top of page
Search

Upphitun gegn Luton - Er Roman að selja Chelsea?

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Miðvikudagurinn 2. mars 2022, klukkan 19:15

Leikvangur: Kenilworth Road

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Eftir tap í spennuþrungnum úrslitsleik um Carabao bikarinn þurfa okkar menn að rífa sig í gang aftur, það þýðir ekki að dvelja við svekkelsið, því það er leikur gegn Luton í FA bikarnum í kvöld.


Ég ætla ekki að eyða of mörgum orðum í leikinn gegn Liverpool. Þessi leikur var afskaplega vel leikinn af okkar hálfu, sköpuðum góð marktækifæri, vörðumst vel en töpuðum svo í vító. Það er hægt að þrasa endalaust um "Kepa-ákvörðunina", það er Tuchel sem ræður þessu og þetta gekk ekki upp að þessu sinni. Ég ítreka þó að liðið gat gengið af velli með höfuðið hátt, Thiago Silva var frábær, Kai Havertz var mjög góður, Kovacic og Kante geggjaðir á miðjunni og við sáum Reece James aftur á vellinum. Edouard Mendy er svo einn besti markvörður heims - fóknara er það nú ekki.


Chelsea til sölu?

Aðeins um gang mála utan vallar hjá Chelsea. Það er staðreynd að nafn Chelsea er að dragast töluvert inn í stríðsátökin í Úkraínu vegna tengsla Roman Abramovich við Vladimir Putin. Skiljanlega er því velt upp hvað þetta þýðir fyrir Chelsea Football Club ef viðskiptahöft yrðu sett á Abramovich. Mótleikur Romans var að hætta öllum daglegum afskiptum af rekstri Chelsea og láta þau völd í hendur á góðgerðasjóði félagsins.


Persónulega hefði ég viljað sjá sterkari yfirlýsingu frá Abramovich, þar sem hann t.d. myndi fordæma þessar árásir Rússa á Úkraínu. Það er þó vert að minnast á að í vikunni tók Abramovich þátt í einhverskonar friðarviðræðum á milli Rússa og Úkraínumanna að beiðni úkraínskra yfirvalda - þessar viðræður eiga að halda áfram á fimmtudag.


Samkvæmt frétt Telegraph þýðir þetta að í fyrsta skipti sé Roman Abramovich að íhuga að selja félagið og í morgunsárið bárust fréttir af fjárfestahóp sem er leiddur af hinum áttræða Hansjörg Wyss - hvað sem verður úr þessu mun tíminn einn leiða í ljós.


Byrjunarliðið

Jæja, aftur að fótboltanum! Tuchel sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að margir leikmenn væru þreyttir og lemstraðir eftir úrslitaleikinn og því munum við sjá alvöru róteringu. Hann sagði að Ziyech og James væru klárlega frá en tiltók ekki fleiri leikmenn. Það er hins vegar líklegt að Azpilicueta og Chalobah séu einnig frá ásamt Christensen sem gerir varnarlínuna okkar ansi veikburða.


Ég held að Kepa fái þennan leik í markinu og að fyrir framan hann verði Sarr, Lewis Hall og Rudiger (sem alltaf spilar alla leiki). Jorginho og Loftus-Cheek standa vaktina á miðjunni og Saul og CHO eru í væng-bakvörðum. Frammi eru svo Werner, Mount og Romelu Lukaku. Sterkt lið, þó það vanti marga leikmenn.



Luton Town

Þetta er í annað sinn á rétt rúmu ári sem við mætum Luton í FA bikarnum, en í janúar í fyrra slógum við þá út úr 4. umferð bikarsins. Sá leikur endaði 3-1 þar sem Tammy Abraham skoraði þrennu.


Luton eru núna á miklu skriði í Championship deildinni, eru í sjötta sæti með fjóra sigra úr síðustu fimm leikjum. Með öðrum orðum þá eru þeir í bullandi umspilsbaráttu og eiga því ennþá séns að komast upp í ensku Úrvalsdeildina. Það væri ekkert smá afrek, því Luton er lítill klúbbur og t.d. tekur völlurinn þeirra ekki nema rúmlega tíu þúsund áhorfendur.


Þjálfari liðsins er hinn 48 ára gamli Nathan Jones. Hann var neðrideildar spilari og spilaði lengst af með Brighton og Yeovil Town. Hann tók upphaflega við Luton árið 2016 en hætti árið 2019 til að taka við Stoke City sem hann endist aðeins með í nokkra mánuði. Hann kom aftur til Luton áripð 2020 og hefur verið að gera ljómandi gott mót á þessu tímabili.


Luton spila leikkerfið 3-5-2 og þekktustu leikmenn liðsins eru þeir Robert Snodgrass, Cameron Jerome og Henri Lansbury. Þessir kappar eru þó langt frá því að vera í einhverju svaka aðalhlutverki (miðað við spilaðar mínútur amk). Hinn 24 ára gamli Elijah Adebayo er þeirra aðal markaskorari en hann er 194 cm á hæð með 12 mörk í Championship deildinni.


Spá

Við eigum að vinna þennan leik og það örugglega. Ætla að spá 3-1 sigri (eins og síðast). Lukaku með tvö og Werner með eitt.


KTBFFH

- Jóhann Már

Comments


bottom of page