top of page
Search

Tottenham og ónýtir leikmannagluggar


Chelsea tekur á móti Tottenham í stórleik 32. umferðar ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikurinn er á nk. sunnudag, sjálfan Páskadag, kl 15:00.

Chelsea vs. Antonio Conte

Þessi pistill verður ekki alveg hefðbundinn upphitun því ég ætla að byrja á að fjalla um þá spurningu sem margir hafa verið að spyrja sig að, er yfirstjórn Chelsea að styðja nægilega við bakið á Antonio Conte?

Það er frekar flókið að svara þessari spurningu með einföldum hætti. Það er ekkert leyndarmál að Conte er ekki sáttur við þann stuðning sem hann hefur fengið svo það er greinilegt að það hefur gengið á ýmsu bakvið tjöldinn. Ef við skoðum þetta bara út frá tölum og berum svo þær tölur saman við stærstu keppninautana okkar er möguleiki að geta málað upp einhverskonar mynd af stöðunni og taka afstöðu til þess hvort Chelsea styðji nægilega vel við Conte.

Hér að neðan eru þrjár töflur þar sem rekstartekjur, leikmannakaup og leikmannasölur Chelsea, Man City og Man Utd eru skoðaðar allt aftur til ársins 2011. Út úr þessum töflum er svo hægt að sjá hlutfall nettó eyðslu af heildartekjum félagsins. Þannig er í raun hægt að sjá hversu miklu fjárhagslegu púðri yfirstjórnir liðanna eru að eyða í leikmannakaup. Ástæðan fyrir því að ég ber okkur saman við Man City og Man Utd er þau lið hafa verið að eyða hvað mestum fjárhæðum undanfarin ár en Chelsea var lengi vel þar í efsta sæti. Til einföldunar hafa tölurnar verið námundaðar.
Til að útskýra aðeins hvernig fjármál þessarar félaga virka að þá eru þau ekki í hefðbundnu uppgjöri líkt og flest fyrirtæki. Rekstarárið þeirra nær frá tímabili til tímabils, það er 1. júní - 31. maí. Þannig er sumarglugginn 2017 inni í rekstarárinu 2017-2018.

Það sem er áhugaverðast að skoða eru aftasti dálkurinn á hverri mynd, Nettó eyðsla af tekjum %. Þar er, svart á hvítu, það hlutfall sem liðin eru að setja í leikmannakaup. Það mesta sem Chelsea hefur sett í leikmannakaup á þessu tímabili er árið 2011, samtals 37,39% - Það ár keyptum við Fernando Torres í janúarglugganum. Það sem er hins vegar nokkuð sjokkerandi er að árin 2015 og 2016 var liðið að setja afskaplega lítið púður í leikmannakaupin þar sem stefnan var nokkuvegin sú að einn leikmaður fer og annar kemur í staðinn (e. one in, one out rule).

Ef þessar tölur eru skoðaðar út frá Antonio Conte að þá getur hann eiginlega ekki kvartað mikið yfir þeim upphæðum sem Roman og co. hafa verið setja í liðið. Litlar breytingar voru á liðinu 2016/17 en hann fékk þó mun meiri fjárhagslegan stuðning en Mourinho hafði fengið árin tvö á undan. Chelsea er samt langt frá því að vera með eins tölur og Man City.

Síðustu tveir leikmannagluggar hafa í raun bara verið misheppnaðir. Chelsea næstum tvöfaldar þá upphæð sem þeir hafa mest látið í liðið á undanförnum árum eða 240 milljónir punda og selja fyrir 160 milljónir punda. Þrátt fyrir þessar háu fjárhæðir eru flestir sammála um að liðið er mun veikara en það á síðasta tímabili, munar þar mest um Diego Costa og Nemanja Matic.

Hver ber ábyrgðina?

Sumir benda á yfirstjórnina og aðrir benda á Conte. Það er ekkert leyndarmál að Conte hefur ekki fengið sín helstu skotmörk uppfyllt. Hann vildi Alex Sandro og Kyle Walker í vænbakverðina og Virgil van Dijk í miðvörðinn - stjórnin mat alla þessa leikmenn of dýra og keypti þess í stað menn eins og Emerson og Rudiger frá Roma og Zappacosta frá Torino.

Mesta bullið er svo þessi leikflétta okkar á miðjunni. Þar lánum við Ruben Loftus-Cheek til Palace, seljum Chalobah á skít og kanil til Watford og seljum svo Nemanja Matic til Man Utd. Í staðinn koma tveir leikmenn, Bakayoko og Drinkwater - hvorugur hefur réttlætt tilveru sína í treyju Chelsea. Þrír leikmenn út á samtals 45 milljónir punda og tveir leikmenn koma inn á samtals 70 milljónir punda - hér er bara verið að brenna peningum og taka slæmar ákvarðanir.

Conte hefur sagt opinberlega að hann hafi ekki viljað selja Matic. Líklega hefur Matic sjálfur viljað fara svo það er erfitt kenna einhverjum um það, það hefði samt mátt selja hann til Juve frekar en Man Utd.

Mestu mistök Conte eru svo alltaf hvernig hann meðhöndlaði Diego Costa málið. Það klúður liggur alfarið hjá honum og hefur veikt liðið okkar gríðarlega, Alvaro Morata kemst ekki nálægt því getustigi sem Costa var að spila á í fyrra.

