top of page
Search

Toppbaráttan kvödd, baráttan um Meistaradeildarsæti hafinChelsea menn töpuðu sínum öðrum leik í röð gegn sprækum Wolves mönnum og eru nú með 22 stig í 13 leikjum og með 4 stig í síðustu 4 leikjum. Þetta er versta byrjun Chelsea síðan á hörmungartímabilinu 15/16 en þá voru stigin 14 eftir 13 leiki. Ef að liðin í kringum okkur vinna sína leiki gætum við sogast niður í 9. sæti í lok umferðarinnar, svo staðan er ekki góð. Aðeins 6 sigrar í 13 umferðum er alls ekki nógu gott. Mögulega vorum við Chelsea menn blekktir eftir sigra gegn liðum í neðri hluta deildarinnar eins og Crystal Palace, Burnley, Sheffield Utd., Newcastle og Leeds, og fóru fram úr sér varðandi væntingar fyrir þetta tímabil, það gerði ég að minnsta kosti. Þessi tvö töp eru svo sannarlega búin að rífa mann niður úr skýjunum og skella manni kylliflötum niður á jörðina. Chelsea liðið er alls ekki tilbúið í titilbaráttu, hvorki leikmenn liðsins né þjálfarinn.


Leikurinn

Okkar menn byrjuðu leikinn vel og höfðu í raun öll völd yfir leiknum í fyrri hálfleik, án þess að skapa mikið af færum. Pulisic var virkilega líflegur á vinstri kantinum og linkaði vel upp með Chilwell. Kanté vann alla dauða bolta og Giroud var þyrstur í mark og var oft nálægt því að komast með kollinn í fyrirgjafir bakvarðanna en það vantaði herslumuninn. Zouma átti frábæran skalla sem small í slánni eftir hornspyrnu Mount en liðin fóru markalaus í hálfleik. Seinni hálfleikur byrjaði frábærlega með marki Giroud eftir góðan undirbúning Chilwell og klaufaleg mistök Rui Patricio í marki Úlfanna. 1-0 og okkar menn að halda boltanum vel.


Þegar leið á leikinn fóru okkar menn að þreytast all verulega og Wolves unnu alla seinni bolta og litu frekar út fyrir að geta jafnað leikinn heldur en Chelsea að bæta við forystuna. Það tókst þeim eftir að hafa fengið ranglega dæmda hornspyrnu á 66. mínútu þegar Daniel Podence skaut lúmsku skoti sem breytti um stefnu af James og endaði í netinu. Að mínu mati er ekki sanngjarnt að kenna Mendy um þetta mark, margir menn í teignum og boltinn breytti um stefnu.


Okkar menn virtust vera alveg búnir á því eftir jöfnunarmarkið og liðið alls ekki þétt og alltof langt á milli miðju og varnar. Wolves menn fengu flugbraut í hvert skipti sem við misstum boltann og voru fljótir að koma boltanum á Podence eða Neto, sem voru frábærir í leiknum. Við vorum hugmyndasnauðir fram á við og Wolves menn þéttir og beittu hættulegum skyndisóknum, sem endaði með sigurmarki á 96. mínútu eftir gott mark hjá Pedro Neto, manni leiksins.


Það þýðir ekki að dvelja of lengi við þetta tap enda stutt í næsta leik, en það er nokkuð ljóst að okkar menn eru einfaldlega ekki tilbúnir í titilbaráttu á þessu tímabili. Það er kannski ekki skrítið miðað við breytinguna á leikmannahópnum frá síðasta tímabili, maður var e.t.v. blindaður af of góðu gengi í undanförnum leikjum.


Hér koma nokkrir punktar eftir leikinn, ég reyni að vera ekki of neikvæður:

  • Kanté er besti djúpi miðjumaður í heimi - hefur verið frábær á öllu tímabilinu. Hjálpar vörninni og ryksugar alla dauða bolta upp. Frábær leikmaður í sinni réttu stöðu.

  • Havertz heldur áfram að hafa hægt um sig. Hann þarf að fara að taka meiri áhættu, hann velur alltaf einföldustu sendinguna og skapar lítið sem ekkert. Hann er oft vel staðsettur en framkvæmdin er ekki nógu góð. Hann er einnig of linur og of auðvelt að ná af honum boltanum.

  • Við fórum meira upp vinstri kantinn en í undanförnum leikjum og Chilwell meira með í sóknarleiknum, hefur vantað í undanförnum leikjum þar sem við höfum nánast einungis notað hægri kantinn með Reece James í sóknum. Það virkaði ágætlega fram að marki Giroud en eftir að Pulisic og Werner skiptu um stöðu urðu þeir báðir algjörlega geldir og Chilwell sömuleiðis. Ég skil ekki þá ákvörðun að láta Werner og Pulisic skipta um kanta, enda var Pulisic að valda varnarmönnum Wolves alls konar vandræðum á vinstri vængnum.

  • Pulisic frábær í fyrri hálfleik, maður getur ekki annað en hugsað til Eden Hazard þegar maður horfir á hann spila, vonandi helst hann heill því við þurfum á honum að halda.

  • Það er hálfgerð synd að spila Werner á kantinum, greinilega ekki hans besta staða og greinilegt að honum líður ekki vel þarna. Það er samt erfitt að réttlæta að taka Giroud úr liðinu þegar hann heldur áfram að skora samt, ég velti því fyrir mér hvort að við ættum einfaldlega að skipta um leikkerfi og spila með þá báða uppi á topp.

  • Zouma frábær í fyrri hálfleik, nýr leikmaður frá síðustu leiktíð. Étur alla skallabolta og hættulegur í föstum leikatriðum. Hægðist á honum í seinni hálfleik og spurning hvort að hann hefði getað gert betur í sigurmarki Wolves.

  • Silva spilaði eins og kóngur, las leikinn og stýrði mönnum eins og hann gat. Dugði því miður ekki í dag.

  • Chilwell tapaði boltanum 30 sinnum í leiknum, meira en nokkur annar Chelsea leikmaður á leiktíðinni. Það er einfaldlega ekki nógu gott.

  • Við þurfum að skapa meira fram á við og reyna aðra hluti en að dæla fyrirgjöfum inn í pakkann, það er lítið að koma út úr því.

  • Ziyech getur ekki komið úr meiðslum nógu snemma. Hans er sárt saknað.

Einkunnir leikmanna

Mendy - 6

James - 6,5

Silva - 8

Zouma - 6,5

Chilwell - 6

Kanté - 7,5

Mount - 6

Havertz - 5

Werner - 5

Pulisic - 7

Giroud - 6,5


Abraham - 6

Kovacic - 6


Með von um að fótboltaguðirnir létti á okkur Chelsea mönnum með sigri á móti West Ham n.k. mánudag.


KTBFFH

Þór Jensen


Comments


bottom of page