Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 30. ágúst 2022 kl. 18:45
Leikvangur: St. Mary's Stadium
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Ölver og aðrar betri sportrásir
Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson
Jæja gott fólk! Eftir erfiðan laugardag er komið að næsta stríði hjá okkar mönnum og verða Dýrðlingarnir frá Southampton heimsóttir á völlinn hennar heilögu Maríu. Fyrir leikinn erum við í 6. sæti með 7 stig og stendur ekkert annað til en að halda heim að honum loknum með 10 stig í pokanum. Southampton situr hins vegar í 13. sæti með 4 punkta eins og er. Talandi um erfiðan laugardag, þá á ég við leikinn gegn Leicester, sem reyndist óþarflega spennuvaldandi, og væri hægt að ræða hann langt fram í næstu viku, en okkar menn þurftu að spila einum færri í 60 mínútur, þar sem Conor Gallager ákvað að bjóða upp á glórulausa tæklingu með gult spjald á bakinu eftir tæplega hálftíma leik og tók snemmbúna sturtu þann daginn. Við tók viðburðarríkur seinni hálfleikur en snöggsoðin hálfleiksherfræði virðist hafa virkað og skoraði Raheem Sterling flott mark snemma í seinni hálfleik og bætti svo öðru við á 63. mínútu og ég er enn að hrækja út úr mér leifunum af sokknum sem Draumurinn stakk upp í okkur sem vorum búnir að lýsa yfir vonbrigðum með hans frammistöðu.
Refirnir náðu að klóra í bakkann með marki seint í leiknum og pressuðu duglega undir lokin, en okkar menn náðu að standast storminn og lönduðum við þremur mikilvægum punktum. Tuchel sagði eftir leikinn að hann gæti raunar lítið tekið út úr þessum leik, þar sem liðið var leikmanni færri nánast allann leikinn, en viðurkenndi að hann væri ekkert sérlega hress með óþarfa ákefð í Conor Gallagher, en batnandi mönnum er jú best að lifa og Conor heldur haus og mætir þríelfdur eftir bann. Reyndar voru það vonbrigði hvað Kai og Mount voru suðaustan við sjálfa sig og virðast einhvern veginn ekki tilbúnir í þennan slag. Aðrir voru að mestu að sinna sínu vel og sérstaklega voru Ruben Loftus Cheek, Thiago Silva og Cucurella að eiga góðan dag og mikilvæg 3 stig í hús.
Snorri velti fyrir sér félagaskiptaglugganum ítarlega í síðustu upphitun og eru síðustu vendingar þær að Fofana fór í læknisskoðun hjá Chelsea á sunnudag, þannig að hans mál virðast vera nokkuð klár og verður hann væntanlega kynntur til leiks fyrri hluta vikunnar. Nú virðist sem hinn fljótandi ferðakamar frá Manchesterborg sé að bera víurnar í Aubmeyang, og hefur þetta verið að trufla viðræður milli Chelsea og staurblönku Katalónanna frá Barcelona, en samkvæmt alvitrum Romano, þá sýnir gullkeðjan nákvæmlega öngvann áhuga á að ganga í raðir Manchester manna að þessu sinni og verður vafalaust einhver farsi í kring um þetta mál. Chalobah fer ekki fet samkvæmt nýjustu tíðindum enda ætlar TT að nota kauða. Hann hefur reyndar átt fína spretti og gæti bætt sig mikið með Silva, Cucurella og Azpi sem andlega leiðbeinendur og með þeim orðum lýk ég vangaveltum um komur og brottfarir.
Byrjunarliðið
Ég hef fulla trú á að Mendy standi á milli stanganna þar sem honum hefur verið fyrirgefið klúðrið um daginn gegn Leeds. Hef trú á að Koulibaly, Cucurella og Azpi skipi miðvarðartríóið og Silva verði hvíldur, enda var blessaður öldungurinn orðinn þreyttur undir lokin í síðasta leik. WB parið verða þeir Ben Chilwell og Reece James. Þar sem Gallager er í kælingu vil ég sjá króatíska köggulinn Kovacic með Ruben Loftus sér við hlið, en Jorgi vermir bekkinn að þessu sinni. Framarlega held ég að einhverjar breytingar verði gerðar, en Sterling verður klárlega í byrjunarliði og ég held að Havertz blætið sé svo ráðandi að hann verði áfram í byrjunarliði og vona ég innilega, að hann fari að ná áttum. Hins vegar er stór spurning með Mason Mount og verð ég bara að segja, að hann virkar ekkert sérlega sannfærandi og væri ég alveg til í að sjá Pulisic inn í hans stað og spái því hér með.
Southampton
Dýrðlingarnir frá Southampton eru óútreiknanlegir og eru annaðhvort svo vandræðalega lélegir, að það nálgast gott uppistand, eða þá allt í einu hrökkva þeir í einhvern gír og spila fínan bolta. Þeir byrjuðu tímabilið á að skíttapa fyrir Spurs, gerðu svo jafntefli við Leeds, og í 3. umferð unnu þeir Leicester, en töpuðu fyrir Manchester Utd í þeirri fjórðu. Manchester máttu þakka fyrir að ná sigri gegn Southampton og stóðu Dýrðlingarnir sannarlega í þeim. Einnig má geta, að liðið komst í metabækurnar á þarsíðasta tímabili, þegar þeir töpuðu fyrir Man Utd 9-0 á Old Trafford, og 9-0 á heimavelli fyrir Leicester tímabilið 19-20. Ég tel víst að byrjunarliðið verði það sama og gegn United og liðið stólar mikið á þeirra bestu menn, þá Ward-Prowse, Adams og Armstrong sem hefur stundum reynst okkur erfiður. En eins og við þekkjum allt of vel, þá hafa lið eins og einmitt Southampton, oft reynst okkur erfið. Ég er orðinn allt of gamall og lasburða, til að horfa á einhverja hörmungarleiki, á móti liði sem við eigum að valta yfir, ef allt er eðlilegt.
Spá
Ég ætla að gerast svo djarfur að spá nettri flugeldasýningu. Þetta er klár skyldusigur og ef við förum í einhverjar tölur, þá ætla ég að spá okkar mönnum 4-0 sigri og það verði Cucurella sem setji eitt, eftir gríðarlegt hlaup með flaksandi makkann. Loftus-Cheek setur eitt og Sterling heldur uppteknum hætti og setur tvö. Tómas okkar er búinn að teikna upp góða skemmtun fyrir okkur og munum að þakka vel fyrir það. Ég er bjartsýnn og mjöðmin segir mér að góðir tímar séu framundan.
Comments