top of page
Search

Stóra stundin runnin upp: Chelsea vs Wolves

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 26. júlí, kl. 15:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason

Jæja kæri lesandi, n.k. sunnudag mun óvenjulegasta tímabili í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar ljúka. Tímabilinu þar sem allt fór í stopp, tímabilinu þar sem allt fór aftur á fullt, tímabilinu þar sem Úrvalsdeildarfótbolti var spilaður í júlí.


Tímabilinu sem alltaf verður kennt við Covid.


Fyrir okkur stuðningsmenn Chelsea er þetta búið að vera lærdómsríkt tímabil þar sem okkar allra besti Super Frankie Lampard er á sínu jómfrúartímabili með liðið. Chelsea hefur t.d. aldrei fengið á sig fleiri mörk á einu tímabili síðan að Abramovich keypti klúbbinn. Meira að segja hörmungartímabilið 2015/16 fengum við á okkur 53 mörk, þau telja núna 54 og ennþá er einn leikur eftir. Vörn og markvarsla hafa m.ö.o. verið alger hörmung.


Sóknarleikur liðsins hefur aftur á móti verið flottur, 67 mörk sem er það þriðja besta í deildinni. Liðið spilar hápressufótbolta (sem það ræður illa við varnarlega), reynir að spila stutt frá aftasta manni þar sem bakverðir þrýsta hátt upp og vængmenn spila í raun eins og framherjar. Allt mjög áhættusamt og skemmtilegt. Stærsta saga þessa tímabils er líklega frábær frammistaða ungu leikmannanna sem margir hverjir eru búnir að festa sig í sessi, leikmenn eins og Mount, James, Pulisic og Tammy hafa allir spilað lykilhlutverk á leiktíðinni.


Það eru spennandi tímar framundan, liðið er að styrkjast gríðarlega með komu Ziyech og Werner (og kannski Havertz líka). En svo að næsta tímabil verði eins skemmtilegt og kostur er á þurfa okkar menn að spila einn lokaleik á tímabilinu þar sem þeir verða að sækja góð úrslit og þannig gulltryggja sæti í Meistaradeild Evrópu.


Leikurinn gegn Wolves

Það er í raun alveg lygilegt hvernig staðan er í þessari Meistaradeildarbaráttu. Sú einstaka staða er núna uppi að öll þessi fjögur lið sem spila innbyrðis hafa málin í sínum höndum og þurfa ekki að treysta á aðra. Chelsea, Leicester, Man Utd og Wolves þurfa bara á sigri að halda þá fara þau í Evrópukeppni (Evrópudeildina í tilfelli Wolves). Í tilfelli okkar Chelsea manna dugar jafntefli alltaf og ef Man Utd vinnur Leicester þá skipta úrslitin úr okkar leik ekki neinu máli fyrir okkur - þá endum við alltaf fyrir ofan Leicester City. Mér hefur hins vegar alltaf þótt hættulegt að "duga jafnteflið" því þá fara lið oft ómeðvitað að spila upp á það og verða um leið of varkár, ég vil sjá okkar menn ráðast á þennan leik að fullum krafti og sækja sigurinn. Það er mín skoðun að ef Chelsea getur ekki náð jafntefli í lokaleik gegn Wolves til að fara í Meistaradeildina þá eigum við líklega ekki heima í þeirri ágætu deild.

Að leiknum sjálfum. Ég er búinn að sjá nóg af þessu 3-4-3 kerfi. Við spilum alltaf einn góðan leik í slíku kerfi en síðan ekki söguna meir. Vissulega unnum við stórkostlegan 2-5 sigur á Wolves í upphafi þessarar leiktíðar spilandi það kerfi en ég vil sjá Chelsea spila 4-3-3. Okkar menn voru galopnir í leiknum gegn Liverpool og ég er viss um að Nuna Espiranto Santo sé að "drilla" sitt þannig að Chelsea muni spila 3-4-3.


Ef ég fengi að hvísla ráðum að eyra Super Frank myndi ég setja Willy Caballero í markið. Vörnin myndi samastanda af þeim Azpi, James, Rudiger og Zouma. Á miðjunni myndi ég velja Kanté (sem líklega/vonandi verður heill skv. Lampard), Mount og Kovacic. Framlínan væri svo Willian, Pulisic og Giroud.

Fyrir mér er þetta sterkasta byrjunarliðið okkar í dag, góð blanda af sókn og vörn á miðjunni og mikill hraði og gæði í fremstu víglínu. Svo er bara að vona að vörnin okkar hitti á almennilegan dag! Ég set Willy Caballero í markið einfaldlega vegna þess að Kepa virðist hafa misst traust liðsfélaga sinna eins og sást í leiknum gegn Liverpool - slíkt gengur einfaldlega ekki upp með markmenn.


Wolves

Ég hef sagt það áður á þessari síðu að Wolves er eitt af mínum uppáhalds liðum í ensku Úrvalsdeildinni. Nunu Santo er gjörsamlega frábær þjálfari sem er með mjög svipaðar áherslur og Antonio Conte. Mjög öflug fimm manna varnarlína þegar liðið verst. Frábærir miðjumenn í Ruben Neves og Moutinho og gríðarleg gæði fram á við í Adama Traore, Diego Jota, Pedro Neto og Raul Jiménez. Ég skora á lesendur að horfa vel á uppspilið og sendingamynstrin í leik Wolves, þau eru öll mjög vel skipulögð og lítið um tilviljanir í leik þeirra, nema þegar áðurnefndur Adama Traore fær boltann - það er varla hægt að stöðva hann þegar hann er kominn á fulla ferð. Allir leikmenn Wolves þekkja sín hlutverk mjög vel og liðið gerir afskaplega sjaldan slæm mistök varnarlega séð.


Eftir því sem ég best sé eru allir helstu lykilmenn Wolves heilir heilsu og engin leikmaður í banni. Þeir eiga því að geta stillt upp sínu sterkasta liði.


Þetta verður alls ekki auðveldur leikur - Wolves eru með frábært lið.


Spá og pælingar

Líkt og ég kom inn á áðan að þá vonast ég eftir að Lampard spili 4-3-3. Ég vil sjá Mount og Kovacic sprengja upp miðjuna með eitruðum hlaupum og koma þannig Willian og sérstaklega Pulisic í góðar einn vs einn stöður. Þá eru okkur allir vegir færir og þá ættum við að skora mörk. Ég hef bara, eins og alltaf, miklar áhyggjur af vörninni og vonast til þess að okkar menn verði með almennilegan fókus gegn Jiménez, Traore og co. Fyrir mér skiptir miklu máli að Kanté geti tekið þátt í leiknum, ef það er raunin þá held ég að það geri helling fyrir vörnina að hafa hann þar fyrir framan að vinna boltann trekk í trekk.


Ég ætla að spá okkur 2-1 sigri - Pulisic með bæði mörkin enda að mínu viti orðin yfirburðabesti leikmaðurinn í þessu liði ásamt Kanté.KTBFFH


Bình luận


bottom of page