alex Sandro og Aexis Sanchez. Í staðinn fékk hann menn eins og Drinkwater, Rudiger, Zappacosta, Bakayoko og Morata. Enginn þeirra stóð undir væntingum nema mögulega Rudiger sem sýndi fína takta.

Conte eyðilagði mikið fyrir sjálfum sér með hegðuninni í Diego Costa málinu og oft á tíðum sást það á honum hversu ótrúlega óhamingjusamur hann var í starfi sínu hjá Chelsea. Ég vil hins vegar líta á tímann hans Conte hjá Chelsea sem vel lukkaðan. Tímabilið 2016/17 framkvæmdi Conte í raun og veru kraftaverk. Rosalega fáir höfðu trú á því að Chelsea myndi vinna deildina það tímabilið eftir hið hörmulega tímabil árið á undan þar sem liðið endaði í 10. sæti. Conte lét verkin tala, innleiddi þriggja miðvarða varnarlínu og vann deildina í raun og veru sannfærandi. Eins ótrúlega og það hljómar hafa 18 af 20 liðum í ensku Úrvalsdeildinni byrjað leik með þrjá miðverði í anda Conte - ætli það sé ekki arfleið Conte í ensku deildinni. Að einhverju leiti má segja að Conte hafi verið fórnarlamb eigin árangurs hjá Chelsea, hann er alla vega hörku þjálfari sem mun halda áfram að vinna titla með öðrum liðum. #GratziAntonio


Maurizio Sarri

Það eru ekki alltof margir sem vissu hver Maurizio Sarri var fyrir 3 árum. Þá tók kappinn við Napoli eftir að hafa verið þjálfari Empoli í þrjú ár. Þessi 59 ára gamli keðjureykingamaður byrjaði ekki að þjálfa af neinu viti fyrr en hann var orðinn fertugur. Fram að því starfaði hann í banka sem heitir Monte dei Paschi di Siena, þar fékkst okkar maður við fyrirtækjaráðgjöf og ferðaðist mikið, m.a. til London og Luxemburg. Þar lærði Sarri að tala örlitla ensku, eitthvað sem gagnast honum hjá Chelsea. Eins og fyrr segir er þjálfaraferill Sarri mjög óvenjulegur eins og sést á þessari mynd:


Þetta er talsvert mikið neðrideildar bröllt og höfum í huga að það er ekki fyrr en um aldarmótin að hann byrjar að þjálfa á einhverju alvöru "leveli" þar sem störfin fram að því voru mörg hver á unglinga- eða áhugamanna stigi. Sarri slær svo í gegn er hann er ráðinn til Empoli árið 2012. Empoli voru þá í Seria B og hann gerði sér lítið fyrir og kom liðinu upp í Seriu A á sínu örðu tímabili. Flestir gerði ráð fyrir stuttu stoppi Empoli og félaga í deild þeirra bestu á Ítalíu en aftur kom Sarri á óvart og stýrði Empoli til 15. sætis í Seriu A, árangur sem var nokkuð góður þar sem bókstaflega allir spáðu þeim falli enda Empoli lítið félag með mjög takmarkaðann fjárhag. Það sem var ennþá merkilegra við þetta allt saman var fótboltinn sem Empoli var að spila. Sarri lét þá spila sókndjarfann hápressu fótbolta og skipti engu þó þeir væru að mæta Juventus á útivelli - alltaf hélt Empoli í sín fótboltalegu gildi. Fyrir þetta fékk Sarri mikið lof.

Þessi fíni árangur gerði það að verkum að Napoli réði Sarri til starfa árið 2015. Sarri er uppalinn í Napoli og var þetta því draumur að rætast hjá okkar manni. Hjá Napoli gerði Sarri frábæra hluti. Á þeim þremur árum sem hann var þar við stjórnvölinn sló hann stigamet félagins á hverju einasta ári og kom liðinu undantekningalaust í Meistaradeildina. Á síðasta tímabili voru Napoli hársbreidd frá því að vinna Scudetto titilinn sögufræga, nædu sér í 91 stig en þurftu að láta í minni pokann fyrir Juventus sem fengu 95 stig. Eins og flestir vita er Juventus í sérflokki á Ítalíu um þessar mundir og hafa unnið titilinn undanfarin sjö tímabil. Lið Juve er mun dýrara en Napoli því er árangur Sarri eftirtektarverður.

Það sem gerir þú Sarri að svona áhugaverðum kosti er hversu ótrúlega fallegan fótbolta hann lætur lið sín spila. Hjá Napoli þróaði hann áfram sinn eigin stíl sem núna hefur fengið nafnið "Sarri-Ball". Segja má að sá leikstíll sé mjög innblásinn af "tiki-taka" fótbolta Pep Guardiola, varnarlínan spilar hátt uppi á vellinum, liðið reynir að pressa andstæðinginn eftir fremsta megni og vill halda boltanum eins mikið og mögulegt er. Sarri vill að sín lið stýri leiknum. Undir öllum kringustæðum er spilað stutt úr vörninni og skiptir litlu þó andstæðingurinn mæti í maður á mann pressu við útspark hjá markmanni - menn skulu bara spjara sig. Helsti munur Sarri og leikstíls Pep er sá að hann er ögn beinskeyttari og vill að sínir menn, sérstaklega miðjumennirnir, finni sendingaleiðir fram á við. Hér er frábært myndband af Youtube sem útskýrir taktík Sarri mjög vel.