Mín niðurstaða er sú að sumar- og vetrarglugginn á þessu tímabili voru glötuð tækifæri til þess að styrkja lið sem var á réttri leið. Það hefði aldrei átt að selja Chalobah, bara leyfa honum að renna út á samning og freista þess að semja við hann á núverandi tímabili. Það hefði heldur ekki átt að lána RLC. Þannig hefðum við getað sleppt því að kaupa Drinkwater.

Svo hefði bara átt að sleppa því að kaupa bæði Emerson og Zappacosta og kaupa þess í stað Alex Sandro og gefa ungum leikmanni eins og Dujon Sterling alvöru tækifæri í leikmannahópnum. Að lokum hefði svo átt að halda Diego Costa og kaupa samt Alvaro Morata - það hefði verið geggjað! Þá hefði Chelsea haft raunverulega samkeppni í flestar stöður á vellinum og fjárhagurinn væri nokkurveginn sá sami.

Ég held að ábyrgðin á þessum leikmannakaupum liggi fyrst og síðast hjá yfirstjórninni, ekki Antonio Conte. Skipurit félagsins er þannig sett upp að Conte er ekki "manager" heldur "Head Coach" - mig grunar að þetta fari alltaf meira og meira í taugarnar á Conte þ.e. að fá ekki að hafa meira vald í þessum efnum en raun ber vitni.

Chelsea er ekki lengur "risi" á leikmannamarkaðnum

Það er tvennt annað sem er áhugavert að benda á töflunum hér að ofan. Hið fyrra er að tekjur Chelsea eru einfaldlega mun minni en hjá Man Utd og bilið milli okkar og Man City virðist einnig vera að aukast. Þannig þegar lið eins og Man City og Man Utd eru hlutfallslega að eyða hærri hlut af hærri tekjum til að styrkja leikmannahópa sína mun það aðeins enda á einn veg - við munum dragast aftur úr. Man City eru td mjög miskunarlausir á markaðnum, virðast geta leyft sér að eyða 35% af heildartekjum í nettó leikmannakaup ár eftir ár. Hvað eru þeir að gera öðruvísi en við?

Hitt er svo sú staðreynd að á undanförnum 5 árum hafa þessi þrjú lið eytt eftirtöldum upphæðum í nettó leikmannakaup:

Man City ca. 563 milljónir punda

Man Utd ca. 466 milljónir punda

Chelsea ca. 195 milljónir punda

Í raun má hrósa forráðamönnum Chelsea í hástert að hafa unnið tvo meistaratitla á þessum undanförnum fimm árum á meðan Man Utd hefur í raun ekki verið nálægt því. Fyrir mér sýna þessar tölur fyrst og fremst að Chelsea er ekki lengur neitt risaveldi í fjárhagslegum skilningi í ensku Úrvalsdeildinni.

Leikurinn gegn Tottenham

Chelsea á eftir að spila 8 leiki í ensku Úrvalsdeildinni. Conte hefur sjálfur sagt að eigi meistaradeildarsæti að nást þurfi að sigra alla þá leiki sem eftir eru. Það verður því athyglisvert að sjá upplegg okkar manna, verður bakkað í vörn eða munum við keyra á Tottenham.

Tottenham verður að öllum líkindum án síns besta leikmanns, Harry Kane. Það munar um minna, þetta er líklega einn besti framherji heims í dag. Það má samt ekki láta blekkjast Tottenham er það lið sem spilar einn besta fótboltann á Englandi í dag og eru líklega best þjálfaða liðið ásamt Man City. Undir stjórn Pochettino er liðið með gríðarlega mikið jafnvægi í sókn og vörn. Hápressan þeirra er ein sú flottasta í Evrópu og sóknarleikur þeirra einkennist mjög flottu uppspili í gegnum miðjuna þar sem bakverðirnir koma mjög hátt upp á völlinn og tryggja liðinu beidd í sókninni. Christan Eriksen, Dele Alli, Son og Eric Lamela munu líklega bera ábyrgð á sóknarleiknum gegn Chelsea og það verður hægara sagt en gert að stoppa þá.

Hvar varðar Chelsea að þá eru það þessar klassíku spurningar, mun Morata halda áfram að fá traustið á kostnað Giroud, hver mun vera með Kanté á miðjunni og mun Rudiger verða tekinn fram yfir Gary Cahill?

Þeir félagar okkar á heimasíðunni We aint got no history (WAGN) spá byrjunarliðunum svona og er ég nokkuð sammála þeim:


Bakayoko gerði sjálfum sér engan greiða gegn Leicester í bikarnum, spurningin er því hvort Fabregas sé treystandi gegn miðju sem er jafn léttleikandi og miðjan hjá Spurs? Ég persónulega myndi alltaf velja Fabregas en látum okkur ekki bregða ef Bakayoko eða Drinkwater byrji leikinn.

Ef Chelsea vinnur þennan leik erum við aftur komnir inn í þessa baráttu um sæti Meistaradeildinni. Ef hann tapast, þá eru við komnir á vondan stað - það er því allt að vinna, jafntefli gerir líka lítið fyrir okkur. Eins furðulega og það kann að hljóma að þá vonast ég til þess að Chelsea nálgist leikinn á svipaðan hátt og seinni leikinn gegn Barcelona, þar sem okkar menn gáfu allt í sóknarleikinn en töpuðu svo að lokum sannfærandi. Með örlítilli heppni og gegn veikari andstæðingi væri gaman að sjá sömu nálgun aftur.

Að lokum, Spurs hafa ekki unnið Stamford Bridge síðan 1990 - við skulum ekki vera breyta þeirri góðu hefð núna!

KTBFFH


bottom of page