top of page
Search

Svekkjandi tap í úrslitaleik FA BikarsinsChelsea tapaði í dag öðrum úrslitaleiknum í FA Bikarnum á aðeins 10 mánuðum. Þetta tap svíður og svíður sárt. Leikurinn í dag fer seint í sögubækurnar sem einhver flugeldasýning, þvert á móti var leikurinn lokaður og taktískur. Það var einhvernveginn eins og bæði lið væru að bíða eftir því að andstæðingurinn myndi gera mistök og því einkenndist sóknarleikur beggja liða af tilviljanakenndum löngum sendingum sem sköpuðu litla hættu. Chelsea voru engu að síður mun meira með boltann og stjórnuðu þannig leiknum án þess þó að skapa neina hættu.


Í seinni hálfleik tóku Leicester frumkvæðið og stigu aðeins hærra upp á völlinn og fóru að pressa okkar menn betur. Það var svo Belginn Youri Tielemans braut ísinn með sannkölluðum þrumufleyg af 30 metrum. Við þetta gjörbreyttist leikmynd leiksins og allt í einu vöknuðu okkar menn úr rotinu og Tuchel setti inná sóknarsinnaða leikmenn.


Mason Mount átti skot sem maður leiksins Kasper Schmeichel varði stórkostlega, skömmu áður hafði Daninn varið góðan skalla frá Ben Chilwell. En stóra svekkelsið kom þegar örfáar mínútur voru eftir að leiknum, þá átti T. Silva frábæra sendingu inn fyrir vörn Leicester þar sem Ben Chilwell kom á ferðinni og tókst að koma boltanum í netið eftir mikið klafs í teignum. En því miður þá greip VAR-sjáin þarna inn í og dæmdi Chilwell rangstæðan – sannkölluð „handakrika-rangstæða“ þarna á ferð og svekkelsið algert.Umræðupunktar

· Tuchel kom á óvart með því að setja Reece James í vörnina og hafa Azpilicueta á vængnum. Reece James stóð sig vel gegn Vardy og var í raun með hann í vasanum en því miður var „Captain Dave“ slakur sóknarlega – Hvers vegna byrjaði Hudson-Odoi ekki bara leikinn fyrst James fékk kallið í vörnina?


· Segja má að þetta sé fyrsta alvöru brekkan sem Tuchel lendir í með Chelsea. Það verður því gríðarlega áhugavert að sjá hvernig honum tekst að eiga við liðið eftir þessi miklu vonbrigði.


· Chelsea hefur ekki skorað mark í 180 mínútur og virðist vera komin sóknarkrísa upp á versta mögulega tíma. Boltinn gengur alltof hægt á milli manna á síðasta þriðjung vallarins sem gerir það að verkum að auðvelt er fyrir andstæðinga okkar að liggja til baka og verjast á litlu svæði. Við höfum saknað Kovacic til að sprengja upp miðjuspilið okkar og gera hlutina á hraðara tempói.


· Tuchel þarf að nálgast leikina með aðeins meiri sóknarákefð. Næstu tveir leikir í deildinni, gegn Leicester og Aston Villa, munu spilast eins og þessi leikur, við með boltann að reyna brjóta niður þéttan varnarmúr. Ég vil sjá hann gefa Hudson-Odoi vængbakvörðinn og vonandi kemur Kovacic úr meiðslum.


· Hefði Mendy varið skotið frá Tielemans? Kannski, kannski ekki...


· Það hljómar eflaust asnalega en það var eins og Leicester City þráði þennan sigur meira en okkar menn.


· Menn mega ekki svekkja sig lengi – risaleikur næstkomandi þriðjudag þar sem menn geta náð fram hefndum strax.


xG-Bardaginn


Einkunnir leikmanna

Kepa – 6

Markið var engan veginn honum að kenna en kannski hefðu topp 5 markmenn heims náð að verja þetta góða skot frá Tielemans.


Rudiger – 7

Flottur leikur hjá Rudi, var flottur í baráttunni gegn Iheanacho sem var skipt útaf snemma í síðari hálfleik.

R. James – 7

Flottur bardagi hjá Reece við Jamie Vardy, spilaði nýja stöðu sem gæti hentað honum mjög vel í framtíðinni.


T. Silva – 7

Stoðsendingin á Chilwell hefði verið í heimsklassa ef markið hefði bara fengið að standa. Silva var góður á boltann og steig ekki feilspor í vörninni. Vel hann mann leiksins.


Jorginho – 6

Síðast hálftíminn af þessum leik var ekki ósvipaður Arsenal leiknum þar sem við lágum á þeim í leit að jöfnunarmarki. Leicester leyfði Jorginho að dvelja mikið á boltanum, eitthvað sem er því miður hættulaust fyrir andstæðinginn því Jorgi ógnar hvorki með skoti né hættumlegum sendingum. Velur of oft auðveldu leiðina.


Kante – 6

Náði oft upp fínasta takti en hvarf líka inn á milli. Stundum er ákvarðanatakan slök á síðasta þriðjungnum og sendingargæðin voru ekki nægilega góð heldur.


Azpilicueta – 5

Ekki við hann að sakast, er ekki að spila stöðu sem hentar honum, ekkert frekar en Pulisic væri góður miðvörður. Það er engin ógn í Azpi í stöðunni 1 vs 1 og þar að auki er hann með lítin hraða – þetta tvennt gerir það að verkum að auðvelt er að verjast honum.


M. Alonso – 5

Fékk sénsinn en náði því miður ekki að setja mark sitt á leikinn með neinum hætti.


Mount – 6

Var alveg svakalega óheppinn að skora ekki þegar Schmeichel varði stórkostlega frá honum. Hafði annars nokkuð hægt um sig og þarf að rífa sig aftur í gang – því við söknum hans.


Ziyech – 4

Ég var mjög glaður að sjá Ziyech fá traustið í dag en hann var mjög slakur og náði sér aldrei í almennilegan takt við leikinn.


Werner – 4

Slæmur leikur hjá þeim þýska. Skaut þegar hann átti að gefa boltann, gaf boltann þegar hann átti að skjóta. Var algerlega í vasanum á Fofana og hefði líklega átt að skipta honum út af mun fyrr.


Pulisic – 6

Kom með áræðni og þorði að keyra á vörnina hjá Leicester City.


Chilwell – 7

Hefði verið svo sætt ef hann hefði jafnað. Var okkar hættulegast maður eftir að hann kom inná.


Hudson-Odoi - N/A

Havertz – N/A

Giroud – N/A


Þetta tap mun svíða í einhvern tíma.


Keep the blue flag flying high

- Jóhann Már Helgason

Comments


bottom of page