Ég hef orðið var við að margir eru að tjá sig um Sarri og virðast stimpla hann sem gamlan Ítala sem vill bara reykja sígarettur og blása til sóknar í hverjum leik. Sumir eru líka verulega uppteknir af því að hann hafi aldrei unnið titil. Þessi nálgun byggir á fáfræði. Ég vil benda á að Sarri er algerlega fanatískur fótboltaáhugamaður. Hann var einn af þeim fyrstu sem byrjaði að notast við dróna við þjálfun, gerði það bæði hjá Empoli og Napoli. Hann er mjög tæknivæddur og hefur sjálfur talað um að reynsla sín úr bankageiranum veiti honum einstaka innsýn er varðar skipulag og verkferla. Hann hefur einnig einstakt lag á að gera góða menn ennþá betri og nægir þar að nefna leikmenn eins og Jorginho, Mertens og Insigne - sem allir tóku miklum framförum undir handleiðslu Sarri.

Leikmannakaup

Svo að Sarri geti fengið að spila sinn "Sarri-Ball" er bráðnauðsynlegt að hann hafi leikmenn sem eru öruggir á boltann og geti spilað stutt sín á milli. Þetta útskýrir kaupin á ítalskt/brasilíska Jorginho. Hann spilar sem djúpur miðjumaður en er í raun leikstjórnandi sem stýrir spilinu aftarlega á vellinum (e. deep lying playmaker). Aðeins Marco Veratti átti fleiri heppnaðar sendingar en hann í evrópuboltanum á síðasta tímabili - öll sóknaruppbygging Chelsea mun fara í gegnum Jorginho. Kappinn verður dýrasti miðjumaður sem Chelsea hefur keypt og næst dýrasti leikmaður liðsins frá upphafi. Það sem gerir þessi kaup skemmtileg er sú staðreynd að Chelsea tókst að stela honum undan nefninu á Man City sem héldu að þeir væru búnir að tryggja sé þjónustu Jorginho.

Það er mikið slúðrað um Chelsea þessa dagana. Þeir leikmenn sem eru orðaðir frá félaginu eru Thibaut Courtois og Eden Hazard. Chelsea virðist ætla að gera allt sem þeir geta til þess að halda í Hazard en Courtois virðist vera á förum svo framarlega sem Chelsea tekst að kaupa annan markmann í góðum gæðaflokki. Sá markmaður verður alla vega ekki Alisson, en hann var keyptur til Liverpool fyrir metfá. Gianluigi Donnarumma, ungstirni AC Milan, er nefndur sem mögulegur aftaki ásamt Kasper Schmeichel og jafnvel Petr Cech (!!!).

Þeir leikmenn sem eru sterklega orðaðir til félagsins eru þeir Aleksandr Golovin, sem sló í gegn á HM með Rússum og Danielle Rugani. Báðir falla þeir vel að leikstíl Sarri og spilaði Rugani undir leiðsögn Sarri hjá Empoli. Ef kaupin á Rugani yrðu að veruleika er ansi líklegt að annað hvort Gary Cahill eða David Luiz munu yfirgefa félagið enda nokkuð ljóst að Sarri mun aðeins spila með tvo miðverði og því orðið ansi þröngt á þingi í þeirri stöðu.

Það sama má segja um Golovin, ef kaupin á honum ganga eftir er Chelsea búið að kaupa tvo miðjumenn auk þess sem Ruben Loftus-Cheek mun snúa til baka úr láni. Það liggur því í augum uppi Chelsea þarf að selja eða lána leikmenn eins og Drinkwater, Barkley eða jafnvel Bakayoko.

Að lokum er svo vert að minnast á mjög þaulsetinn orðróm um möguleg kaup Chelsea á Gonzalo Higuain. Fyrir tveimur árum hefði ég eflaust hoppað hæð mína af kæti yfir þessum fregnum en núna er ég ekki svo viss. Vissulega áttu Sarri og Higuain farsælt ár saman hjá Napoli þar sem sá argentíski sló markametið í Seriu A og var keyptur til Juventus á tæpar 90 milljónir evra. En síðan þá hefur hann einfaldlega dalað og skoraði aðeins 16 mörk í Seriu A á síðasta tímabili - þar af nokkur úr vítum. Það er ekki gott skor sem aðalmarkaskorari yfirburðaliðs sem fékk 95 stig og skoraði 86 mörk í 38 leikjum. Hann verður líka bráðlega 31 árs og því er hann alger skammtímalausn. Ég vil frekar sjá Sarri vinna með núverandi framherja tríó, þá Morata, Giroud og Batshuahyi og gefa þeim tækifæri.

Það er alla vega nóg að gerast hjá okkur mönnum, svo mikið er víst!

KTBFFH


bottom of page